11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

38. mál, fjárlög 1950

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Nafn mitt stendur hér við örfáar brtt., og get ég notað fá orð til að ræða þær, þar sem meðflm. minn er áður búinn að mæla með þeim.

Það er þá fyrst, á þskj. 712, till. um að hækka nokkuð styrk til lendingarbóta á Eyrarbakka, eða úr 15 þús. í 30 þús. kr. Það hefði nú suma ekki svimað við þessa hækkun stundum, ef öðruvísi hefði staðið á, því að sviminn fer nú ekki alltaf eftir hæð bjarganna, heldur eftir því, hvar þau eru á landinu. — Eyrarbakki hefur löngum átt í vök að verjast í brimlendingu; en enda þótt sjósókn hafi verið þar torveld, hefur Eyrbekkingum þó nýtzt furðanlega vel aflinn, en þess ættu þeir þó sízt að gjalda, að vera drjúgir á litlum afla. Þeir hafa mikla þörf fyrir bætta innsiglingu, því að það er hart, ef fiskurinn liggur utan við landsteinana, að geta ekki sótt hann tímum saman. Á það ber líka að líta í þessu tilfelli, að not þeirra, sem á Eyrarbakka búa, eru not ríkisins, því að þeir eru landsetar þess, og umbætur á Eyrarbakka eru umbætur á ríkiseign. Fram hjá því atriði má ekki ganga, þegar þetta er vegið og metið. Því kann nú að verða til svarað, að Eyrbekkingar þurfi ekki á þessari 15 þús. kr. viðbót að halda, því að þeir eigi enn óeytt til þessara framkvæmda um 20 þús. kr. En það breytir nú engu í þá átt, og t.d. eru Stokkseyri ætlaðar 35 þús. kr., eða álíka og Eyrarbakki hefði þá nú úr að spila, enda er miklu hagkvæmara með þeim stórvirku tækjum, sem nú er völ á, svo erfið sem þau eru til flutnings, að geta gert stórt átak á einu sumri heldur en mörg smá.

Þá er önnur till. á sama þskj., sem við erum einnig flm. að, og lýtur hún að umbótum og þurrkun á ræktunarlöndum Stokkseyringa. Hér er enn svo háttað, að það, sem gert er fyrir Stokkseyri, er gert fyrir ríkið. Undanfarið hafa Stokkseyringar fengið nokkurt fé til þessara framkvæmda, en skurðgröftur er þar hin mesta nauðsyn. Þar er vatnsagi mikill í jörðu frá Flóaáveitunni fyrst og fremst, og menn eiga erfitt með að verja ræktunarlönd eins og tún og jafnvel matjurtagarða. Um þörf til þessa þykist ég vita að liggi fyrir viðurkenning frá Búnaðarfélagi Íslands, enda er þetta byggt á fullgildum rökum. Við settum aðeins 50 þús. kr. í okkar till., enda þátt beðið hefði verið um 100 þús., og við vorum svo kurteisir að láta fylgja varatill. um ein 30 þúsund — eins og unglingar, sem finna til aðhalds og fara annaðhvort að brúka kjaft eða verða auðmjúkir. Við tókum síðari kostinn og væntum, að það bæti fyrir till. heldur en hitt, en á því er sem sagt brýn nauðsyn, að nokkurt fé verði veitt til þessara framkvæmda, og vonumst við til, að hv. alþm. taki undir þetta mál af skilningi.

Þá erum við flm. að þriðju till., sem er um dálítinn byggingarstyrk til húsmæðraskóla frú Árnýjar Filippusdóttur í Hveragerði, þeirrar ágætu konu. Ég ætlaði nú að fara að segja þetta á óþinglegan hátt, því að okkur lízt báðum vel á Árnýju, en eins og alkunna er, þá er hún ágætur kennari, og færri stúlkur fá vist, en vilja við hennar góða skóla. Hún brauzt í því fátæk af eigin rammleik að reisa þetta menntasetur, og hún á að fá að njóta þess dugnaðar, en eigi gjalda. Ég vona, að hv. alþm. líti á það, hve vel þessi góði húsmæðrafræðari er að þessu kominn og þörfin mikil að þeir láti hana njóta þess, hvílíkur kvenkostur hún er og skóli hennar vinsæll og fjölsóttur.

Þá er síðasta till., sem ég er við riðinn, en hv. þm. A-Sk. er frumflm. að, en hún er um utanfararstyrk til Björns Guðfinnssonar prófessors. Hann hefur átt við miklar þjáningar og langvarandi veikindi að stríða. Ég dvaldi með honum um tíma á landsspítalanum s.l. haust og vissi til þess, að lækni hans var mjög umhugað um það, að hann kæmist til frægra lækna í Ameríku til uppskurðar. Það hefur sjö sinnum verið gerður á honum holskurður, og til þess að bjarga nú lífi hans, þarf að gera á honum áttunda skurðinn. Ég ætla ekki að fara fram á nema 25 þús. kr. styrk til hans nú í þessu skyni, og meira að segja aðeins 15 þús. til vara, enda þótt gert væri ráð fyrir, að 45 þús. væri nær sanni. Ég vil svo ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta. Ég veit, að fjárveitingavaldið hefur ekki aflað mikilla dollara um skeið, en vona, að það skilji, að ekki sæmir að líta fyrst og fremst á þetta frá reikningslegu sjónarmiði, eins og um væri að ræða framlög t.d. til véla og báta. Hér er sjálft lífið í hættu og svo mikil nauðsyn á hjálp, að ekki má undan stýra, og ég vona, að það litla, sem enn er til í okkur flestum af skilningi handan við dollaraútsýnið, ráði samþykkt þessarar till. Það ræði ég svo ekki frekar, hver einstakur þm. verður að gera þetta upp við sig; ég vona aðeins, að það verði aðaltill., sem samþykki nær.

Ég læt nú staðar numið. Mig hefði að vísu langað til að flytja langtum fleiri brtt. við þessi fjárl., en ég er svo „dresseraður“ undir harðri hendi, að ég hafði ekki í fullu tré með það og hef orðið að láta þetta nægja.