11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

38. mál, fjárlög 1950

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru mér og öðrum Alþýðuflokksmönnum mikil vonbrigði, að hæstv. ríkisstj. skuli eigi hafa séð sér fært að flytja á þessu þingi frv. til nýrra launal. Raunar má segja, að ekki hafi verið hinu bezta við að búast af hæstv. stj. í þeim málum, kjaramálum opinberra starfsmanna, því að núverandi hæstv. stj. hefur beinlínis lækkað laun þeirra frá því, sem ákveðið var á miðju síðastliðnu ári, en þá fengu þeir 20% launauppbót skv. alþingissamþykkt. Hélt flokksstj. Sjálfstfl. áfram að greiða opinberum starfsmönnum þessa uppbót, en núverandi hæstv. stj. lækkaði hana í 15%. Má því segja, að eigi sé við góðu að búast af hennar hálfu. Engu að síður er það svo, að þetta hefur valdið vonbrigðum. Nokkur huggun er það þó, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt það til, á þskj. 713, að launauppbótargreiðslum verði haldið áfram, þótt fyrirkomulaginu sé breytt á tilhögun þeirra, þar sem uppbætur koma eigi jafnt á öll laun, heldur fara stighækkandi eftir því, sem launin lækka. En sá böggull fylgir skammrifi, að 10% lenging starfstíma á skrifstofum ríkisins á að fylgja, svo að hér verður um tiltölulega mjög litla raunverulega kauphækkun að ræða. Liggur það í augum uppi, að sé tímakaup reiknað, þá hækka launin u.m litinn hundraðshluta. Þessa afgreiðslu teljum við Alþýðuflokksmenn ekki við unandi. Leggjum við því til í brtt. 725, Ill að launauppbótin sé hækkuð um 30% frá því, er hæstv. stj. leggur til, og felld sé niður lenging vinnutímans, sú er ráð er fyrir gert í brtt. hæstv. stj. Ég vil vekja athygli á því, að mér virðist sem um mistök hafi verið að ræða í brtt. hennar, þar sem gert er ráð fyrir að greiða launauppbæturnar frá 1. júní. Geri ég ráð fyrir, að svo hafi verið hugsað, þar eð komið er fram í maímánuð, að eðlilegt væri að miða greiðslurnar við 1. n. m. En líklega hefur ekki verið athugað, að launauppbæturnar hafa verið greiddar eftir á. Nú hafa engar uppbætur verið greiddar fyrir maímánuð. Hefði því verið eðlilegra að orða till. svo, að launauppbæturnar skuli greiða frá 1. maí. Eðlilegra er að miða ákvæðin við það, frá hvaða tíma uppbæturnar eru greiddar, en eigi þann tíma, er útborgun þeirra fer fram. Því höfum við Alþýðuflokksmenn miðað brtt. okkar við 1. maí. Ég vil þó taka það fram, að jafnvel þótt till. okkar á þskj. 725 verði samþ., þá er eigi að fullu gengið til móts við rökstuddar kröfur starfsmannafélags ríkisstofnana. Hefur verið sýnt fram á, að grunnkaup stéttarfélaga með frjálsum samningsrétti hefur hækkað um 221/2% frá febrúarmánuði 1945 til júlíloka 1949, og miðað við grunnkaupshækkanir síðan, má telja, að hækkanir stéttarfélaga nemi alls um 25% frá þeim tíma, er launal. voru sett, svo að segja má, að alls staðar þar, sem launahækkanirnar nema minni hundraðshluta en 25%, séu opinberir starfsmenn orðnir aftur úr miðað við þá, er hækkað hafa kaupið með frjálsum samningsrétti. Við höfum þó eigi talið ástæðu til að freista þess að fá svo miklar hækkanir. Höfum við talið líklegra, að till. mundi ná samþykki, ef henni væri meira í hóf stillt, og því flutt hana eins og hún er á þskj. 725.

Hv. 7. þm. Reykv. lýsti því í ræðu sinni, að eigi hefði verið gengið til fulls til móts við kröfur opinberra starfsmanna í brtt. þeim, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram. Læt ég duga að undirstrika það, sem hann sagði. Stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. ættu að geta treyst því, að hann ýki ekki í þessum efnum. En hann lýsti því, að till. hæstv. stj. væru ranglátar, því færi fjarri, að gengið væri til móts við sanngjarnar kröfur starfsmannanna.

Að síðustu langar mig til að segja örfá orð út af till. hæstv. ríkisstj. um lengri vinnutíma á skrifstofum ríkisins. Ég get lýst því sem minni skoðun, að ég tel vel til greina geta komið að lengja vinnutímann. En þá tel ég að hækka eigi kaupið talsvert miklu meira, en í till. hæstv. stj. segir, — því að það, sem hér er raunverulega að gerast er, að tekið er með annarri hendinni það, sem gefið er með hinni. Það er tekið aftur í lengd vinnutímans, sem gefið er með hækkuðu kaupi. Ef hæstv. ríkisstj. treystir sér til að leggja til, að tímakaup hækkaði um svipaðan hundraðshluta og mánaðarkaupið á að hækka, þá hefði ég ekki á móti því, að vinnutíminn lengdist. En mig langaði til að gera þá fsp. til hæstv. stj., hverjar fyrirætlanir hún hefur, hvað varðar starfsmannafjöldann, langaði til að spyrja, hvaða vit sé í því að lengja vinnutímann, ef eigi er fyrirhugað að segja upp fólki um leið. Varla geta þau áform verið á prjónunum að auka verkefnin á opinberum skrifstofum. Eða hefur hæstv. ríkisstj. þá útþenslu ríkisbáknsins á prjónunum, að 10% meira verði að gera? Hvað á þetta fólk að gera með 10% lengri vinnutíma? Væntanlega er meiningin, að það eigi að vinna. (HV: E.t.v. á að fækka.) Er meining hæstv. ríkisstj. að fækka starfsmönnunum um 10%? (GJ: Væri það nokkur goðgá?) Ég vil vita um þetta. Á að segja upp tíunda hverjum opinberum starfsmanni? Ef sú er ætlunin, er eigi óeðlilegt, að óskað sé skýringar. Það, sem ég óska að fá að vita, er þetta: Þýðir till. það, að meiningin sé að segja upp tíunda hverjum manni, en þýði hún það ekki, hvað er fólkinu ætlað að gera með 10% lengri vinnutíma? Þetta langaði mig til að vita, og ég hygg, að fleiri langi til þess, og þá sérstaklega opinbera starfsmenn, og þeir biði svarsins með eftirvæntingu, og þá fyrst og fremst félagar Starfsmannafélags ríkisstofnana. Það fer eigi hjá því, að það segi til sín á vinnumarkaðnum, ef ætlun hæstv. ríkisstj. væri sú að segja upp tíunda hverjum starfsmanni, sem nú er í þjónustu ríkisins.