11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

38. mál, fjárlög 1950

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er, ásamt þremur öðrum hv. þm., flm.brtt. við 12. gr. XXI, á þskj. 720, og varatillögu á þskj. 725, þess efnis, að Benedikt Þórarinssyni, fyrrv. bankaritara á Seyðisfirði, verði greitt upp í kostnað hans vegna sjúkravistar í Bandaríkjunum 25 þús. kr., eða 15 þús. kr. til vara.

Það eru fordæmi fyrir því, að mönnum hafi verið veittir styrkir, þegar svo hefur staðið á, að þeir hafa ekki getað leitað sér læknishjálpar hér á landi og orðið að fara af landi burt til þess að fá bát á sjúkdómum sínum. Sjúkdómur Benedikts ágerðist mjög á miðju ári 1942. Það var því í samráði við lækna hér, að hann var sendur til Bandaríkjanna 1944, þar sem hann var undir læknishendi til 1946, lengst af í Baltimore, og voru þar gerðir á honum þrír uppskurðir. Þessar aðgerðir báru þó ekki þann árangur, sem til var ætlazt, og þar sem læknar þorðu ekki að gera fleiri uppskurði á honum í það skipti, hélt Benedikt til Íslands aftur. Þegar heim kom, hóf Benedikt aftur vinnu, en heilsan var ekki betri en það, að í lok ársins 1948 varð hann að hætta eftir læknisráði og lagðist á Landakotsspítala, þar sem hann var þangað til í september 1949, en þá fór hann aftur til Bandaríkjanna eftir eindreginni ráðleggingu Halldórs Hansens yfirlæknis. Kom hann svo aftur heim í byrjun þessa árs, og virðist árangur af þessari för hans hafa orðið sæmilegur, og er Benedikt nú farinn að vinna lítils háttar. En það segir sig sjálft, að þessi för og aðrar, sem Benedikt hefur orðið að leggja á sig, hafa orðið honum mjög dýrar, og er hann því fjárhagslega mjög illa staddur, enda hefur hann á framfæri sínu þrjú börn. Sem dæmi um það, hve þetta hefur verið útgjaldasamt, er t.d. það, að ferðakostnaður af þessari síðustu för var 8 þús. kr., og þá var hann svo óheppinn á síðastl. sumri, að hann fékk ekki tilkynninguna um, að hann gæti komizt á spítala fyrr en þremur dögum eftir gengislækkunina fyrri, svo að það munaði hann 3 þús. kr. Það er því brýn þörf fyrir hann að fá svolitla aðstoð, og vona ég, að hv. þm. sjái sér fært að greiða atkv. með þessari brtt. okkar.