11.01.1950
Neðri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

83. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er ekki æskilegt að breyta oft um tollskrá, en það verður þó að taka tillit til breyttra viðhorfa á hverjum tíma og haga sér eftir því.

Þær breytingar, sem hér er lagt til að gerðar verði á tollskránni og eru á þskj. 168, eru til lagfæringa vegna samninga við önnur ríki, t.d. gjöld af áhöldum og efni, sem inn er flutt skv. samningi frá 16. sept. 1948 milli Íslands og alþjóðaflugmálastjórnarinnar. Þá eru í öðru lagi lagfæringar vegna atvinnuveganna, t.d. vegna margarinfeiti, og enn fremur vegna fyrirhugaðrar sementsvinnslu hér á landi. Enn fremur vegna innflutnings á nýju hráefni til veiðarfæra, svonefndu, „nylon“. Í þriðja lagi eru svo breytingar ýmsar, sem í ljós kemur að nauðsynlegar eru.

Frv. þetta er undirbúið af fyrrv. fjmrh., en ég geri ráð fyrir ,því, að vafalaust megi telja, að allar þær breytingar, sem hér er lagt til að gerðar verði, megi teljast nauðsynlegar, og legg ég því til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.