11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

83. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á milli 2. og 3. umr. barst fjhn. sú málaleitan frá fjmrn. að gera lítils háttar breyt. á tollskránni og koma henni að í þessu frv. Samkv. g-lið 3. gr. er fjmrn. heimilt að innheimta ekki aðflutningsgjöld af vörum, sem settar eru hér á land um stundarsakir til áframhaldsflutnings til annarra landa. Þetta ákvæði hefur í vissum tilfellum ekki þótt tæmandi, t.d. þegar vörur eru settar á land, sem eiga að fara um borð í annarra þjóða skip, sem ekki hafa hér neinn bólstað. Slíkur transitflutningur er leyfður hjá öllum þjóðum, þó að hann sé auðvitað háður tolleftirliti. Kröfur liggja á fjmrn. um undanþágu frá tolli varðandi slíka vörusendingu, og þar sem ekki er talið, að fullnægjandi heimild sé fyrir hendi, er lagt til, að í stað orðanna „settar eru hér á land um stundarsakir til áframhaldsflutnings til annarra landa“ komi: sem sendar eru í gegnumflutningi (transit). — Það má að vísu líta á skip undir framandi flaggi sem annað land, og það er vissulega önnur „jurisdiktion“`. En með því að breyta orðalaginu að siðaðra manna hætti, er leystur sá hnútur, sem hér er um að ræða. Í flestum löndum eru fríhafnir, og verði þessi breyt. lögfest, jafngildir það því, að hér verði í gildi þau ákvæði, er um þær gilda. Það er nauðsynlegt, að um þetta séu skýr fyrirmæli í l., svo að ráðuneytið og tollyfirvöldin lendi ekki í vandræðum í þessu sambandi. N. leit svo á, að þetta væri á rökum reist. Með breyt. er tvírætt orðalag gert ótvírætt.