15.12.1949
Neðri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

11. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef áður, í sambandi við frv. það, sem lá fyrir á síðasta þingi frá þáverandi ríkisstj., rætt nokkuð um þessi togarakaup og ætla ekki að ítreka það nú. Það kemur hins vegar á daginn, að það verður því skýrara, því lengra sem líður, að of seint var í þessi togarakaup ráðizt og hvernig þessir togarar verða þess vegna dýrari, en ef farið hefði verið að till. okkar sósíalista að kaupa þá 1945 eða 1947, meðan peningar voru til erlendis. Nú eru þeir komnir upp í 41/2 millj. kr. hver og eiga líklega eftir að hækka, þótt ekki sé tekið tillit til þess, ef gengið yrði fellt gagnvart sterlingspundi, auk þess sem þessir togarar, með því að þeir eru keyptir svona seint, eru ekki komnir fyrr en 1951 og það gagn, sem orðið er af nýsköpunartogurunum, verður því ekki af þeim, en um það er ekki að sakast. En það, sem nú er um að ræða að mínu áliti, er að tryggja það, að þessir togarar verði seldir til þeirra aðila í landinu, sem alveg sérstaklega hafa þörf fyrir þá og sérstakan áhuga hafa fyrir þeim, — og á ég þá við bæjar- og sveitarfélögin í landinu fyrst og fremst. Þegar það frv., sem þetta frv. er breyt. á, var til umr., þá flutti ég brtt. til þess að reyna að tryggja slíkan framgang, en sú brtt. náði ekki fram að ganga. Hins vegar var samþ. till., sem nú er 2. gr. þessa frv., og var sú till. frá hv. þm. V-Húnv., þar sem ríkisstj. er heimilað að ábyrgjast bæjar- og sveitarfélögum allt að 10% af kostnaðarverði skipanna. Virtist tillögumaður, sem flutti till. þá, hafa gengið út frá því í sambandi við þessa 10 togara, sem nú er verið að ræða um að kaupa, að það mundi fást lán úr stofnlánadeildinni. En það er misskilningur, ef þetta hefur verið í hugum manna, því að það mun vera vissa fyrir því, að enginn þessara 10 togara fær lán úr stofnlánadeildinni, nema breytt verði stofnlánadeildarl. Það er þess vegna út í bláinn að bjóða bæjar- og sveitarfélögum, máske að Reykjavík undanskilinni, að kaupa togara, sem kosta 5 millj. kr., með því að lána 10% af verðinu. Ef það er meining þessara manna að gera bæjar- og sveitarfélögum kleift að kaupa þessa togara, þá þarf að gera breyt. á þessum l. eða stofnlánadeildarl. Samkvæmt l. um stofnlánadeildina er gengið út frá, að hægt sé að fá lán, sem nemur 75% af andvirði togaranna, og síðar var samþ. þáltill., sem gerði ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgðist þar að auki lán, sem næmi 10% af andvirðinu, handa þeim, sem þess þyrftu. Þannig gátu þeir bæir, sem fýsti að fá togara, fengið allt að 85% af andvirði þeirra að láni. Og samt sem áður vita allir, að þrátt fyrir þessi 85% áttu bæirnir full erfitt með að afla sér þessara nauðsynlegu tækja, og ekkert bæjarfélag í landinu nema Akureyri gat lagt fram þessi 15%, sem á vantaði, nema að taka þau að láni, og það þó aðeins fyrir öðrum togaranum, sem það bæjarfélag keypti. Og það, sem kom því til leiðar, að bæjarfélög gátu eignazt togara, var það, að þau fengu þetta lán, sem nam 85%, og hin 15% með hægum kjörum. En nú er engin von til að fá þessi kjör lengur í stofnlánadeildinni, þar eð hún minnkar nú ár frá ári. Landsbankinn hefur skilið ákvæðin um hana þannig, að allar þær afborganir af lánum, sem stofnlánadeildin hefur veitt til togara, skulu jafnóðum og þær eru greiddar renna til seðlabankans. Upphæðir þær, sem þannig hafa verið greiddar til seðlabankans, munu nú nema um 17 millj. kr., þannig að stofnlánadeildin, sem upphaflega byrjaði með 100 millj. kr., hefur nú aðeins 83 millj. kr. til ráðstöfunar. Þannig hafa ekki allir nýsköpunartogararnir fengið lán úr stofnlánadeildinni, en ég hef heyrt, að til að tryggja 7 af nýsköpunartogurunum lán hafi ríkisstj. tekið lán hjá Landsbankanum, og láni síðan þessa fjárhæð til togaranna með stofnlánadeildarvöxtum. Og væri gott að fá þetta upplýst. En ef svo er háttað með 7 af nýsköpunartogurunum, þá má nærri geta, hvernig verður með hina 10 nýju togara, sem pantaðir hafa verið.

Ég flutti í fyrra frv. til laga um breyt. á l. um stofnlánadeildina. Ég vildi breyta þeim þannig: 1) að stofnlánadeildin þyrfti ekki að greiða til Landsbankans þær afborganir, sem greiddar væru af lánum til togaranna, og héldust þá áskertar hjá stofnlánadeildinni þær 100 millj. kr., sem henni voru lagðar í fyrstu, og hefði hún þá fengið endurgreiddar þær 17 millj., sem þegar hafa verið greiddar til seðlabankans, og 2) að vextir þeir, sem Landsb. reiknar stofnlánadeildinni, væru með l. ákveðnir 1%, en þeir eru nú 2,4%, en stofnlánadeildin lánár út gegn 2,5% vöxtum. Það er aðeins reikningsatriði fyrir Landsbankann, hve háa vexti hann reiknar til seðlabankans, en ef stofnlánadeildinni væru reiknuð lánin með 1% vöxtum, gæti hún árlega grætt 11/2 millj. kr. og þannig aukið lán sín til sjávarútvegsins. En með núverandi fyrirkomulagi hefur stofnlánadeildin aðeins 0,1% vexti af lánum sínum, þegar seðlabankinn hefur fengið sitt. Það er því bert, að á allan hátt er verið að reyna að hindra stofnlánadeildina í starfi sínu og þurrka hana út, vegna þess, að hún veitir ódýr lán, þar sem hún lánar út gegn 2,5%a vöxtum, en vextir annars staðar eru 4%. Frv. mitt í fyrra var sent ~til sjútvn. og hefur ekki sézt síðan, og eru því ekki líkur til, að hægt verði að breyta stofnlánadeildinni. En mér er kunnugt um það, að margir hv. þm. hafa látið þá skoðun í ljós, að æskilegt væri, að ýmsir bæir fengju togara, sem síðan gætu staðið undir efnahag þeirra, og nú þegar standa þeir undir efnahag ýmissa bæjarfélaga. Þetta þýðir, að það verður að veita fé út um byggðir landsins, en slíkt verður ekki gert nema með ráðstöfunum Alþ., en það verður ekki gert, ef eðlileg viðskiptalögmál eru látin ráða. Bankastjóri, sem ræður lánveitingum við banka sinn og fylgir venjulegum verzlunarlögmálum, lánar ríkinu og stöndugum mönnum, sem eru góðir viðskiptavinir, en neitar fátækum og þurfandi bæjarfélögum um lán. En ef þetta verður látið vera svo áfram, verður togurunum ráðstafað til ríkustu mannanna og lenda þá einkum á einn stað. Það kostaði mikið erfiði og andstöðu og þá einkum frá þeim flokki, sem telur sig berjast fyrir hag dreifbýlisins, að koma upp nýsköpunartogurunum. Síðan hafa þeir hælt sér af því að koma togurum út um land, en nú reynir á, hvort þeir vilja halda áfram á þeirri braut gegn bankavaldinu í landinu, en það verður ekki gert nema sett séu í l. ákvæði um það, að ríkissjóður láni bæjar- og sveitarfélögum 85% af andvirði togaranna. Ég geri varla ráð fyrir, að hægt sé að nefna nokkurt bæjarfélag á landinu, sem sé fært um að kaupa togara með öðru móti, nema ef til vill Reykjavík, og ef ríkisstj. ætlast til, að eitthvað af þessum nýju togurum fari út um land, verður hún að gera það kleift. Ég býst ekki við, að það þurfi að fjölyrða um það, hvort það hafi meira gildi fyrir bæi úti á landi að fá þessi skilyrði til að eignast togara heldur en Reykjavík og Hafnarfjörð, en þau hafa meiri möguleika til að fá togara, þó að þau fengju ekki þessi kjör, og skal ég samt ekki fullyrða, hvort þeim væri það ekki einnig nauðsynlegt. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. við 2. gr., en því miður hafði ég hana ekki undirbúna svo snemma, að hún lægi fyrir prentuð. Ég vil lesa till. og þarf að biðja um afbrigði fyrir henni. Hún hljóðar svo: [sjá þskj. 111.)

Með öðrum orðum mundi þetta þýða, að lánið í Bretlandi, sem er að upphæð 32 millj. kr., yrði lánað út til bæjarfélaga af hálfu ríkisins, og enn fremur mundi það heimila ríkisstj. að taka lán til að geta lánað bæjarfélögum allt að 85% af andvirði togaranna, og held ég, að nauðsynlegt sé að afgreiða þessi lánsákvæði í sambandi við þessi bráðabirgðal. Hæstv. ríkisstj. var spurð að því fyrir skömmu, með hvaða kjörum togararnir mundu verða látnir, en einu upplýsingarnar, sem komið hafa, eru frá hæstv. fyrrv. forsrh., sem sagði, að það mundi þurfa allmikla útborgun, sem þýðir mikinn hluta kaupverðsins, helming eða meira. Þetta þýðir, að bæjarfél. geta ekki keypt þessa togara, en þegar bæjarfélögin keyptu einn togara, gerðu þau sér vonir um að fá fleiri keypta síðar, því að það er ökonomiskt rangt að reka einn togara, en ekki fleiri. Geymslupláss og annað slíkt verður jafndýrt fyrir einn eða fleiri togara, og það að gefa þessum aðilum ekki kost á fleiri skipum er að gera rekstur þessa eina dýrari. Við vitum, að útgerð þessara togara berst stórlega í bökkum fjárhagslega, en hún hefur haft stórmikla fjárhagslega þýðingu fyrir viðkomandi bæjarfélag. Ég held því, að rétt sé að gera þessa breyt. á frv. Það er augljóst, að það er miklum erfiðleikum bundið, eins og fjárhagnum er nú komið, að útvega svona stórt lán af hálfu ríkisins, en fjárstraumnum verður ekki snúið til bæjarfélaganna úti um land, nema gera svona inngrip í atvinnulífið. Það verður ekki sagt annað en það, að það, sem gert var á dögum nýsköpunarstj. í þessum efnum, hafi gefizt vel og gefið viðkomandi bæjarfélögum möguleika, sem þau hefðu ekki haft annars. Ég veit, að þessi bæjarfélög þarfnast þessa sérstaklega, og ég veit, að Reykjavík og Hafnarfjörður eru líka í þörf fyrir þessa aðstoð, og er hugsanlegt, að þeim gefist einnig kostur á þessu, því að gert er ráð fyrir, að þau bæjarfélög, sem sjálf ætla að annast reksturinn, hafi forgangsrétt.

Ég vonast eftir, að hv. þingdeild gefi till. þessari gaum. Ég hef sett hana svona fram og bundið við bæina, hins vegar er hægt að hugsa sér að gera á henni breytingar, sem koma að sama gagni. Sum bæjarfélög hafa stofnað hlutafélög um togarana, og hefur bærinn þá að sjálfsögðu haft meiri hluta hlutafjárins, og væri vel hægt að hugsa sér það fyrirkomulag, ef einhver kysi það heldur, en það verður að gefa gaum að þessum málum. - Ég vil svo biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till. minni.