16.01.1950
Neðri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

11. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, vil ég taka þetta fram: Ríkið tekur lán í Bretlandi til þess að kaupa þessa togara fyrir og fær þar með peninga til þess að greiða þá með, og það, sem gengið er út frá í þeim brtt., sem hér eru bornar fram, eins og til dæmis í brtt. á þskj. 111, er það, að þetta lán sé notað: Í fyrsta lagi til að lána það aftur bæjar- og sveitarfélögum, sem séu þannig látin fá forgangsrétt að því að fá þessa togara, sem sé, að ríkið láti bæjar- og sveitarfélög þessi raunverulega verða aðnjótandi þeirra lánskjara, sem það sjálft hlýtur, og að sama skapi sem lánið yrði borgað af togurum ríkisins í Englandi, þá verði aðstaða ríkisins þar með notuð til að gera bæjar- og sveitarfélögum fært að eignast þessa togara á þennan hátt. Hins vegar geng ég út frá því, að viðbótarlán þyrfti að taka, og þó að illa líti út með fjárhag ríkisins nú, þá er ólíklegt, að ekki yrði hægt á þeim tíma, sem um er að ræða, að fá þá viðbót, sem nægði til að framkvæma þetta. Ég held, að ef ríkið getur sjálft fengið til þess lán, innan eða utan lands, að kaupa þessa togara, þá séu möguleikar fyrir hendi til að gera bæjar- og sveitarfélögum kleift að eignast þessa togara.