09.02.1950
Neðri deild: 42. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

11. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Viðvíkjandi brtt. hv. þm. V-Húnv. er ég hræddur um, að þessi leið yrði lítið farin. Hins vegar er rétt að gera ráð fyrir, að þessi hugmynd um að leigja togarana geti reynzt rétt í öðru sambandi. Sérstaklega má gera ráð fyrir því, ef gengislækkun verður, að ákaflega erfitt verði að kaupa togarana, og má þá gera ráð fyrir, að nauðsynlegt verði að leigja togarana, ef mínar brtt. verða ekki samþ., en þá væri rétt að heimila ríkinu að leigja þá til bæjarfélaga, ef á daginn kæmi, að leið sú, er hv. þm. V-Húnv. leggur til, yrði ekki farin, og leyfi ég mér þá að bera fram brtt. við brtt. á þskj. 312: „Aftan við greinina bætist ný málsgrein, svo hljóðandi: Þá er ríkisstjórninni og heimilt að leigja bæjarfélögum einn eða fleiri af þessum togurum.“

Ef till. mínar yrðu ekki samþ., mætti samt sem áður koma þeim þannig til bæjarfélaganna, að haft yrði leiguform í stað söluforms, og kæmi það að sama gagni og sala hvað snerti atvinnuaukningu, og þar, sem annar togari væri fyrir, mundi það þýða minni kostnað og hefði auk þess ýmsa aðra kosti. Ég tilgreini ekkert um leigukjör, því að ég held, að sama sé, hvaða ríkisstj. væri, hún mundi verða nægilega íhaldssöm til að sjá fyrir hag ríkissjóðs og því þýðingarlaust að vera að setja l. um það og heppilegra, að um það yrði frjálst samkomulag á milli ríkisstj. og bæjarfélaganna. Ég vil svo leyfa mér að leggja fram þessa brtt. við brtt. á þskj. 312.