10.02.1950
Neðri deild: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

11. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Út af ræðu hæstv. atvmrh. hefði mér þótt vænt um að heyra, hvað hæstv. ríkisstjórn í raun og veru hyggst fyrir um þessi togarakaup. Það er vitanlegt, að margar umsóknir bárust um þessa. 10 togara, en hins vegar er ríkisstj. einnig kunnugt um það, að þau bæjar- og sveitarfélög, sem umsóknirnar sendu, hafa þá gengið út frá því, að þeim yrðu veitt svipuð kjör og við kaup nýsköpunartogaranna. Þá er það einnig vitanlegt, að fjárhagur þessara bæjar- og sveitarfélaga er ekki svo góður — fer jafnvel versnandi —, að hægt sé að búast við því, og jafnvel óhugsandi, að þau geti treyst sér til þess að auka togaraflota sinn, nema að minnsta kosti góðir skilmálar séu fyrir hendi um kaupin, eins og var um kaup nýsköpunartogaranna. Hvað einstaklingana varðar, þá er það nú upplýst, hvernig var með þessa 7 síðustu nýsköpunartogara, svo að það lítur vart betur út núna, að þeir fáist til þess að kaupa, nema þeir fái eins góð kjör og þau, sem þeir fengu um nýsköpunartogarana.

Það hefur ekkert heyrzt frá hæstv. ríkisstjórn, hvað hún ætli fyrir sér með togarana. En það var talað um það í sambandi við kosningar af hálfu ráðherra úr fyrrv. ríkisstjórn, og góð orð um það gefin, að stuðlað skyldi að því, að viss sveitarfélög gætu fengið togara af þessum 10, sem ákveðið er að fá. Þetta hefur ekki verið upplýst nánar, en ef áhugi væri fyrir hendi hjá þessum ráðh. um, að það sé gert, þá gerir hann það ef til vill. En ef slík loforð eru gefin fátækum bæjarfélögum, þá má búast við því, að vart muni verða síðri lánskjör, sem þau fá, heldur en við kaup nýsköpunartogaranna.

Það er óviðfelldið, ef ekki er gefið upp, hvað ríkisstjórnin hugsar sér að gera við togarana, sérstaklega þegar það hefur heyrzt, að þeir menn sem stundum ráða meiru um landsmálin en ríkisstjórnin, hugsa sér að selja þá erlendis. En ég efast ekki um það, að ef ríkisstjórnin er með alvarlegar hugleiðingar um þess konar ráðstöfun á togurunum, þá er vilji í þinginu til þess að tryggja það, að þeir verði notaðir hér innanlands, og að veitt verði þá þau kjör, að kaupendum verði kleift að reka þá.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 296 vil ég taka það fram, að það er ekki óeðlilegt, að sérstakur áhugi manna sé fyrir henni, því að það yrði algerlega ókleift fyrir kaupendur að reka skipin, ef gengislækkun yrði framkvæmd og látin koma niður á kaupverði þeirra. Það væri sem sagt ákaflega æskilegt, ef hæstv. ríkisstjórn vildi skýra deildinni frá því, hvað hún ætlast fyrir um þessi efni.

Hitt er aftur annað mál, að ríkisstj. kann að líta svo á, að fyrrv. ríkisstjórn hafi verið heldur svifasein, og því hafi ekki tekizt eins vel með kaupin og unnt hefði verið og þess vegna hefði núverandi ríkisstjórn komizt í þessi vandræði. En ef ríkisstj. er í vandræðum, þá ætti að vera vilji til þess í þinginu að hjálpa ríkisstj. til þess að leysa þau, en til þess að það verði gert, þá verður Alþingi að fá einhverja hugmynd um það, hvað hæstv. ríkisstjórn ætlast fyrir. Þetta mál er nú búið að liggja fyrir í þrjá mánuði, og væri því æskilegt, að þessar upplýsingar færu að koma.