10.02.1950
Neðri deild: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

11. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. sagði um brtt. á þskj. 296, þá er raunverulega, þó að sú brtt. væri samþ., ekki verið að tala um neina sérstaka ábyrgð á hendur ríkissjóði, nema í því tilfelli. að Alþingi samþ. að breyta genginu. Þeir, sem kynnu að samþ. á eftir að breyta genginu, verða að gera sér grein fyrir, hvernig þetta eigi að greiðast, sú skuldbinding, sem þeir þar með skella yfir á ríkið. Þetta er aðeins að slá föstu status quo, og þeir, sem á eftir kynnu að samþ. gengisbreytingu, yrðu að gera sér grein fyrir, hvar þeir ætluðu að taka peningana. En þetta yrði ekki eina útgjaldaaukningin, sem ríkissjóði skapaðist með gengisfellingunni. Það eru miklar skuldir, sem ríkið á og ríkisfyrirtæki erlendis. Þessi sterlingspundaskuld er ekki eina útlenda skuldin, sem ríkið skuldar, það eru líka dollaraskuldir. Með gengisfellingu væri því verið að taka ákvörðun um að bæta á ríkið skuldabagga, sem mundi nema nokkrum tugum milljóna, svo að þeir milljónatugir, sem kynnu að bætast á vegna togarakaupanna, eru aðeins einn parturinn. Það er ekki ábyrgðarleysi í þessari till., en það væri ábyrgðarleysi, eftir að búið væri að samþ. till., að fella gengið. Ég get hugsað, að þeir, sem í dag hugsa um að fella gengið á næstu vikum, kynnu að telja það ábyrgðarleysi að hafa samþ. þessa till. í dag. Hins vegar hugsa ég, að það gæti verið nokkur trygging gagnvart þeim, sem þessa togara eiga að fá, að þeim væri á þennan hátt gert kleift að kaupa þá.

Viðvíkjandi erfiðleikum bæjarfélaganna, sem hæstv. ráðh. talaði um, þá er það alveg rétt. En hvað sanna þeir erfiðleikar? Þeir sanna og sýna, að það hefur ekki verið nógu vel búið að þessum bæjarfélögum hvað lánskjör snertir. En ef við erum sammála um, að það hafi verið nauðsyn, að þessi bæjarfélög fengju togarana, að það sé nauðsyn fyrir þessi bæjarfélög að hafa þessi framleiðslutæki, að þessir togarar séu fjárhagsleg undirstaða hjá fjölmörgum af þessum bæjarfélögum og það, sem þeir afla, og sú vinna, sem þeir þar með skapa, sé svona þýðingarmikið fyrir bæjarfélögin, ef við erum enn fremur sammála um, að það sé nauðsyn að beina nokkru af framleiðslu þjóðarinnar út á land og gera mönnum þar kleift að reka þessi tæki, þá hljótum við að vera sammála um, að við eigum að gera þessum bæjarfélögum kleift að reka þessi skip. Eitt er gefið, að hvernig sem kann að lita út reikningslega hjá slíkum togurum, þá eru þeir fjárhagsleg undirstaða, hvort sem reikningurinn er með tap eða gróða. Það getur gengið svo í 10 ár, að togararnir séu kannske reknir með tapi, eins og kom fyrir bæði í bæjar- og einkaútgerð á tímabilinu 1930–1940, og samt var þessi útgerð undirstaða undir atvinnulífinu. Aðalatriðið er, að tækin séu til og séu notuð, skapi verðmæti og gefi svo og svo mikla vinnu og geri mönnum þannig kleift að lifa á viðkomandi stöðum. Þess vegna er það, að þær kröfur, sem eru gerðar hér um frekari ráðstafanir til stuðnings þessum aðilum, miða í rétta átt, og þess vegna álít ég ákaflega óheppilegt, ef þessar till. eru felldar nú. Ég álít þvert á máti, að það sé rétt að samþ. þær, ef þær breyt. yrðu síðar meir gerðar, sem kynnu að baka ríkissjóði einhver útgjöld í þessu sambandi. En það liggur ekkert opinberlega fyrir, að slíkt sé fyrirhugað nú sem stendur, t.d. gengisbreyting, þó að sögur séu á gangi um slíkt. Það væri því trygging að fá þessa till. samþ., en hinar till, miða á einn og annan hátt að því að tryggja það, að þessi till. komi að notum.