10.02.1950
Neðri deild: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

11. mál, togarakaup ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða málið almennt, það hefur verið gert svo mikið. Ég mun ekki heldur ræða þær till., sem hér liggja fyrir, þó að þær séu sumar hverjar í mesta máta umdeilanlegar. Það er aðeins ein till., sem ég hef tilhneigingu til að greiða atkv., þ.e.a.s. að fengnum nánari upplýsingum. Það er till. á þskj. 297, frá hv. 2. þm. Reykv., en í henni er aðalefnið það, að ríkisstj. skuli gefa bæjar- og sveitarfélögum þeim, sem þessa togara vilja kaupa, forgangsrétt að því að kaupa þá, ef þau ætla að kaupa þá til eigin rekstrar. Þetta hygg ég nú, að hafi verið mjög ofarlega í huga fráfarandi stj. að gera, og ég hef enga ástæðu til að ætla, að sú stj., sem nú situr, hafi í hyggju að fara öðruvísi að. En það er niðurlag þessarar brtt., sem gaf mér tilefni til að standa upp. Þar er gert ráð fyrir, að lán, sem veitt er samkvæmt till., séu aðeins veitt til 15 ára. Ég man ekki nákvæmlega að vísu, hvað þetta lán, sem fengið er til kaupanna, er til langs tíma, en ég hygg, að það sé lengra en 15 ár. Og ef það er 20 ár eða lengra, þá er engin ástæða til að hafa lánin til bæjarfélaganna styttri. Ég vil a.m.k., að ekki sé sett neitt það ákvæði í l., sem gerði ríkisstj. nauðsynlegt að þrengja kosti sveitarfélaganna frá því, sem hún hefur í sínu valdi, ef ákvæðið er ekki til í l., en það tel ég þrengja kosti þeirra, ef ákveðinn er 15 ára lánstími, sem gæti verið 20 ár eða meira að skaðlausu. Ef það skyldi reynast svo, að það væri lengri tími, sem þetta brezka lán er veitt til, — en um það liggja fyrir engar upplýsingar, en þó er búið að taka lánið og ganga frá því, — þá hefði ég tilhneigingu að gera þá brtt. við þessa brtt., að þessi málsliður sé tekinn út og í stað hans komi annar nýr, að lánstíminn verði sá sami og á því láni, sem ríkisstj. hefur tekið í þessu skyni. Í fyrsta lagi þætti mér vænt um að fá að vita, og ég tel sjálfsagt, að það komi fram, áður en frá málinu er gengið, hvort þetta væri svo, og ef það væri svo, að þessi lánstími væri þetta langur, mundi ég bera fram þessa brtt.

Í öðru lagi vil ég setja fram þá hugsun út af þessu gengislækkunarskrafi, sem hér hefur farið fram, — af því að mig minnir, að það, sem borgað var út af skipunum hér heima og á að borga, áður en það lán er notað, sem fengið hefur verið í Bretlandi, — þá langar mig nú að spyrjast fyrir um það, hve mikið af þessu andvirði skipanna hefur þegar verið greitt, og ef það hefur verið greitt annaðhvort að mestu eða öllu leyti, sá hlutinn, sem greiða á hér heima, en ekki er greiddur af láninu, þá tel ég, að sjálfsagt sé, að kaupendur nytu þess þannig, að þeir borguðu jafna krónutölu fyrir þann hluta sem þeir ekki tækju á sig í erlendum lánum, hvað sem verða kynni um gengisbreytingu síðar, hvort sem því verður breytt eða breytt ekki.

Ég vænti, að ég hafi gert mig nægilega skiljanlegan til þess, að hæstv. ráðh. geti svarað mér, hvort hann telji ekki eðlilegt að hafa þennan hátt á, því að ef stj. er búin að greiða þennan hluta með því gengi, sem nú er, þá er útlátalaust, að væntanlegir kaupendur síðar fengju að njóta þess og greiða það í sömu krónutölu sem stj. hefur þegar greitt út af sinni hálfu. Í þessu er nokkur trygging fyrir kaupanda, ef hann ætti þetta víst.