28.04.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

11. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur fengið lagalega meðferð í Nd., en síðan hefur sú breyt. á orðið, að gengi íslenzkrar krónu hefur breytzt, þannig að nauðsynlegt er, að tillit verði tekið til þess við afgreiðslu málsins. Til þess að standa straum af mestum hluta andvirðis togaranna tók fyrrv. ríkisstj., með samþykki Alþingis, lán í Englandi, sem er borgað út eftir hendinni, eftir því sem smíði skipanna miðar áfram. Lánsupphæðin var 1.250 þúsund sterlingspund. Mun lánið láta nærri, miðað við það gengi, sem var á íslenzkri krónu, 26,22 kr. á móti sterlingspundi. En við gengisbreytinguna, sem ákveðin var, 45,70 kr. á móti sterlingspundi, breyttist þetta svo, að í stað þess að andvirði lánsins var talið 32.775 þús. kr. með gamla genginu, er það nú jafnvirði 57.125 þús. kr. Þetta þótti allri n. hlýða að koma með brtt. um, eins og sjá má á þskj. 593. Í n. var auk þess rætt um ýmiss konar breyt., sem til mála gætu komið, en ekki svo, að n. yrði ásátt um neinar sérstakar breyt. aðra en þá, er nú hefur verið greint. Hins vegar er rétt að geta þess, að allir nm. hafa áskilið sér frjálsræði til að koma með frekari brtt. við meðferð málsins í d. eða fylgja slíkum till., ef fram kæmu.

Ég ætla, að það þurfi þá ekki fyrir hönd n. að hafa hér lengra mál. N. leggur til, að frv. verði samþ., og er öll sammála um þá breyt., sem áður lýsti ég, og það er fyrir hennar hönd, sem ég hef það fram að færa, auk þeirra aths., sem fylgja frá ýmsum nm. um hugsanlegar breyt. að öðru leyti og afstöðu til þeirra.