28.04.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

11. mál, togarakaup ríkisins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo kann nú að fara og er raunar komið á daginn, að eftirsókn eftir þeim togurum, sem hér er um að ræða, verði ekki jafnmikil og ráð var fyrir gert. Það kann því að reynast óþarft að deila um það, hverjir eigi að hafa forkaupsrétt að þessum skipum, en þó vildi ég segja það, meira vegna meginstefnunnar og síðari tíma, heldur en að ég geri ráð fyrir, að það reyni svo mikið á það varðandi þessi skip, að ég tel, að ákvæði 2. gr. séu mjög til hins lakara að meginstefnunni til, að þau væru samþ., nánast fyrir tilviljun, í Nd. Það er vitað mál, að ef sú d. hefði þá verið fullskipuð, hefði ákvæðið, eins og það nú er, ekki náð samþykki, en ég tel það að vonum, að slíkt ákvæði gæti ekki komizt að nema fyrir tilviljun. Með þessari gr. er slegið föstu, að veita eigi sérstakan stuðning til þess, að bæjar- og sveitarfélög reki botnvörpuskipaútgerð, og það mun meiri stuðning en öllum öðrum.

Ég skal ekki út af fyrir sig fara að deila um það, hvort betra sé, að togarar séu í eigu einstaklinga, en bæjarfélaga. Ég hef sjálfur átt verulegan þátt í, að Reykjavíkurbær hóf útgerð á botnvörpuskipum, og hef því að meginstefnunni til ekkert við það að athuga. En ég álít það alveg fráleitt, að það eigi af Alþingis hálfu að gera tilraun til að einoka þessi framleiðslufyrirtæki í höndum bæjarfélaga. Ég tel, að það sé eðlilegt, að reynslan skeri úr um það, hvor aðilinn sé þarna hæfari, og bæjarfélögum eru þegar með því, að þau eru skattfrjáls af þessum rekstri til ríkisins, gefin svo mikil forréttindi umfram einstaklinga eða félög þeirra, að þessir aðilar ættu ekki að þurfa að sækjast eftir frekari forréttindum, en þessi lagagrein veitir einmitt slík réttindi. En þó að mörg botnvörpuskip hafi reynzt illa stæð á allra seinustu árum, þá er vitað, að engir eiga frekar í vök að verjast eða gengur lakar en þeim, sem eru í eigu bæjarfélaga úti á landi. Og þess vegna, að fenginni reynslu á þessu tímabili, er sízt af öllu ástæða til að ýta frekar undir það en orðið er, að botnvörpuskipin lendi í höndum þessara aðila. Ég vil því beina því til hv. dm., að þótt það reyni ekki á það um þessi tilteknu skip og komi ekki verulega að skaða varðandi þá meginstefnu, að það er alveg rangt og óþolandi að hafa slíkt ákvæði sem er í 2. gr., enda er það sprottið af þeim aðilum þingsins, sem sízt er að vænta góðra tillagna frá.