06.05.1950
Efri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

11. mál, togarakaup ríkisins

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 601 2 brtt. við frv., við 2. gr., og eru þær á þá leið, að fyrir 75% lánsheimild til bæjarfélaga komi 85%, og í öðru lagi, að vextir verði helmingi lægri en vextir þeir, sem ríkisstjórnin greiðir. Þessir togarar eru alldýrir samkvæmt upplýsingum hæstv. ríkisstjórnar, eða tæpar 8 millj. kr. hver, en það er meira en tvöfalt verð gömlu nýsköpunartogaranna. Fáum mun hafa dottið í hug, er þeir voru keyptir, að þeir mundu verða svo dýrir, en þetta eru syndagjöld fyrir, hve seint þeir voru pantaðir, og svo vegna gengislækkunarinnar. Það er nú uggur í ýmsum, að erfitt muni verða að fá kaupendur að togurunum, og hann mun ekki vera ástæðulaus. En hins vegar mun vera'full þörf fyrir okkur að eignast þessa togara. þó að þeir séu dýrir. Þetta munu vera fullkomnustu fiskiskip, sem þjóðin hefur eignazt, sérstaklega vegna þess, að í þeim eru fiskimjölsverksmiðjur, og er slíkt höfuðskilyrði til, að þeir geti borið sig. Þetta eru ,tæki, sem gefa möguleika á að hverfa frá hinni frumstæðu rányrkju og nýta aflann betur. Ef svo illa skyldi til takast, að togararnir yrðu ekki keyptir og þeir yrðu svo seldir útlendingum, sem síðan mundu gera þá út á okkar mið, mundu þeir frekar verða okkur til tjóns en gagns, og telja sumir, að heppilegra væri fyrir okkur að sökkva þeim en að svo yrði. Þetta frv. er lagt fram til að gera landsmönnum kleift að kaupa skipin, en þá þarf það að vera þannig úr garði gert, að það tryggi slíkt. Það er kunnugt, að mörg bæjarfélög hafa fullan hug á að eignast þessa togara, en það eru ekki mörg bæjarfélög, sem hafa efni á slíku með þeim skilmálum, sem þeim eru hér sett. Það eru ekki mörg bæjarfélög í landinu, sem geta snarað út 25% verðsins, eða nær 2 millj. kr., og er ekki kunnugt um neitt bæjarfélag, sem er ákveðið í því að taka skipin með þessum kjörum. Það hafa borizt allmargar umsóknir um togarana, en þær eru allar með fyrirvara. Þær sýna mikinn áhuga í þessum efnum, og eru flestar þessara umsókna frá bæjar- og sveitarfélögum. Ég hef því borið fram þessar till. til að tryggja, að kaupendur fáist að togurunum. Út frá því, sem ég hef sagt, þá skýrir fyrri till. sig sjálf. Um síðari till., er fjallar um það, að vextir skuli verða 2,5%. er það að segja, að verði hún samþ., þá lætur nærri, að upphæð vaxtanna verði sú sama og fyrir gengislækkunina. Ég held, að slík kjör séu nauðsynleg, eftir að verð skipanna til kaupenda hefur hækkað um helming, og þykir mér rétt, að ríkissjóður taki á sig þennan bagga. Hér hefur verið lögð fram brtt. frá hæstv. fjmrh., sem er á þá leið, að forgangsréttur bæjarfélaga til kaupanna er afnuminn, en ákveðið, að heimilt sé að lána allt að 75% af andvirðinu til kaupenda, einnig til einstaklinga. Ég er því andvígur, að forgangsrétturinn falli niður, því að hann er eina tryggingin fyrir því, að togararnir verði reknir, en ekki stöðvaðir allt í einu eða seldir burtu. Um hitt er ekki nema gott að segja, að ríkið skuli treysta sér til að lána einstaklingum líka, en hjá þessu verður ekki komizt. Það er staðreynd, að Reykjavíkurbær hefur sett það skilyrði fyrir umsókn sinni, að skilmálarnir fyrir forgangsréttinum, að togararnir verði keyptir til eigin rekstrar, falli niður, og ég tel rétt að koma í veg fyrir, að nota megi slíkt sem átyllu til að falla frá kaupunum, og ber því fram till. um að fella þetta skilyrði niður, þó að ég sé annars með því.