06.05.1950
Efri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

11. mál, togarakaup ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er ósamþykkur því, að 2. gr. verði samþ. óbreytt eins og hún er nú í frv. á þskj. 346, og er ég þar á gagnstæðri skoðun við hv. 1. landsk. þm. Ef gefa á bæjarfélögum forréttindi, þá er nauðsynlegt að tryggja, að togararnir verði gerðir þaðan út, þó að bæjarfélögin geri þá ekki sjálf út. Reykjavíkurbær getur ef til vill tryggt, að svo sé um þá togara, sem hann fær, og er því ekki rétt að binda í l., að hann verði sjálfur að gera skipin út.

Út af brtt. hæstv. fjmrh. vil ég segja það, að mér finnst dálítið undarlegt, að hann skuli setja 75% takmark, því að ég held, að tekið hafi verið allt að 75% enskt lán á skipin, eða 125 þús. sterlingspund á hvert skip, og telst mér svo til, að það muni vera um 73,5%. Ég veit, að í auglýsingunni um skipin er sagt, að þeim fylgi enskt lán, sem nemi a.m.k. 70% kaupverðsins. og þar er gert ráð fyrir því, að 10% verðsins verði greitt við undirskrift kaupsamningsins og 20% við afhendingu skipanna. Ríkið tekur þá 5% af því, sem þar er á milli, og finnst mér það harla undarlegt. Það er útilokað að greiða minna en 10% við undirskrift samninganna, en það er um 800 þús. kr. En mér finnst vel koma til mála að gera eitthvað fyrir hvaða kaupanda sem er við þau 20%, sem greiða skal við afhendingu, að sú upphæð verði ekki greidd út, heldur gefin full trygging fyrir henni. Upphæð þessi nemur um 1,6 millj. kr. og auk þess leggst á kostnaður við veiðarfæri og að sækja skipið, og ég tel, að það sé þetta, sem ræða þarf um hér. Hins vegar er svo enska lánið afborgunarlaust næstu 5 árin og síðan eru jafnir vextir og afborganir, þar til lánið er fullgreitt. Gegn þessu stendur svo 1. veðréttur í skipunum, og fylgir skuldin til kaupendanna. Það sem þarf að gera, er að brúa djúpið milli 10% og enska lánsins, sem hvílir á skipinu. Í sambandi við aðra erfiðleika, svo sem vátryggingu, þá er sanngjarnt að veita aðstoð frá því opinbera, hver sem á í hlut, því að 4–5% af 8 millj. kr., ef kaskotryggt er, er svo mikil upphæð, að fáir hefðu efni á því. Það væri því eðlilegast að tryggja á kasko-interessu á gamla genginu. Og mætti gera það, ef það væri gert með afskiptum hins opinbera, og hygg ég, að hæstv. ríkisstj. muni athuga þetta.

Hv.1. landsk. sagði, að engum hefði dottið í hug að kaupa skipin, ef þeir hefðu vitað, að þau mundu verða svona dýr. Hvaðan hefur hv. þm. það, að engum hefði dottið í hug að kaupa skipin? Ég get fullvissað hv. þm. um það, að allir þeir aðilar, sem lögðu inn umsókn um skipin, vissu, að þau áttu að kosta þetta í erlendri mynt. Þegar samið var um skipin, lá fyrir, hver verðhækkunin yrði, og hún nam 10%. Það er ekki verðhækkun, þó að keypt séu stærri skip, en verðhækkunin frá fyrri togurunum nam aðeins 10%. Þegar fyrst var samið, gerði ríkisstj. kaup á skipunum, en ekki ýmsum tækjum, sem til þeirra þarf, svo sem radar-miðunarstöð, dýptarmæli o.fl. Verðið hækkaði aðeins um 8.000 £, en síðar varð verðhækkun, sem stafaði af stækkun skipanna og radar-miðunartækjum, lýsisbræðslutækjum, kælitækjum o.fl. Óskað var, að þetta yrði tekið inn í samningana, og samið var á sama grundvelli og 1945. Þá var gert ráð fyrir að stækka skipin úr 175 fetum í 183 fet og að grunnverðið yrði 133 þús. £ vegna hækkunar, sem orðið hefði. Síðar var ákveðið að semja sérstaklega um kælitæki, lifrarbræðslu og fiskimjölsverksmiðju, og hleypti þetta verðinu fram. Það hafði ekki verið gert ráð fyrir, að ríkisstj. semdi um þetta, en það var álitið nauðsynlegt, til að þetta yrði eins í öllum skipunum og hægt yrði að fá hagkvæmari samninga, og hækkaði verðið því í um 170 þús. £. Hækkun af beinum verðhækkunum á vinnu og efni er því um 13 þús. £, en hitt stafar af nýjum hlutum, svo að þeim, sem pöntuðu skipin, var þetta fullljóst, og var þetta gert í samráði við þá, en þeir vissu eðlilega ekki um gengisbreytinguna, en ég held. að þetta sé betra fyrir þá heldur en að gera út skipin undir skökku gengi, og eina ráðið til að reka þau er að skrá gengið réttara.

Hv. 1. landsk. sagðist vera á móti afnámi forréttindanna, því að þau væru til að tryggja, að skipin yrðu keypt og gerð út. Ég skil þetta ekki. Ég skil ekki, að það, að öllum sé gert jafnt undir höfði og enginn órétti beittur í því sambandi, hafi slíkt í för með sér, og virðist slíkt vera alger hugsunarvilla. Það er erfitt að gera skip út núna vegna markaðsvandræða, en með því að skipin eru með fiskimjölsverksmiðju, sem að vísu hækkar verð skipanna um 12 þús. £, en hefur um leið í för með sér, að miklu líklegra er, að skipin geti borið sig, þar sem möguleikar eru til að fá 1.200–1.500 þús. kr. auknar tekjur á ári með núverandi verðlagi og 500–600 þús. kr., ef reiknað er með fiskimjölsverði á s.l. ári, er ég ekki í vafa um, að útgerðarmenn vilja heldur fá þessi skip, jafnvel þó að þeir verði að selja eitthvað af eldri nýsköpunartogurunum, því að þessi útbúnaður getur bjargað útgerðinni; ef ekki þýðir að sigla á markaði, þá mætti salta fiskinn í skipunum og taka allan úrganginn í mjöl, hirða bara bezta fiskinn og setja afganginn í mjöl, og mundi slíkt mjög tryggja afkomuna.