13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

15. mál, Sementsverksmiðja

Emil Jónsson:

Herra forseti. Við nm. í iðnn. vorum allir sammála í því, eftir atvikum, að mæla með því, að ábyrgðarheimildin í þessum l. yrði færð úr 15 millj. kr. í 46 millj. kr., eins og kemur fram í nál. okkar. Og hef ég þar reyndar engu við að bæta. Að vísu er það ærið stórt stökk að þurfa að hoppa með stofnkostnað verksmiðjunnar úr 15 millj. kr., sem lögfest var í fyrra, í 46 millj. kr. En verulegur hluti af þessari upphæð er þó af skiljanlegum ástæðum, þar sem það er ein af hinum blessunarríku afleiðingum gengisfellingarinnar, sem þar kemur til greina.

En það var ekki út af þessu, sem ég stóð hér upp, heldur öðru atriði í l., sem hér er verið að breyta. Er svo ákveðið, að ráðh. ákveður stað fyrir verksmiðjuna. Og eins og kunnugt er, þá hefur ráðh. fyrir ári síðan eða tæpu ári ákveðið verksmiðjunni stað á Akranesi. Innan iðnn. kom fram, þegar þetta mál var til umr. í n., að nokkur vafi væri á því, að þarna hefði verið um eins heppilegan stað að ræða og unnt hefði verið, og að æskilegast væri, að þetta mál yrði tekið upp á ný ,til athugunar. Við, sem vorum þessarar skoðunar, vorum þó ekki á því stigi málsins tilbúnir til að flytja um það brtt., en munum væntanlega gera það við 3. umr., en fylgja málinu eins og það kemur frá n., óbreyttu nú. En við erum sem sagt þeirrar skoðunar, að það væri ekki að ófyrirsynju, að það væri nokkru betur athugað, hvort þarna hefði virkilega tekizt að fá hinn bezta stað, sem völ er á fyrir verksmiðjuna. Ég vildi aðeins koma þessu fram við þessa umr., þó að brtt. verði ekki borin fram um þetta fyrr en við 3. umr.