13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

15. mál, Sementsverksmiðja

Pétur Ottesen:

Það hefur nú orðið ærið langur dráttur á afgreiðslu þessa máls, og má það merkilegt heita, þar sem öllum ber saman um það, að hér sé um mjög mikið og verulegt hagsmunamál að ræða, hagsmunamál, sem er svo stórfellt, eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um, þannig, að verð á sementi mundi geta lækkað allt að því um helming frá því, sem er, við það að komið yrði upp sementsverksmiðju hér á landi, miðað við þau miklu not, sem við þurfum að hafa af sementi. Og með væntanlega auknum framförum í þessu landi og þá um leið auknum notum á sementi getur það ekki orkað tvímælis, að slíkt fyrirtæki sem þetta sé mjög þarft og nauðsynlegt. — Ég geri ráð fyrir, að þetta frumvarp, þrátt fyrir það, að það hefur átt svona langa dvöl í n., verði nú afgr. frá þessu þingi og að það þurfi þess vegna af þeim ástæðum ekki að verða dráttur á því, að þessu fyrirtæki verði hrundið í framkvæmd. En það leiðir vissulega af sjálfu sér, að af þeim stóru framkvæmdum, sem nú er rætt um, bæði þegar um er að ræða auknar virkjanir hér og áburðarverksmiðju, þá er þetta, að byggja sementsverksmiðju, engan veginn óverulegasti þátturinn í þeim stóru fyrirtækjum, sem hér eru áætlanir um gerðar. Og þetta mál hefur, að því er ýmsir halda fram, þá sérstöðu, að þetta fyrirtæki mun eitt þessara fyrirtækja vera þess eðlis, að hægt muni vera að láta það standa undir sér þannig, að tekið sé lán til þess að öllu leyti, en slíkt á sér ekki stað um hin stóru fyrirtækin önnur, sem hér er um að ræða að hrinda í framkvæmd á næstunni.

Hv. þm. Hafnf. (EmJ) minntist á, að hann hygðist að bera fram brtt. við þetta frv., og að mér skildist í sambandi við staðarvalið fyrir verksmiðjuna, og þá er náttúrlega ekki tímabært að ræða um það við þessa umr., og læt ég það bíða, þar til þær brtt. liggja fyrir og ef þær gefa tilefni til umræðu af minni hálfu. En eftir því, sem hefur frétzt, að hv. þm. Hafnf. hafi farizt orð í n. um þetta, þá geri ég ráð fyrir, að full ástæða verði til, svo framarlega að nýtt ljós hafi ekki runnið upp fyrir honum síðar, að gera nokkrar aths. gagnvart honum í því máli. En það bíður að sjálfsögðu, þangað til slíkar brtt. liggja fyrir.

Ég vildi svo vænta þess — og beini því til hæstv. forseta, um þetta 15. mál þingsins í röðinni, sem lagt hefur nú verið fyrir hæstv. Alþ. á þskj. 16, en nál. um það er reyndar á þskj. 703, og með tilliti líka til nauðsynjarinnar á framgangi þessa máls, þá verði af hæstv. forseta greidd gata þessa máls þannig, að það geti orðið afgreitt frá þessari hv. d. í dag, því að ef þinginu á að ljúka um miðja næstu viku, mun ekki vera hægt að líta svo á, að það sé of mikill tími fyrir hv. Ed., þó að hún hefði þrjá daga virka til athugunar á þessu máli.