15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

15. mál, Sementsverksmiðja

Emil Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti ég því yfir fyrir hönd okkar tveggja nm. í iðnn., að við mundum flytja brtt. við frv. út af staðsetningu verksmiðjunnar, og höfum við nú gert það, og liggur brtt. fyrir á þskj. 753. Þessi brtt. er, eins og sjá má, þess efnis, að ekki verði tekin ákvörðun um staðsetningu verksmiðjunnar fyrr en allar fáanlegar upplýsingar liggja fyrir um, hvar hún sé bezt og heppilegast niður komin. Eins og hv. þm. er kunnugt, barst Alþingi bréf frá verkfræðingafélaginu 27. febr. s.l., og er í því lýst till., sem samþ. var á fundi félagsins skömmu áður. Þessi till. hefur gefið okkur tilefni til að gera till. um, að þær starfsaðferðir, sem notaðar hafa verið í málinu, verði teknar til athugunar og farið verði yfir þær forsendur, sem liggja til þess, að verksmiðjunni hefur verið valinn staður, og endurskoðun verði látin fara fram á þeirri ákvörðun.

Það hefur komið fram þrálátur orðrómur um, að ekki hafi verið vel vandað til undirbúnings í þessu máli, og hefur iðnn. fengið bréf um það efni frá Haraldi Ásgeirssyni verkfræðingi. Þetta bréf fer í sömu átt og tekur alldjúpt í árinni. Ég skal út af fyrir sig ekki fullyrða neitt um, hvort þessi orðrómur eða bréfið er á öruggum heimildum byggt, en þó segir mér hugur um, að ýmislegt sé vafasamt í sambandi við þessa afgreiðslu n. Það verður líka að vera skilyrðislaus krafa, að þetta mál verði eins vel undirbúið og kostur er á, og um það fjallar till. okkar á þskj. 753. Við teljum ekki tímabært að ákveða verksmiðjunni stað, fyrr en öllum undirbúningi er lokið og gengið hefur verið úr skugga um, hvar ódýrast og bezt verði að framleiða þessa nauðsynjavöru. Staðsetningin hefur líka mikið að segja í sambandi við alla flutninga, þar sem um er að ræða þungavöru, sem mikill kostnaður er að flytja langar leiðir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil leyfa mér að vænta, að þm. fallist á till. okkar og komi með því í veg fyrir, að hrapað verði að þessu máli, enda er málið of þýðingarmikið til að taka ákvörðun um það á einum degi.