15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

15. mál, Sementsverksmiðja

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég átti raunar von á þessari brtt. frá nokkrum hluta iðnn., enda þótt ég telji hana að ófyrirsynju fram borna. Þm. Hafnf. (EmJ) lét hér orð falla á þá leið, að þetta mál væri ekki eins rækilega undirbúið og skyldi. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þetta sé misskilningur hjá þessum hv. þm., því að allar rannsóknir um þetta efni hafa verið gerðar eins ýtarlega og frekast var kostur, og til sönnunar því vil ég geta þess, að allt hið kemíska og allar áætlanir í sambandi við undirbúning þessa máls hafa verið yfirfarnar af hinu þekkta verkfræðingafirma F. L. Smidth. Þetta fyrirtæki hefur útibú bæði í London og Bandaríkjunum og er þegar orðið heimsfrægt, enda hefur það á að skipa færustu sérfræðingum í hverri grein. Verkfræðingar þessa firma hafa farið yfir þessar áætlanir og útreikninga lið fyrir lið og ekki haggað punkti eða kommu, og meira að segja eru tilboðin frá þeim öllu lægri en íslenzku verkfræðingarnir hafa reiknað út. Þessi undirbúningur er líka enn ýtarlegri fyrir það, að verkfræðinganefndin, sem hafði undirbúninginn með höndum, klofnaði um málið, þar sem einn verkfræðingurinn í n. taldi verksmiðjuna betur setta hér í Rvík. Af þessum ástæðum var farið aftur yfir allar áætlanir og hver liður rannsakaður út af fyrir sig og síðan borið saman, hvaða áhrif hver staðsetning hefði á reksturinn og framleiðsluverðið yfirleitt. Út af þessu var svo gefin mjög ýtarleg greinargerð 1949. Þessi grg. er of löng til að lesa hana hér, en þar er komizt að þeirri niðurstöðu, að framleiðslukostnaðurinn verði allmiklu meiri í Geldinganesi, en á Akranesi. Hins vegar kæmi Örfirisey til greina, ef ekki væri búið að ráðstafa henni, til annars, en vegna þrengsla eru varla möguleikar á að reisa sementsverksmiðju þar við hliðina á því fyrirtæki, sem þar er nú. Umferðin er svo geysileg, að aðflutningar mundu án efa teppast. Auk þessa eru svo þær niðurstöður n., að framleiðsla verksmiðjunnar yrði ódýrari á Akranesi, en í Geldinganesi. Eftir að þessi n., verkfræðinganefndin, hafði skilað áliti og ágreiningur komið upp í henni, þá taldi ég, sem þá átti sæti í ríkisstj. og fór með þessi mál, rétt að fleiri menn athuguðu þetta en þangað til höfðu að málinu staðið. Var þá skipuð ný n., þar sem formaður verkfræðingan. átti sæti, en auk hans einn maður frá Akraneskaupstað og tveir menn með sérþekkingu, m.a. með hagsmuni Akraneskaupstaðar fyrir augum. Var einn þeirra Einar Erlendsson arkitekt, þaulkunnugur maður og gerfróður um þetta. Niðurstaða n. varð hin sama og meiri hluta verkfræðingan. Hv. þm. Hafnf. vildi gera broslegan hraðann á störfum n. þessarar og ræddi um grein í Tímanum, þar sem málið „harmoneraði“ við það, er síðar kom fram í n. Það er ekki einkennilegt. Maðurinn, sem í Tímann skrifaði, er einn þeirra verkfræðinga, sem stóðu að undirbúningi athugananna og rannsóknunum og lögðu fram niðurstöður sínar. Nú eru allar upplýsingar þannig, þær sem nauðsynlegar eru til að ákveða málið, að þær ganga í sömu átt, svo að eigi er kraftaverk, þó að n. gæti skilað áliti á skömmum tíma, þar sem fyrir lágu athuganir. Þarf því ekki að vera varhugavert, þótt fljótt hafi verið starfað og komizt hafi verið að sömu niðurstöðu og menn þeir, sem áður höfðu starfað.

Þá minntist hv. þm. á samþykkt, sem gerð hafi verið á fundi í Verkfræðingafélagi Íslands. Það er rétt, þessi yfirlýsing liggur fyrir. En varðandi það, hvernig þessi samþykkt er til komin, þá er þar um að segja, að sami verkfræðingur og var í minni hluta vildi eigi láta hlut sinn að óreyndu máli og reyndi að afla skoðun sinni og niðurstöðum fylgis í félaginu. Í þessu félagi eru um 130 verkfræðingar. Málið var rætt á einum fundi frá báðum hliðum, þar sem m.a. formaður verksmiðjustjórnarinnar lagði fram sjónarmið hennar. Það var eigi höfð atkvgr. á fundinum. Það var ákveðið að boða til fundar síðar, og var það gert. Þann dag var slæmt veður, og menn virtust ekki vera áhugasamir um málið. Af 130 mönnum voru 25 á fundinum, og meðal þeirra 25 voru sennilega sérstakir fylgismenn Haralds Ásgeirssonar, sem vann að samþykktinni. Með 12 atkv. af 25 var svo þessi ályktun samþ., um nauðsynina á endurskoðun staðsetningar verksmiðjunnar, svo að ég tel hana eigi neinn guðsdóm í þessu efni. Þannig liggur í málinu, þótt ég telji það aldrei munu verða of vel rannsakað. Ég vil taka það fram, að rannsóknin var svo ýtarleg, að þeirra hluta vegna var engin nauðsyn á því að taka stafsetningarmálið upp.

Auk þess, sem fyrir liggur í áliti sérfróðra manna, vil ég taka fram sem skoðun mína, að þótt í ljós kæmi, að einhverju muni, sem sé Reykjavík frekar í hag, þá lít ég á það sem enga blessun að hrúga saman meiri háttar fyrirtækjum þjóðarinnar á einn og sama blett í stað þess að dreifa atvinnustarfsemi þjóðarinnar nokkuð út um landið og. stofna blómlegt atvinnulíf á fleiri stöðum en einum. Ég held yfirleitt, að það sé skoðun, sem fjöldi stjórnmálamanna um allan heim hafa. Mér hefur verið sagt, að eftir stríðið sé sú skoðun rík í Englandi að dreifa athafnasvæðum þjóðarinnar meira um landið, og einnig er mér sagt, að í Svíþjóð gildi um það sérstök l. eða ákvæði, að þegar nýjar meiri háttar verksmiðjur séu reistar, þá sé þröngt á um leyfi fyrir þær að fá staðsetningu í hinum stærri borgum landsins, heldur sé alveg ákveðin kerfisbundin starfsemi um að dreifa fyrirtækjunum um landið allt eftir því, sem staðhættir leyfa, aðeins af þjóðfélagslegum ástæðum, en eigi vegna þess, að vera kunni ódýrara að hafa þau á sama blettinum, en dreifa þeim um landið. Vil ég benda á þetta til viðbótar við þau rök, er áður hafa komið fram, og verð ég að halda fast við það, að nægilega staðgóð rannsókn hafi farið fram á þessu atriði.