15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

15. mál, Sementsverksmiðja

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég þóttist taka það skýrt fram í fyrstu ræðu minni, að ég legði engan dóm á það, hvort staðsetning n. hefði heppnazt vel eða ekki, hvort réttara sé að hafa verksmiðjuna á Akranesi, en annars staðar, en lagði áherzlu á, að þeir möguleikar um staðarval, sem til greina gætu komið, yrðu athugaðir eigi síður en hinir. Frá verkfræðingafélaginu hefur komið athugasemd, sem segir, að grg. sú, sem fyrir liggi um staðsetningu verksmiðjunnar. sé ófullnægjandi. Var þetta samþ., og í skýringum, sem n. hefur fengið frá verkfræðingi þeim, sem hv. þm. Mýr. minntist á, segir svo: „ ... verð ég að álykta það, að hin fyrirhugaða sementsverksmiðja hafi verið staðsett á Akranesi á röngum forsendum.“ Þetta vildi ég láta athuga. Sú n., sem hv. þm. Mýr. skipaði sem atvmrh. á sinni tíð, hefur greinilega ekki varið tíma sínum til þess að athuga þetta. Ég hef það fyrir satt, að þeir staðir, sem til mála geta komið, hafi ekki verið athugaðir. Hv. þm. sagði, að þetta hefði verið athugað svo gaumgæfilega, að betur væri ekki hægt að gera og vísaði til þess, að firmað F.L. Smidth & Co. hafi farið yfir áætlanirnar og engar aths. gert. Hefur þetta firma mælt með staðsetningunni? (BÁ: Það sagði ég ekki.) Já, ég tók eftir því. Væri úr vegi, að firmað væri látið segja skoðun sína? Ætti að láta það kveða upp rökstuddan dóm. Væri úr vegi, að þetta firma væri til kvatt til að láta í ljós álit sitt um, hvar verksmiðjunni sé valinn beztur staður? Það mundi geta athugað málið frá þeim sjónarmiðum, sem tekin hafa verið, og öðrum eigi, úr því að allar athuganir liggja fyrir.

Um hitt atriðið, að eigi sé heppilegt að hafa verksmiðjuna hér í höfuðstaðnum, get ég verið sammála hv. þm. Þar geta ýmsar ástæður Legið til. En ef verksmiðjureksturinn á Akranesi á að hafa einhverja yfirburði fram yfir rekstur annars staðar á landinu, þá vil ég, að um það sé hugsað, áður en út í slíkan rekstur er farið, sem mundi skapa ákveðnar fjárhagsbyrðar fyrir bæjarfélagið. Vil ég fá að vita, hversu þær verða miklar og hvort tilvinnandi sé að taka þær á sig vegna rekstrar verksmiðjunnar. Ég sé ekki, að tillagan, eins og hún liggur fyrir, þurfi á neinn hátt að skerða málið. Væri auðvelt að fá umsögn verkfræðingafélagsins. Segjum, að því séu ætlaðir 1–2 mánuðir til að athuga málið. Gæti það fengið sér sérfræðilega aðstoð og verið búið að ganga frá málinu áður, en til framkvæmda kæmi. Það liggja engar tölur fyrir um þetta, og er ófyrirgefanlegt — mér liggur við að segja það — að hafa eigi athugað alla möguleika, áður en í þetta stórvirki er ráðizt. Vissulega er það mikið hagsmunaatriði fyrir alla þjóðina, að eigi sé aukið á framleiðslukostnaðinn vegna staðsetningarinnar, sem hefði a.m.k. getað komið til mála, að yrði á annan hátt, en ákveðið var. Ég er ekki að ásaka hv. þm. Mýr. eða neinn, sem starfað hefur að málinu. Þeir hafa sjálfsagt gert það, sem í þeirra valdi hefur staðið, en það er komin fram gagnrýni, og um er að ræða, hvort hún sé á rökum reist eða ekki.