15.05.1950
Efri deild: 107. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

15. mál, Sementsverksmiðja

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég vil nú leyfa mér að mælast til, að þetta frv. nái hér fram að ganga. Það hefur þegar verið samþ. í hv. Nd. Efni þess er það, að framlag til sementsverksmiðjunnar hækki úr 15 millj. kr. í 46 millj. kr. Ég skal viðurkenna, að ég tel, að enn sé ekki lokið þeim undirbúningi, sem fram þarf að fara, áður en ákvörðun er tekin um málið. En hér er líka aðeins um heimild að ræða, og ég þykist geta heitið því, að ef Alþingi veitir þessa heimild, þá sæti málið eðlilegri rannsókn, áður en ákvörðun er tekin um notkun heimildarinnar og framkvæmdir hafnar. Ég vil vekja athygli á því, ef menn vilja láta málið ná fram að ganga, að þá verði ekki gerðar neinar breytingar á því hér í hv. deild. Ég skal einnig viðurkenna, að eðlilegt væri, að málið færi til n. og þá til hv. iðnn., en það væri mun betra fyrir framgang málsins, að hv. þm. gætu samþykkt það án þess að það gengi til nefndar.