15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

15. mál, Sementsverksmiðja

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Barð. fyrir hans ummæli og vildi vona, að hann yrði ekki fyrir vonbrigðum af því trausti, sem hann ber til mín í þessu máli. Ég treysti mér ekki nú til að gefa neinar skuldbindandi yfirlýsingar um málið, en það liggur í hlutarins eðli. að sá, sem á að bera ábyrgð á slíku máli, hlýtur að hafa ríka hvöt til þess að hafa fyrir sér gögn og skilríki, sem a.m.k. nægja honum sjálfum til þess að mynda sér skoðun um það, hvar slík verksmiðja skuli staðsett, ef til framkvæmda á að koma. Málið liggur að sönnu þannig fyrir, að hæstv. fyrrv. atvmrh. hafði ákveðið verksmiðjunni stað, en hér er um að ræða heimild til þessarar stóru lántöku, og ef mínar athuganir á málinu beindu til þeirrar niðurstöðu, að það staðarval, sem fram hefur farið, væri ekki rétt, þá mundi ég nú ekki nota mér heimildina til lántökunnar né hrinda verkinu í framkvæmd að svo komnu máli, því að ég tel ekki, að það væri verjanlegt í slíku stórmáli. Hitt veit ég, að mönnum mun ekki þykja nema eðlilegt, að ég mundi ekki að nauðsynjalausu vilja rifta því, sem hv. fyrirrennari minn hefur gert í málinu sem atvmrh. viðkomandi þessari staðsetningu, og ég treysti mér ekki til að gefa bindandi yfirlýsingar um það. Í öðru lagi er hér um heimildarlög að ræða. Í þriðja lagi er það, að ég teldi mér ekki fært að nota þá heimild, sem í l. er, og hrinda verkinu í framkvæmd, nema að hafa myndað sjálfum mér hugmynd eða skoðanir um það að staðsetning verksmiðjunnar væri rétt ákveðin, eins og annar undirbúningur málsins. Svo loks bæti ég því við að, að nauðsynjalausu vildi ég ekki þurfa að rifta því, sem fyrirrennari minn hefur gert í málinu. En nauðsyn brýtur lög, svo í þessu máli sem öðrum, og ef athugun, sem fyrir lægi, benti til annars staðarvals frekar en fram hefur komið enn, mundi ég fresta málinu, þannig að þingið gæti fjallað um það að nýju.

Ég tel mig svo ekki þurfa að segja um það meira, en vildi gjarna vona, að málið næði fram að ganga.