15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

15. mál, Sementsverksmiðja

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Barð. (GJ) um það, að ef á að vísa frv. til n., þá er það sama og leggja það til hliðar á þessu þingi. Það sakar ef til vill ekki, en það var þó ætlun ríkisstj., að þessi lánsheimild fengist, en eins og ég sagði, sakar það kannske ekki, þótt frv. stöðvist, því að varla verður ráðizt í framkvæmdir á þessu sumri, en leiðinlegt er þó, ef frv. þarf að daga uppi. Það er tæpast hægt að vænta þess, að samkomulag yrði um það, þótt svo væri ákveðið, að Akranes yrði fellt út úr frv., og ég veit ekki, hvernig menn hugsa sér að koma því inn í frv., að tryggt sé, að Akranes verði ekki fyrir valinu. Mér er þetta mál ekki nægilega kunnugt nú, en ég þekkti það í upphafi og fylgdist nokkuð með því í tvö ár, því að ég lét gera þessa rannsókn fyrst, án þess að raddir um það kæmu frá þinginu. Rannsóknir voru gerðar með sandinn frá sunnanverðum Patreksfirði, og reyndist hann vel, en vissulega þarf að athuga þetta allt betur, en ég álít áhættulaust að samþykkja frv. nú, þar sem engar framkvæmdir verða í sumar og þar sem ríkisstj. mun ekki taka neinar ákvarðanir um stað handa verksmiðjunni fyrr en rannsökuð eru öll atriði, sem með þarf til þess að fá vissu um það, hvar verksmiðjunni er fundinn beztur staður. Margt kemur til greina í því sambandi annað en hráefnið, t.d. rafmagn og það, hversu auðvelt er að flytja framleiðsluna til þeirra staða, þar sem á að nota hana. Þegar talað var um það, að sandurinn væri eingöngu til þarna vestra, þá var það skoðun eins verkfræðings, að rétt væri að hafa verksmiðjuna á öðrum stað, því að flutningur á sandinum væri ekki dýrari en svo, að betri rafmagnsskilyrði og flutningur á sementi gerði meira, en jafna þetta upp. Að pumpa sandinum í skip og flytja hann hingað til Faxaflóa getur orðið ódýrara, en flytja sementið vestan að til notkunarstaða. En aðalatriðið er þetta, að ég held, að það sé rangt af hv. d. að tefja málið með því að taka upp umr. um staðarákvarðanir, því að vitað er, að það eru uppi umr. um þetta atriði og nokkur ný hreyfing í þá átt að hugsa sig vel um, áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Skal ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en ég óska, að málið verði afgreitt án þess að því sé vísað til n. Þess er ekki þörf, og tel ég, að hv. þd. sé nokkuð öryggi í þeim vilja ríkisstj. að staðsetja verksmiðjuna ekki nema þar, sem hún verður heppilegast sett allra hluta vegna.