15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

15. mál, Sementsverksmiðja

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. sagði, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki fara út í það að ákveða verksmiðjunni stað, nema allt, sem máli skipti, væri fullrannsakað. Í gildandi l. er ekkert ákveðið um staðinn, en það var lagt í vald hæstv. fyrrv. atvmrh. að ákveða hann, þegar niðurstöður rannsókna væru fengnar. Hann notaði þessa heimild og það áður en rannsóknum var lokið um hluti, sem miklu máli skipta, m.a. magn sands og kísilríks leirs. En áður var búið að ákveða verksmiðjunni stað á Flateyri. Það er því tvívegis búið að ákveða staðinn, áður en rannsóknum er lokið, og því er von, að þm. séu tortryggnir á það, að ríkisstj. taki ekki ákvörðun áður en endanleg rannsókn hefur fram farið. Í fylgiskjali með nál. hv. iðnn. Nd. stendur: „Vegna tilmæla formanns iðnaðarnefndar neðri deildar Alþingis eru nefndinni hér með sendar áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað fyrirhugaðrar sementsverksmiðju á Akranesi.“ Það er því búið að ákveða staðinn þar, og það stendur fast, nema hæstv. núv. atvmrh. rifti gerðum fyrirrennara síns, sem hann sagðist helzt vilja komast hjá.

Það er mælzt til þess af hæstv. ríkisstj., að hv. þd. ræði ekki þetta mikla mál upp á 50–60 milljónir, mál, sem er kastað hér inn á allra síðustu dögum þingsins, og það má ekki vísa því til n. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Það á að afgreiða málið eingöngu upp á hið góða andlit hæstv. atvmrh. og treysta á ábyrgðartilfinningu hans, sem sýndi þá ábyrgðartilfinningu, sem ég vitnaði til áðan, að leyfa útflutning mikils hluta atvinnutækja frá einum íslenzkum kaupstað. Ég verð að segja það, að það má búast við, að ekki verði farið eftir endanlegum niðurstöðum rannsókna, eftir allri sögu málsins að dæma. Ég veit ekki, hvort gert er ráð fyrir því í áætlun sérfræðinganna, hvað af því mundi leiða, ef rekstrarstöðvun yrði í verksmiðjunni, ef ekki væri hægt að ná í hráefni úti í Faxaflóa vegna ótíðar. Slíkt getur alltaf komið fyrir, a.m.k. að vetrinum, en það mundi kosta geysimikið og gæti haft úrslitaþýðingu um það, hvort framleiðsla þessarar verksmiðju yrði samkeppnisfær við erlenda framleiðslu. Hér hefur einnig verið minnzt á kostnaðinn við Gretti, en sá kostnaður mundi nú verða enn meiri eftir gengislækkunina. Vafalaust þarf að borga skipshöfninni laun fyrir vaktavinnu, og má því búast við mjög dýru mannahaldi. Svo eru tryggingar og fleira, sem lýst hefur verið, að auki. Ég hef ekki séð, að sérfræðingar hæstv. ríkisstj. hafi gert mikið úr þessu eða því, hve rekstraröryggi fyrirtækisins er minna vegna þess, að þarna er, ef svo mætti segja, byggt á sjávarafla.

Ég verð að segja, að ég er undrandi yfir því, að hv. þm. Barð. skuli mæla gegn því, að frv. gangi til n., þar sem hann er form. Hv. þm. gerði grein fyrir því, að hann væri þessu máli manna kunnugastur, hefði lesið um það öll gögn og skýrslur, bæði á íslenzku og ensku. Og hvert á málið að fara, ef ekki þangað, sem þekkingin á því er mest, og þar ætti það einmitt af þeim sökum að geta haft stutta viðdvöl, en fengið þó þýðingarmikla afgreiðslu vegna staðgóðrar þekkingar hv. þm. Barð. Ég held, að þótt því verði vísað til hv. iðnn., þá geti það náð afgreiðslu á þessu þingi, því að fundum mun ekki ljúka fyrr en í fyrsta lagi aðra nótt. Vænti ég því, að hv. d. telji málið þess virði að vísa því til athugunar í n., þótt lausleg yrði, en full þörf er á því, að n. hefði getað athugað málið rækilega og helzt vísað því til umsagnar verkfræðingafélagsins, sem ætti helzt að geta sagt um það eitthvað af viti. Mér sýnist, að málið hafi ekki komið þar við, en sá félagsskapur ætti að fá tækifæri til þess að gera um það till., og ef hv. iðnn. verður sent málið til meðferðar, en hún telur sig ekki hafa aðstæður til að rannsaka það til hlítar, þá er betra, að því sé vísað frá með rökst. dagskrá en að það verði afgr. út í bláinn og kannske gerðar einhverjar þær vitleysur, sem gætu bitnað á því um alla framtíð.