16.05.1950
Efri deild: 109. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

15. mál, Sementsverksmiðja

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að tefja hér umr., enda er langt liðið á nóttu og þing. En ég get ekki látið það hjá líða að benda á það sem víti fyrir þingið til að varast, hvernig meðferð þessa máls er. Málinu er útbýtt í nóvember s.l. og vísað til nefndar í nóvember. Form. n. boðar aldrei til fundar um það og þannig gengur það í 6 mánuði. En þegar þessi formaður er farinn úr bænum, þá boðar varaformaðurinn fund um það, og síðan er það drifið í gegnum Nd. í einum hvelli og er nú komið hingað til 3. umr. Þetta er dæmi um það, hvernig á alls ekki að afgreiða mál, og ég vona, að það hendi aldrei neinn formann úr neinni nefnd þessarar deildar. — Ég skal svo ekki fara út í það að ræða frv. sérstaklega, en ég gat bara ekki látið vera að benda á, að þetta er víti, sem varast ber.