11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þegar lögin um gengisskráningu voru til umr. í þinginu, var því lýst yfir af hálfu ríkisstj., að hún mundi athuga og reyna að komast að samkomulagi við A.S.Í., ef kostur væri, um leiðréttingar á misræmi kauptaxtanna hjá hinum ýmsu verkalýðsfélögum á landinu. ríkisstjórnin hefur athugað þetta mál gaumgæfilega og rætt það við stjórn A.S.Í. Að vísu hefur ekki náðst samkomulag um þessi atriði, en ríkisstj. hefur samt þótt rétt og sanngjarnt að bera fram þá breytingu, sem fram kemur í frv. þessu og er á þá lund, að ekki varði það missi vísitöluuppbóta, þótt verkalýðsfélag færi kauptaxta sinn upp í vegið meðaltal kauptaxta félaga ófaglærðra verkamanna, þó ekki yfir 3 kr. á klukkustund. Tala þessara félaga er nú 74. Þar af eru 59 félög, sem hafa kr. 2.90–3.08 um tímann, og þar af 35 félög, sem hafa yfir kr. 3.00 á tímann, svo hvað þetta snertir er hér ekki um miklar breytingar að ræða, og finnst mér sanngjarnt að mæla með því, að þau félög, sem lægstan taxta hafa, fái heimild til þess að færa hann upp.

Þá er í öðru lagi gerð till. um það í 2. gr., að standi yfir vinnudeila eða samningaumleitanir við gildistöku laganna, skuli það talið jafngilt kjarasamningi fyrir 19. marz 1950, ef deiluaðilar semja síðar um kaupgjald, sem sannanlega lá fyrir sem fast tilboð frá atvinnurekendum fyrir þann dag. Þetta kemur til með að gilda um tvö félög, þ.e.a.s. Flugvirkjafélag Íslands og Bakarasveinafélag Íslands. Þá er og lagt til, að við 11. gr. bætist, að heimilt sé ráðh. að fella niður framleiðslugjaldið af þeim hluta aflans, sem látinn er til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjur. Þetta hefur komið til tals og reyndar þegar byrjað á Norðurlandi, að skip veiða fyrir verksmiðjur til fiskimjölsvinnslu; það hefur líka komið til tals hér sunnanlands, en ekki orðið af framkvæmdum. En sýnilegt er, að ekki er hægt fyrir skip og báta að veiða til þessarar vinnslu, ef þeir þurfa að borga þetta 10% framleiðslugjald, þess vegna þótti rétt að fara fram á þessa heimild ráðh. til handa. Það, að í þessari grein er talað um nýjan iðnað, er gert vegna þess, að það þótti rétt að hafa þetta opið, ef slíkt yrði upp tekið, svo að togararnir gætu þá lagt þar upp afla sinn, ef nýr iðnaður á sviði fiskvinnslu yrði settur af stað. Enda er það ekki tilgangur laganna að skattleggja þann atvinnurekstur, sem rekinn er með tapi eða hagnaðarlaust.

Þá þótti nauðsynlegt að kveða nánar á um, á hvern hátt vísitalan skyldi skráð, hvort það skyldi gert í heilum tölum eða brotum. Hingað til hefur hún verið skráð í heilum tölum. Hins vegar var nú ágreiningur um, hvort ætti ekki að skrá hana í brotum til þess að fylgja bókstaf laganna. Til þess nú að koma í veg fyrir ágreining og deilur út af þessu atriði, þótti rétt að setja ákvæði um að skrá vísitöluna eins og áður í heilum tölum og sleppa broti úr stigi, hálfu eða minna, en annars hækkað í heilt.

Að lokum er svo gert ráð fyrir, að ný grein komi aftan við 16. gr., sem hefur fallið úr við setningu laganna, og þótt undarlegt sé, þá hefur víst enginn tekið eftir því. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.