11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv. hefur fyrst verið lagt fram í dag, og ég hef aðeins lesið það lauslega yfir, en áður en málið fer til nefndar, vil ég leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við 3. gr. til athugunar fyrir hv. n. Í þessari gr. er gert ráð fyrir, að ráðh. sé heimilt að fella niður framleiðslugjald af þeim hluta aflans, sem látinn er til vinnslu í fiskimjölsverksmiðju beint úr skipi eða til framleiðslu annarra afurða í sambandi við nýjan iðnað. Ég geri nú ráð fyrir, að þetta ákvæði sé miðað við það, ef tekin væri upp sú aðferð að vinna fiskimjöl úr góðfiski og þá gert ráð fyrir, að minna verð fáist fyrir fiskinn, en ráðgert var þegar lögin voru sett. Ég vildi nú hreyfa því n. til athugunar, hvort hér sé einnig átt við ef fiskimjölsverksmiðja er í skipi og vinnur þar úr einhverjum hluta aflans, sem annars hefði verið fleygt. Skv. orðalagi þessarar gr. virðist mér, að það geti einnig átt við þetta, og tel ég heppilegt, að hv. n. athugi það, því að mér skilst, að þessar verksmiðjur hafi venjulega borið sig vel. Einnig viðvíkjandi því atriði að fella niður framleiðslugjaldið, ef fiskurinn er notaður í sambandi við nýjan iðnað, þá veit ég ekki, hvað hæstv. ríkisstj. á þar við, og vil því beina því til n., að hún athugi þetta atriði.