11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir því, að það verði skammgóður vermir hjá hv. þm. Siglf., ef hann heldur, að þessar breytingar, sem hér er gert ráð fyrir að gerðar verði á l., séu tákn um undanhald hjá ríkisstj. Hér er nefnilega aðeins um að ræða breytingar, sem ríkisstj. var búin að lýsa yfir, að mjög væru athugandi og í verulegum atriðum væri hún fylgjandi þeim. Hér er því aðeins um að ræða uppfyllingu á loforði, að vísu ekki föstu, en ríkisstj. lofaði þó að taka þetta til mjög velviljaðrar athugunar.

Í sambandi við það, sem hv. þm. N-Þ. spurði um, hvort hér væri einnig átt við mjölvinnslu um borð í skipunum sjálfum, vil ég taka það fram, að hér er ekki átt við það, heldur einungis fisk, sem settur er í land úr skipunum sjálfum. Ég get líka látið þess getið, að hér er ekki átt við venjulega mjölvinnslu, heldur er hér miðað við, að allur fiskur sé tekinn til vinnslu, sem ekki hefur þótt fært að gera áður. Verð á mjöli hefur verið svo hátt undanfarið, að talið hefur verið fært að setja allan fisk í mjölvinnslu og fá það verð fyrir mjölið. ef framleiðslugjöldin eru ekki lögð á þau skip, sem slíkt gera, sem nægilegt er.