15.05.1950
Neðri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala meira í þessu máli eftir ræðu hæstv. viðskmrh. Ég skildi í raun og veru hans röksemdir í þessum málum. Hann neitaði einfaldlega þeirri brtt., sem ég hef flutt hér við lögin. Og ég þóttist skilja, á hvaða grundvelli það væri gert, sem sé vegna afstöðu hæstv. ríkisstj. gagnvart baráttu verkalýðsins og þjóðarinnar fyrir bættum kjörum, sem þar kom fram. Vorum við í raun og veru búnir að ræða það áður.

En það var eitt atriði í ræðu hv. 7. þm. Reykv. (ÓB), sem gaf mér tilefni til þess að standa upp. Það voru nokkrar röksemdir í hans ræðu, sem ekki eru til þess fallnar að gefa rétta mynd af þeim vandamálum, sem við er að glíma. Hann sagði, að það væri ólíklegt, að hagur þjóðarinnar yrði betri, þó farið væri að samþ. þær brtt., sem fara fram á að hækka vísitöluna mánaðarlega. — Spurningin, sem liggur fyrir okkur hér, er ekki nein almenn spurning um hagfræðilegar ályktanir, vísindalega niðurstöðu eða annað slíkt, heldur er spursmálið um knöppustu afkomu fjölda manna í þjóðfélaginu, hvort menn hafi nóg til að borða og borga nauðsynlegt húsnæði og hvort menn hafa nóg föt til að klæðast. Við verðum að gá að því, að þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar af hálfu meiri hl. Alþ. og ríkisstjórn, þýða, að það hefur verið ráðizt þannig á afkomu heimilanna hér í Reykjavík og úti um landið, að menn geta ekki veitt sér brýnustu lífsnauðsynjar. Svo framarlega að laun manna verði hækkuð nú, þýðir það það að menn geti keypt hluti, sem menn annars verða að fara á mis við — brauð, sem menn verða annars að fara á mis við, og mjólk handa börnum sínum, sem menn annars geta ekki keypt eins mikið af. Það hefur orðið svo skyndileg breyting í sambandi við lífsafkomu manna nú, að það stendur nú ekki lengur baráttan um það, hvort menn lifi við betri eða lakari lífskjör, heldur um það, hvort menn hafi nóg eða þá skorti lífsnauðsynjar. Og þá er baráttan orðin alvarleg. Það er nú komið í ljós, að það, sem verið er að skipuleggja, er fátækt — sár og bítandi fátækt hjá almenningi. Og spurningin er þá fyrir þessum mönnum, sem fyrir þessum aðgerðum verða, hvort þeir fái þá hækkun á sínum launum, sem nægi til þess að veita þeim brýnustu lífsnauðsynjar. Og svo framarlega að þjóðfélagið þolir ekki að veita þessum mönnum brýnustu lífsnauðsynjar, þá getur það gert svo vel að byrja annars staðar að knepra við menn. Það er ekki að sjá, að stefnan sé sú, að það eigi að taka af þeim, sem hafa mestu af að má í þjóðfélaginu. Þess vegna er spurningin um það, þegar lögð er fram till. eins og sú, sem hér er fram borin, um að reikna mánaðarlega út vísitölu framfærslukostnaðar og hækka laun og lækka í samræmi við vísitöluna — ekki hvort verkalýðurinn og launþegar fái bætt upp það, sem raunverulega hefur verið stolið af þeim með vísitölubreyt. frá 300 upp í 450 stig, sem þeir ekki fengju uppbætur á, heldur að bæta upp þá dýrtíðarhækkun, sem verður, eftir að farið er að reikna út vísitöluna með 100 sem grunn. Þess vegna er ekki til neins að svara réttlátum kröfum launþega þannig, að hagur þeirra verði ekki betri með því að þeir fái þessa launauppbót. Auðvitað verður hann betri með því. Með því fá launþegar meiri peninga til þess að kaupa nauðsynjar sínar, sem þeir geta ekki komizt af án. Það eru ekki fyrst og fremst launin, sem skapað hafa þessa hækkun á hlutunum. Það eru allar aðrar aðstæður, sem skapa lífsafkomu og sölumöguleika á afurðunum, lífsmöguleika og sölumöguleika okkar. — Raunverulegur kaupmáttur yrði ekki meiri, sagði hv. 7. þm. Reykv. Auðvitað yrði kaupmátturinn meiri hjá almenningi, svo framarlega sem menn fengju upp bætta þá dýrtíð, sem er verið að skella yfir þá. Hins vegar er ætlazt til þess af hálfu þeirra stóratvinnurekenda, sem hér koma til, að minnkuð verði kaupgetan hjá íslenzkum almenningi. En það þýðir sama sem að koma fátæktinni aftur á hjá almenningi. — Það er þess vegna ekki til neins að ætla að verja þessar aðgerðir með því að vera að segja við launþega. að þeirra hagur verði ekki betri fyrir það, að kaupgjald sé hækkað. Hins vegar er enginn kominn til þess að segja, að þó að kaupgjaldið sé hækkað, þá þurfi að hækka vörurnar. Það er hægt að hækka kaupið á kostnað auðmannastéttarinnar og auðvaldsins í landinu, með því að láta launahækkunina ganga út yfir þá, sem ráða atvinnurekstrinum og hafa gróða í sambandi við verzlun og annað slíkt í þjóðfélaginu. Það er ekki nauðsynlegt, að kaupgjaldshækkun þurfi að þýða vöruverðshækkun. — Þess vegna er það gefið, að öll barátta fyrir kauphækkunum hjá verkalýðnum er barátta fyrir raunverulegum lífskjarabótum þeirra. Það er hins vegar hægt að svíkja þá, þó kauphækkun yrði gerð, um svo og svo mikið af árangri af þeirri hækkun, með því að hækka verðið á vörunum á eftir eða jafnframt. Og það verður gert nú. En hugmyndin — hin hagfræðilega hugmynd —, sem þarna liggur á bak við, er sú, að ráðstafanirnar, sem á að gera, byggjast á því, að auðvald sé ekki til hér í okkar þjóðfélagi, og ekki mikill gróði hjá einstökum mönnum í þjóðfélaginu. En gróði, sem skapast á þessu ári í okkar þjóðfélagi, skiptist á milli atvinnurekendastéttarinnar og heildsalastéttarinnar. Það er hægt að draga úr öllum þessum gróða og halda niðri verði á vörum, ef það er gert á kostnað þessara yfirstétta, sem ég nefndi, þar sem nokkrir aðrir gróðamenn koma einnig til greina. Og hv. 7. þm. Reykv. þarf ekki annað en að athuga, hvað auðvaldsstéttin tekur í sinn hlut af gróðanum, sem myndast í þjóðfélaginu. Auðmannastéttin á á milli 500.000.000 og 600.000.000 kr., þó ekki séu teknir nema 200 eignahæstu aðilarnir. Og það er hægt að ganga á þann gróða, sem myndazt hefur hjá þessari stétt.

Hv. 7. þm. Reykv. vildi segja, að 60% af launahækkunum hefði þau áhrif, að launþegarnir tækju það hver af öðrum. Ef þessi röksemdafærsla er rétt, mundi hann meina, að 14 millj. kr. launahækkunin, sem samþ. var við fjárl., væri tekin að nokkru af verkamönnum og launþegum í þjóðfélaginu, sem hafa verri aðstöðu, en opinberir starfsmenn. Og þá þýddi það það fyrst og fremst, að þeir, sem eru sérstakir fulltrúar opinberra starfsmanna og skoða sig sem slíka, ættu að finna skyldu hjá sér — ef 60% af launahækkunum opinberra starfsmanna eru tekin af verkamönnum og öðrum slíkum — alveg sérstaklega siðferðislega skyldu til þess að reyna að bæta þeim kjör sín, sem þetta er tekið af, til þess að bæta þeim upp það, sem tekið er af þeim með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið. Við vitum líka, að þegar samþ. voru 10–15% uppbætur á laun opinberra starfsmanna, þá eru það menn, sem hafa fasta atvinnu, ekki aðeins allt árið um kring, heldur sumir ævilanga atvinnu. En þegar verið er að ræða um afstöðu verkamanna, þá er um menn að ræða, sem ekki eru öruggir með sína afkomu, nema þann og þann daginn, sem þeir eru í vinnu, og horfa nú fram á það, að þeir verði hvað eftir annað atvinnulausir þann og þann daginn, sem þeir hafa búizt við að fá vinnu, — m. ö. o. eiga við allt það öryggisleysi að búa, sem stafar af atvinnuleysinu. Það væri þess vegna því meiri ástæða til, vegna þeirrar aðstöðu, sem starfsmenn ríkisins nú hafa, og vegna þess, hvernig verkamenn og þeirra fulltrúar hafa barizt fyrir málum opinberra starfsmanna, að þeir, sem skoða sig sem sérstaka fulltrúa fyrir samtök opinberra starfsmanna, ættu sama sinni í því að berjast fyrir hagsbótum þeirra manna, sem verr eru settir í þjóðfélaginu, en starfsmenn þess opinbera. — Og ég verð að benda hv. 7. þm. Reykv. á það, einmitt vegna þess, sem hann var að tala um forsendur, sem hefðu verið fyrir gengisskráningarlögunum, þegar þau voru sett, að ég áleit þær forsendur vitlausar, þegar frv. var samþ. Og það má vera undarlegur maður, sem ekki gengur inn á það nú, að þær voru vitlausar og eru vitlausar. Það var þá gengið út frá því að bæta úr þeim vandræðum, sem við hafði verið að etja, með því að lækka gengið. Og það var sagt í grg. frv., sem átti að heita röksemd fyrir þessu, að það ætti að vera hægt að ráða bót á þessu með gengisbreyt. En það sýnir sig, að allar þessar forsendur eru rangar. Það sýnir sig, að það, sem reiknað er með, að fullkomlega sé tryggt með þessum l., er án alls grundvallar. Þetta kom fram strax í þeirri fyrstu n., sem hafði með höndum athugun á þessu máli hér í þinginu — og hv. 7. þm. Reykv. núverandi var stundum á fundum hjá okkur í þeirri n., þegar fulltrúar sjómanna upplýstu það, að það verð, sem hraðfrystihúsin gætu borgað fyrir fiskinn, væri 75 aurar, þar sem gengið var út frá 93 aurum í forsendum nefndarinnar, sem undirbjó frv. Og við héldum fram í n., að þetta væri vitlaus útreikningur hjá þeim, sem undirbjuggu frv., þó að þeir, sem voru með frv., héldu, að þetta væri réttur útreikningur.- Þessi útreikningur þeirra, sem undirbjuggu frv., stóðst svo ekki. — Og ef við ættum svo að fara að breyta genginu af þeim ástæðum, sem stafa af öryggisleysinu og markaðsvöntuninni, þá veit ég ekki, hvert ætti að fara með gengi krónunnar, — ef ætti að lækka hana, þegar enginn fiskur hraðfrystur selst í Englandi. Hvert færi þá gengið? — Það var ekki tekið mark á því, sem við héldum fram í markaðsmálunum. Og þegar við vildum leyfa örlitla frjálsa verzlun, hvað er þá svar Alþ.? Það að drepa hverja einustu till., sem kemur fram um að, að einhverju leyti sé rýmkað um höftin á verzluninni. Fyrst er búin til löng ritgerð og þar sagt, að þetta eigi að vera undirstaðan, sem öll bjargráðin eigi að hvíla á, frjáls verzlun. Svo sýnir það sig, þegar á að fara að framkvæma þessi lög, gengisbreytingarl., að þetta er allt blekking. Það er ekki meining þeirra, sem hafa sett þessi lög í gegn, að hafa frjálsa verzlun, heldur hitt, að halda við einokun þeirri, utan lands og innan, sem hefur verið í þessum málum. Ég segi ekki, að þetta hafi verið hugsað sem blekking af hálfu núv. 7. þm. Reykv. En hans góða trú viðvíkjandi því, að frjáls verzlun væri forsenda og afleiðing af þessu í senn, sem gert var með því að samþ. gengisbreyt., reynist að vera algerlega blekking gagnvart fólkinu. Þegar alþýðan spyr, hvort hún megi ekki bjarga sér sjálf, — framleiða sinn fisk og selja hann og kaupa sínar nauðsynjavörur, þá er svarið: Nei, þessu verður haldið í föstum skorðum, því að þau yfirvöld, sem hér í Reykjavík ráða, mega ekki missa af sínum einokunarrekstri og gróða í sambandi við þetta allt. Það fæst ekki nein smásmuga í sambandi við þetta. Ég held, að þetta verði hv. 7. þm. Reykv. að athuga, þegar hann talar hér á móti því, að verkamenn fái leyfi til þess — eða ríkið, réttara sagt — að hliðra til við þá um það, að þeir fái vísitöluna reiknaða út mánaðarlega og launin hækkuð mánaðarlega í samræmi við það. Það er sanngjörn krafa, og það sannarlega, með hliðsjón af þeirri fátækt, sem er að skella yfir almenning sem afleiðing af gengislækkunarlögunum, og ber ekki að standa á móti henni, a.m.k. á þeirri forsendu, sem hv. 7. þm. Reykv. kom fram með. — Launþegar á Íslandi eru alveg tilbúnir í að beita sér sjálfum viðvíkjandi sinni framleiðslu og framleiða með því kaupi, sem þeir fallast á að semja um við atvinnurekendur og fá sitt kaup samkvæmt því, sem reiknað er út mánaðarlega, samkv. því, sem ég hef gert till. um, og að sjá sjálfir um sölu á vörunum úr landi og sjá sjálfir um sitt atvinnulíf. Þeir treysta sér betur til þess en þeim, sem nú stjórna þessu. Og það er hart, þegar sagt er við þá: Það er ekki betra fyrir ykkur að hækka ykkar kaup; þið skuluð sleppa því og una við þá einokun, sem þið eruð beygðir undir, og una við þessi gengisskráningarlög. — Og mér finnst það sízt sitja á hv. 7. þm. Reykv. að tala á móti till. um það, að launþegar fái upp bætta dýrtíðina, sem sjálfur hefur, réttilega, hv. 7. þm. Reykv., þessa fáu daga, sem hann hefur setið hér á þingi, verið að beita sér fyrir því, að starfsmenn hins opinbera fái uppbætur á sín laun. Það er lítið samræmi í því að berjast fyrir því, að starfsmenn hins opinbera, sem er öruggasta stéttin af öllum launþegum í landinu með tilliti til tekna, — það er lítið samræmi í því hjá þessum hv. þm. að berjast fyrir því, að sú stétt fái uppbætur á sín laun, og tala jafnframt á móti því, að verkamenn fái það sama, verkamenn, sem verða að búa við það að horfa fram á sívaxandi fátækt og versnandi kjör og síaukið atvinnuleysi, vegna þeirra ástæðna, sem gengisbreytingarlögin hafa skapað.