15.05.1950
Neðri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. vil ég aðeins taka fram, að það var margt rétt í því hjá honum, að kjör launþega nú séu alls ekki of góð. Ég get verið því sammála. Hjá mörgum er það sjálfsagt þannig, sérstaklega ef atvinnan rýrnar að einhverju leyti, að menn munu eiga erfitt með að afla sér þeirra nauðsynja, sem telja má skilyrði fyrir því, að menn hafi mannsæmandi kjör að lifa við. — En það er að mínu áliti ekki kjarni málsins, heldur hitt, hvort kauphækkanir til samræmis við vísitöluna geti bætt úr þessu. Til þess að kauphækkanir geti bætt kjör launafólks — og um það hygg ég, að sé ekki ágreiningur á milli okkar hv. 2. þm. Reykv. og mín - skilyrðið fyrir því, að svo megi verða, hlýtur að vera, að verðlagið hækki þá ekki til samræmis við kauphækkanirnar. En ástæðan til þess, að ég get ekki fylgt þessari till., er nú liggur fyrir frá hv. 2. þm. Reykv., er sú, að ég óttast, að verðlag muni hækka að sama skapi, svo að launþegar muni verða sízt betur úti. Má í þessu sambandi benda á, að það er staðreynd, að ef t.d. bakarar hækka sitt kaup, hækka brauðin til annarra launþega. Eins má t.d. benda á, að ef byggingarkostnaður hækkar, hækka húseignir í verði og þá um leið húsaleiga. Þess vegna er ástæða til að ætla, að kauphækkun geti ekki nema að mjög takmörkuðu leyti bætt kjör launafólks. Hv. 2. þm. Reykv. sagði: Hvernig er það, er þá ekki hægt að taka kauphækkunina af gróðanum og koma í veg fyrir það, að verðlag hækki sem kauphækkuninni nemur, þannig að það gangi út yfir gróðann? — Já, ég skal ekki neita því, að hér í þjóðfélaginu á sér stað mikill gróði, en svar mitt við þessu er aðeins það, að ég álít kauphækkun ekki aðferðina til þess að ná þessum gróða í vasa launafólksins, því að tilfellið er bara það, að sé litið á atvinnurekendur í heild, skiptir ekki þá mjög miklu máli, hvort kaupgjald er hærra eða lægra. Sannleikurinn er bara sá, að hækkað kaupgjald verkar neikvætt á kjör launafólks og kemur fram í hækkuðu verðlagi og rýrnun á verðgildi peninganna. Annað mál er það, hvort launþegar gætu ekki á annan hátt fengið einhverja hlutdeild í þessum hagnaði, en kauphækkun er bara ekki aðferðin til þess að ná því. Hv. 2. þm. Reykv. gerði í þessu sambandi að umtalsefni launauppbót til handa opinberum starfsmönnum. Ég get vel verið svo hreinskilinn að játa, að það er eins með kauphækkun til opinberra starfsmanna og aðrar launahækkanir, að aðrir launþegar koma til með að standa undir þeim. Engum blandast hugur um það, að þegar útgjöld ríkisins vaxa vegna launahækkana, verður að skapa tekjur til að standa undir því, t.d. með tollum og sköttum. Engu að síður getur verið sanngirnismál, að launþegar beri svipað úr býtum og aðrir, sem vinna hliðstæð störf, og virðist ekki nema sanngjarnt að leiðrétta misræmi, sem þar á sér stað.

Um gengislækkunarl. ætla ég ekki að ræða á þessum vettvangi, enda ekki til þess ætlazt. Það var rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., eins og ég sagði, að því miður virðist þróun markaðsmálanna ætla að verða sú, að fiskverðið reynist nokkru lægra, en við Benjamín reiknuðum með í áætlun okkar, en finnst ekki slíkt vera sönnun fyrir því, að gengislækkunin hafi verið ónauðsynleg, heldur hygg ég, að það gagnstæða sé tilfellið. Ef það hefði sýnt sig, að fiskverðið hefði t.d. orðið 15 pence í staðinn fyrir 10 pence, hefði kannske mátt segja, að það væri óeðlilegt að lækka gengið svona mikið. En ef fiskverðið yrði kannske ekki 10 pence, heldur aðeins 6–7 pence, fyndist mér það frekar sönnun fyrir því, að gengislækkunin væri óhjákvæmileg eða einhverjar tilsvarandi ráðstafanir gerðar. Og það er blekking að segja, eins og sagt hefur verið í blöðunum, að það sé vegna gengislækkunarinnar, að afkoman er ekki betri en hún er. Réttara væri að segja, að þrátt fyrir gengislækkunina sé afkoman lakari, en æskilegt væri. Allir hljóta að sjá, að útgerðarmenn væru ekki betur settir með að fá 26 kr. fyrir pundið en að fá 46 kr., eins og þeir fá nú.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á það atriði í sambandi við okkur dr. Benjamín, þar sem við tölum um frjálsa verzlun. Í þessu sambandi get ég upplýst, að okkur datt aldrei í hug, að hægt væri að gefa verzlunina frjálsa. Hvenær sem það verður, og það er náttúrlega undir atvikum komið og sérstaklega því, hvernig haldið verður á málunum að öðru leyti en að því er snertir gengisskráninguna beint, því að okkur blandast ekki hugur um það, að gengisbreytingin út af fyrir sig er náttúrlega ekki allra meina bót, heldur verður að gera ýmiss konar hliðarráðstafanir, og undir því er komið, hve skjótur árangur næst af þessu, þ.e.a.s. hliðarráðstöfununum, hvort gengislækkunin getur í þessum efnum náð tilgangi sínum.