13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur Þjóðleikhúsið verið fullgert og er tekið til starfa. Og verður ekki annað séð af því, sem fram er komið undanfarnar vikur, en að þjóðin hafi fagnað því mjög að hafa fengið þetta veglega hús til umráða.

En það fylgir nú nokkur böggull skammrifi, þ.e. þessari gjöf, sem þjóðin fékk nú fyrir skömmu, sem er, að leikhúsbyggingin er enn 1 stórskuldum, sem nema nú um 3,3 millj. kr., þ.e.a.s. óreiðuskuldum. Og það er nú svo, að þeir, sem að byggingunni hafa unnið nú síðasta misserið, eiga margir hverjir inni þar stórfé. Og það er nú komið svo, að þessi fyrirtæki, sem að þessu hafa unnið, eru komin í mikla fjárþröng af þessum sökum.

Það hefur ekki reynzt létt verk að afla nægilegs fjár til þess að standa straum af byggingunni. Það hefur verið tekið að láni fé út á þær tekjur, sem þjóðleikhúsinu reiknast að fá um tíu ár fram í tímann af skemmtanaskattinum. Og nú eru engin ráð til fyrir þjóðleikhúsið til þess að komast út úr þessum skuldum, önnur en að flýja á náðir hæstv. Alþ. og fá það til þess að létta þessa erfiðu aðstöðu sem þjóðleikhúsið er komið í. Jafnvel þó að með ríkisábyrgð sé, er ekki auðvelt nú að fá lán. En það verður að gera eitthvað til þess að komast út úr þessu. Því að svona getur það ekki gengið lengur.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá var skemmtanaskatturinn upphaflega lagður á til þess að standa undir byggingu leikhússins. Það hafa verið gerðar ýmsar áætlanir um bygginguna og kostnaðinn við hana, sem illa hafa staðizt. Og vegna þessa var það gert — vissulega af misskilningi, — að tekjurnar af skemmtanaskattinum voru látnar renna frá leikhúsinu um skeið, af því að menn héldu, að það mundi vera hægt að koma því upp fyrir það fé, sem var fyrir hendi. Hins vegar kom það á daginn, að þetta var alls ófullnægjandi. Og þá var komið aftur til þingsins, til þess að fá leikhúsinu í hendur aftur nokkra hlutdeild í skemmtanaskattinum, svo að það fær 25%. Og það er búið að veðsetja þessi 25% í 10 ár fram í tímann, og vantar samt að ráðstafa á fjórðu millj. kr. skuld.

Nú fer ég fram á, að hluti leikhússins af skemmtanaskattinum verði hækkaður í 45%, á meðan fé er að koma inn til þess að greiða skuldir hússins.

Ég vil taka fram, að ég álit, að félagsheimilasjóður sé alls góðs maklegur. En ég tel, að leikhúsið eigi samt sem áður forgangsrétt í skemmtanaskattinum, þangað til leikhúsbyggingin er að fullu greidd. Það er ekki hægt að standa með þessa stóru byggingu þannig að hafa á henni meira en þrjár millj. kr. áhvílandi skuldir, þar sem hver og einn af þessum skuldareigendum, sem hjá fyrirtækinu eiga, gæti gengið að þessari byggingu og heimtað hana boðna upp. Þetta mál verður því að leysast. Og ég treysti því, að þingið vilji fallast á þá skoðun, að réttmætt sé, að leikhúsið fái þennan hækkaða skerf, sem lagt er til hér í frv., að það fái af skemmtanaskattinum. Þetta mál þarf að fá afgreiðslu, af því að húsinu er lokið. Og ég vænti, að hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, ljúki skjótlega störfum, til þess að hennar álit geti komið fyrir þingið strax á mánudag.

Ég vil að svo búnu óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.