13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur verið um það rætt meðal þm., að þinglausnir yrðu innan skamms, helzt um miðja næstu viku. Er þetta frv. var lagt á borðið í fyrradag hélt ég ekki, að stj. vildi lögfesta það nú, heldur væri meiningin að kynna þm. þær upplýsingar, sem eru í grg. Eftir ræðu hæstv. menntmrh. er það hins vegar ljóst, að ætlun hans er, að þetta verði lögfest áður en þessu þingi lýkur og að n., er um það á að fjalla, hafi aðeins einn helgidag til umráða. Ég verð að segja, að mér finnst ekki sanngjarnlega á málum haldið gagnvart þm., einkum þegar þess er gætt, að þjóðleikhúsið er ekki stundarfyrirbrigði, og hefði verið nær að taka málið fyrr til athugunar, ef ástæða þótti til að breyta l.

Ef litið er á forsögu málsins, er rétt að líta til ársins 1946, það er ástæðulaust að fara lengra aftur í tímann. Þá er þar til máls að taka, að haustið 1946 var það talið liggja fyrir, að fé það, sem þjóðleikhússjóði hefði áskotnazt í árslok 1947, væri nægilegt fyrir stofnkostnaði. Hér voru þá haldnir fundir menntmn. og byggingarn., og byggingarn. lagði fram skilríki fyrir því, að þetta yrði nægilegt. Því fór fjarri, að gengið væri fram hjá byggingarn. við afgreiðslu málsins. Snemma vors árið 1947 voru sett l., er ákváðu nýja ráðstöfun skemmtanaskattsins, til félagsheimilasjóðs, og hafði íþróttan. tillögurétt varðandi styrkveitingar úr sjóðnum. Frá því að þessi l. voru sett liðu ekki full tvö ár, þar til ljóst var, að upplýsingar þær, sem byggingarn. hafði gefið þinginu, mundu ekki standast. Það kom í ljós seint á árinu 1948, að allmikið fé vantaði til greiðslu stofnkostnaðar þjóðleikhússins. Þá var farið inn á þá braut, sem hæstv. ráðh. gat um, að fresta framkvæmd l. frá 1947 og færa 25% skemmtanaskattsins í byggingarsjóð þjóðleikhússins til þess að standa straum af lánum. Málið var alllengi á döfinni, og reynt var að miðla svo málum, að allir mættu sem bezt við una. Ég hygg, að eftir atvikum hafi það tekizt vel. Þessi l. voru samþ. 17. maí 1949 eftir þeim áætlunum, sem þá voru gerðar og fyrir lágu frá forstöðumönnum þjóðleikhússins. Í dag er 13. maí 1950, ekki alveg heilt ár síðan þessi l. voru samþ., og nú er upplýst, að hagur þjóðleikhússins sé þannig, að lausaskuldir þess séu 3.3 millj. kr. og enn fremur hafi verið tekin föst lán, er nemi tæpum 6 millj. kr., auk vaxta. Það vantar því 9–10 millj. kr. til þess að þjóðleikhúsið sé skuldlaust. Það verður ekki annað sagt, en að mikið beri á milli þess, sem áætlað var 1947 og 1949, og niðurstöðunnar 1950. Ég veit ekki, í hverju það er fólgið, en væntanlega hefur ráðun. fengið upplýsingar um það frá byggingarn., og sennilega eru till. stj. byggðar upp með hliðsjón af þeim. Ég tel sjálfsagt, að n. fái að kynnast öllum skilríkjum varðandi málið, og ef þau liggja ekki fyrir, að n. fái að kynna sér málið til hlítar, áður en það verður afgr.

Þá tel ég rétt að víkja að því, hvort það er að ófyrirsynju, að félagsheimilasjóður fái þann hluta af skemmtanaskattinum, sem hann nú fær. Ég fullyrði, að svo er ekki, og tel fyllstu ástæðu til að ætla, að sjóðurinn þurfi þegar tekjur. Ég hef ástæðu til að ætla, að íþróttan. ríkisins hafi þegar veitt loforð um stuðning, sem nemi það miklu, að þó að sjóðurinn fengi óskertar tekjur, mundu þær ekki nægja til annars, en að standa við þegar gefin loforð. Það kann að vera staðreynd, að fjárhagur þjóðleikhússins sé á þann veg, sem hér er greint frá, og þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig úr því megi bæta án þess að skerða tekjur félagsheimilasjóðs.

L. um skemmtanaskatt eru gömul. Stofninn er frá 1927, en ofan á hann hefur síðan verið lagt álag með sérstökum l., sem verið hafa í gildi eitt ár í senn og verið framlengd árlega. Þetta álag hefur verið óbreytt, að því er ég held, átta síðustu árin, en ekki hefur þetta verið í fastari skorðum en það, að borið hefur við, að stj. hefur gleymt að framlengja það og orðið að gefa út brbl. Ég vil vekja athygli á því, að mér finnst koma til greina að samræma og fella í eina heild öll ákvæði varðandi þetta og búa þá svo um, að þjóðleikhúsið geti staðið straum af skuldum sínum.

Ég skal svo ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. Það virðist ósk hæstv. menntmrh. nú að vega enn í sama knérunn og gert var 17. maí 1949, skerða tekjur félagsheimilasjóðs til þess að afla tekna í þjóðleikhússjóð, og hæstv. ráðh. vill, að þetta verði gert svo fljótt, að n. hefur aðeins einn helgan dag til þess að athuga málið. Ég verð að segja, að ég tel þetta ekki sanngjarnt í garð þm.