13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Tveir ráðh., hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., hafa mælt með þessu frv. og byggt á því, að þetta væri eina ráðið til þess að þjóðleikhúsið gæti staðið við skuldbindingar sínar. Það er sjálfsagt rétt, að þeir líta svo á, að þessi þörf sé fyrir hendi. Hitt virðist á skorta, að þeir geri sér grein fyrir því, að eins stendur á fyrir hinum aðilanum, þeim, er reisa félagsheimili, en félagsheimilin eru samkomustaðir þeirra byggðarlaga, sem þau hafa reist, og nauðsynlegur þáttur í félagslífi hinna dreifðu byggða. Þeir, er að þeim standa, Leggja mikið á sig, því að styrkurinn er aðeins litill hluti af byggingarkostnaði. Það er því í stórum stíl um þegnskylduvinnu að ræða, í fyllstu merkingu orðsins. Fjöldi manna, sérstaklega æskan — og það er gleðilegt — færir þar miklar fórnir. Það mundi reynast ómögulegt að sinna þessu hlutverki, ef meginhluti vinnunnar væri ekki gjafavinna, framlagsvinna án endurgjalds. Þannig er aðstaðan til þess að skapa félagslíf úti um hinar dreifðu byggðir.

Þegar skemmtanaskattinum er skipt milli þjóðleikhússins og félagsheimilanna, leiðir af sjálfu sér, að hvor aðili hagar framkvæmdum í samræmi við fjárvon samkvæmt l. og von um lántöku. Þetta er grundvöllurinn, sem byggt er á. Nú er það vitað, að í báðum tilfellum hefur verið gengið lengra og stofnað til meiri lántöku en full varfærni bauð. Þetta er ljóst um þjóðleikhúsið, og ég ætla, að hlutfallslega svipaðir erfiðleikar steðji að félagsheimilunum. Mér skilst líka, að komið hafi í ljós, eftir því sem haft er eftir íþróttan., að stj. hafi leitað til hennar um að hún léti af hendi fé, en þau svör borizt, að búið væri að ráðstafa fénu. Mér finnst því, að ekki verði gripið til þess að leysa mál þjóðleikhússins með því að stefna aðilum félagsheimilanna í vandræði. Það er engin lausn. Ég vil vekja á því fullkomna athygli, að þó að erfitt kunni að vera að útvega þetta fé fyrir þjóðleikhúsið, þá er það betur sett en hinn aðilinn, því að stj. þjóðleikhússins má taka lán með samþykki ráðh., og er þá vitanlega litið svo á, að ríkissjóður ábyrgist það fyrir þjóðleikhúsið. Þessu er ekki til að dreifa úti um landsbyggðina. Lánin hvíla þar persónulega á hlutaðeigandi aðilum, og ef sjóður félagsheimilanna er skertur, verður þröngt fyrir dyrum og erfitt að standa straum af þeim lánum, sem tekin hafa verið á grundvelli l. Hér er því hallað á veikari aðilann. Ég trúi því ekki, að ekki megi finna annað úrræði. Ég vil því skjóta því til n. og stj. að finna önnur úrræði til þess að leysa þann vanda, sem skapazt hefur við að ljúka byggingu þjóðleikhússins, því að það er vandi, sem þarf að leysa. En það má ekki stofna veikari aðila í vandræði, er torleystari eru en að stj. þjóðleikhússins geti staðið við sínar skuldbindingar.