13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta mörgum orðum við það, sem sagt hefur verið um málið við þessa umr. Mér virðist það dálítið hæpið, sem fram hefur komið frá ýmsum við þessa umr., að þjóðleikhúsið eigi lagalegan rétt til skemmtanaskattsins. Ég hef aldrei getað skilið, að það ætti neinn sérstakan rétt til hans. Þar sem skemmtanaskatturinn er, er um að ræða tekjustofn, sem eðlilegt er, að sé tekjustofn fyrir ríkissjóð, og hann getur verið ákveðinn með l., þó að ekkert sé byggt. Þótt þ. hafi tekið upp þann hátt að ákveða, að þessi tekjustofn skyldi nytjaður til þessarar framkvæmdar, þá kemur ókunnuglega fyrir að heyra menn segja, að þjóðleikhúsið eigi rétt til hans og þ. hafi gert eitthvað rangt með því að verja þeim tekjum til annarra hluta. Ég verð að segja, að það er mjög fjarri lagi að halda slíku fram. Nú, — þetta vildi ég gjarnan láta koma fram, því að ég hef ekki heyrt, að þetta hafi komið annars staðar frá.

Ég skal ekki gera að umræðuefni þessa framkvæmd eða þær áætlanir, er gerðar hafa verið. Það hefur verið rætt sérstaklega af hv. þm. A-Sk. En hvað sem líður þeirri staðreynd, að engan veginn hafa verið borgaðar upp þær skuldir, sem á þjóðleikhúsinu hvíla, þá finnst mér neyðarúrræði að taka inn í þetta stjfrv. aðrar framkvæmdir, sem í sjálfu sér eru alveg eins nauðsynlegar og eiga eins mikinn rétt á að fá féð og þjóðleikhúsið. Ég vildi, eiginlega í framhaldi af orðum hv. þm. A-Sk., skjóta því til hv. n., sem málið fær til meðferðar, hvort eigi væri ráð að afla þjóðleikhúsinu tekna án þess að taka þær frá öðrum framkvæmdum, og ekki tiltækilegt að hækka skemmtanaskattinn um það, sem nemur þessum 20%, og sú fjárhæð gengi þá til þjóðleikhússins. Ég vildi skjóta því fram án þess að gera það að till. minni, !til athugunar fyrir hv. n., og í framhaldi af því, sem hv. þm. A-Sk. mælti hér áðan.