16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr. í d., lét ég í ljós þá skoðun, að það kæmi nokkuð seint fyrir þessa hv. d., í annað stað gagnrýndi ég nokkuð, hve geysilegur munur væri á áætlununum um byggingarkostnað þjóðleikhússins og því, sem niðurstöður væru taldar sýna. Ég skal nú ekki eyða tíma í að fara nánar út í þessi atriði, en mun víkja að því nál., sem ég hef lagt fram á þskj. 766. Eftir að þetta mál var hér til 1. umr. s.l. laugardag, hélt menntmn. einn fund. Engin skilríki lágu fyrir n. um það, af hverju sá mikli byggingarkostnaður þjóðleikhússins, sem þm. er sagt að orðið hafi, stafar. Engin skilríki lágu fyrir n. um það, hverjum þjóðleikhúsið skuldar. Ekki var heldur neitt upplýst um það, hvort byggingu þjóðleikhússins sé raunverulega að fullu lokið, þannig að allur kostnaður, sem færast kunni sem stofnkostnaður hússins, sé kominn til greina nú þegar. Í því sambandi má benda á, að svo kynni að vera, að einhverjir teldu þörf á að lagfæra nokkuð utan húss og færa það til byggingarkostnaðar. En það lá ekkert fyrir n. um þetta atriði, né heldur, hvort byggingarn. þjóðleikhússins, sem svo er kölluð og hefur staðið fyrir byggingu hússins, er ætlað að starfa áfram eða ekki. Ég sé í frv., sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj., að það á að ganga í gildi, ef að l. verður, 1. júní þ. á., og þar segir í 2. gr. frv., „Byggingarn. þjóðleikhússins er heimilt að taka lán.“ Þetta virðist benda til þess, að byggingarn. eigi enn, þó að þetta frv. verði að l., að vera virkur aðili í þessu máli, en engar upplýsingar hefur menntmn. fengið um þetta atriði heldur. Þegar af þessum ástæðum þótti mér málið illa upplýst og ekki nægilega vel undirbúið og gat því naumast, þegar af þessum ástæðum, verið alveg skilyrðislaust með því. En svo kemur fleira til. Hér er um allmikið fjárhagsmál að ræða, sem snertir sérstaklega eina starfsgrein félagslegs eðlis á landinu, félagsheimilasjóð, sem stendur straum af stofnkostnaði félagsheimilanna að verulegu leyti, eins og l. eru nú. En frá þeim var gengið í fyrra með skiptingu á skemmtanaskattinum, og þá fær félagsheimilasjóður 40% af skemmtanaskattinum. En með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að minnka þetta framlag til félagsheimilasjóðs um helming, færa hluta hans af heildarskattinum niður í 20%. Skemmtanaskatturinn í heild mun hafa numið undanfarin ár 2–3 millj. kr., eða nánar tiltekið frá 2 og upp í 21/2 millj. kr. ár hvert. Eins og l. eru nú um skipting skemmtanaskattsins, fær þjóðleikhúsið til umráða helming þessa fjár, eða 50% af skattinum. 25% á að fara til rekstrar þjóðleikhússins og 25% til að standa straum af stofnkostnaði hússins. En með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þjóðleikhúsið eitt fái 70% af skattinum. Hér er því um tilfærslu að ræða, sem skv. frv. nemur 20% eða 1/5 af skemmtanaskattinum, eins og hann er í heild. Af þessu má sjá, að frv. stefnir að því að færa frá félagsheimilasjóði 400 til 500 þús. kr. árlega. Þær upplýsingar eru í grg. þessa frv., að skuldir þjóðleikhússins í heild nemi milli 9 og 10 millj. kr., 6 millj. séu föst lán, en 3,3 millj. séu lausar skuldir. Nú liggur það í augum uppi, að 3,3 millj. kr. af lausaskuldunum verða ekki greiddar á þessu ári með þeim hluta af skemmtanaskattinum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir að fari til þjóðleikhússins. Í fyrsta lagi vegna þess, að þótt frv. gilti heilt ár þá mundi fjárhæðin ekki vera nema um 400 þús. kr., og nú er ætlazt til þess, að frv. komi í gildi 1. júní, þannig að það gildir aðeins síðustu 7 mánuði ársins. Það liggur því í augum uppi, að skuldamál þjóðleikhússins verða ekki leyst á þann hátt einan að gera þá tilfærslu á milli félagsheimilasjóðs og þjóðleikhússins eins og hér er stefnt að. Það hlýtur að vera áhjákvæmilegt að taka lán vegna lausaskulda þjóðleikhússins, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki. Og með því fé, sem hér er ráðgert að færa á milli, mundi það taka 6 til 8 ár að greiða afborganir af 3,3 millj. kr. Nú má gera ráð fyrir, að einhverjir vextir falli á slík lán, svo að þegar það bætist við, þá sjáum við í hendi okkar, að hér er um alllangt tímabil að ræða, sem gert er ráð fyrir, að þetta frv. eigi að gilda. Að því er snertir þjóðleikhúsið, verður því útkoman sú, að hvort sem frv. er samþ. eða ekki, þá verður óhjákvæmilegt að taka lán vegna lausaskuldanna og leysa málið á þann hátt, en sú hliðin, sem snýr að félagsheimilasjóði, er á þá leið, að með þessu er stefnt að því að færa frá honum a.m.k. 400 þús. kr. tekjur, sem honum ber nú árlega um alllangt árabil, eða að því er ætla má í 8 til 10 ár.

Ég hefði talið á allan hátt eðlilegra og fara betur á því, að þetta frv. yrði ekki knúið í gegn nú og að þetta mál í heild yrði athugað nokkru gerr en tími vinnst til á þessum síðustu klukkutímum, sem þing situr, og leitazt verði eftir, þegar þing kemur saman í október í haust, að gera þá nýjar till. í málinu og byggja þær þannig upp, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, gætu sem bezt við unað. En ég er þess fullviss, ef málið verður afgr. eins og það liggur fyrir nú, að þá verður ekki ánægja með þá afgreiðslu, og það er mjög vafasamt, að þetta verði þá lokaorðið í málinu. Á það vil ég enn fremur benda, sem ég reyndar tók fram við 1. umr. málsins, að ákvæðin um skemmtanaskatt eru nokkuð á við og dreif, eins og þeim er nú fyrir komið, og m.a. af þeim ástæðum er tímabært að fella þau saman í eina heild, flokka skemmtanaskattinn jafnvel öllu meir heldur en gert er enn í gildandi lagaákvæðum. Og vildi ég þá vekja athygli á því í sambandi við slíka endurskoðun, að reynt væri að miðla málum á þann hátt, að hægt væri með sómasamlegu móti að taka tillit til þeirrar skuldar, sem nú hvílir á þjóðleikhúsinu.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú dregið fram hér, í fyrsta lagi vegna þess, að mál þetta er alls ekki vel upplýst og engin skilríki liggja fyrir um það, sem bak við þetta mál liggur, og í öðru lagi vegna þess, að hér er einhliða stefnt að því að færa tekjur frá félagsheimilasjóði til þjóðleikhússins, án þess að nokkrar aðrar leiðir séu athugaðar, og í þriðja lagi vegna þess, að það er fullkomlega tímabært að fella saman í eina heild gildandi ákvæði um skemmtanaskatt og endurskoða málið allt í sambandi við það, þá legg ég til, að frv. þetta verði að þessu sinni afgr. með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þskj. 766.