16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og er stjfrv., er um það að breyta þeim l., sem nú eru í gildi um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Upphaflega, þegar frv. var flutt hér í þessari hv. deild um samkomuhúsasjóð, ætluðust flm. til þess, að 3/4 af tekjum þess sjóðs gengju til samkomuhúsabygginga í sveitum landsins. Frv. var ekki samþ. þannig, heldur skyldi 50% ganga til sveitanna, 10% til kvikmynda og 40% til l. breytt aftur, og þá var sjóðurinn skertur til félagsheimila í sveitum, þannig að framlagið var fært úr 50% niður í 40%, og hefur verið svo síðan, þangað til nú, að ætlað er að breyta því þannig, að það verði ekki nema 20%, sem fer til félagsheimila í sveitum, en 70% til þjóðleikhússins, 25% í rekstrarsjóð og 45% í byggingarsjóð. Það er rétt, sem hæstv. menntmrh. segir, að þjóðleikhúsið á að vera fyrir landið allt, þó að það standi í Reykjavík, og ég býst við því, að öll þjóðin fagni því, að þjóðleikhúsíð er komið, og það er ekki það, sem hér er verið að deila um, hvort þjóðleikhúsið á að vera eign þjóðarinnar eða eign Reykjavíkur einnar, heldur er það það, hvort réttlátt sé að taka meginhlutann af skemmtanaskattinum til þess að standa undir byggingu þjóðleikhússins og láta allt að helming þjóðarinnar, sem á erfitt með að njóta áhrifa þjóðleikhússins, aðeins fá 20% af skemmtanaskattinum.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að 90% skemmtanaskattsins kæmi frá Reykjavík, en 10% annars staðar að; skemmtanaskatturinn væri þess vegna Lagður á Reykjavík fyrst og fremst, og þess vegna væri réttlátt, að Reykjavík eða þjóðleikhúsið fengi bróðurpartinn af þessum tekjum. Það mun rétt vera, að meginhlutinn af skemmtanaskattinum er innheimtur hér í Reykjavík, — en hvers vegna? Vegna þess, að fólkið hefur aðstöðu til að skemmta sér í Reykjavík, en víða annars staðar á landinu enga aðstöðu til þess, og það er vegna þessarar aðstöðu í Reykjavík, sem fólkið vill helzt vera þar og flýr úr sveitinni, vegna þess að það hefur ekki þar neitt svipaða aðstöðu til skemmtana og samkomuhalds eins og hér í Reykjavík. Það er þess vegna, sem meira en 1/3 þjóðarinnar býr nú í Reykjavík, það er þess vegna, sem við eigum nú stærstu höfuðborg í heimi miðað við fólksfjölda í landinu. Það er ekki vegna þess, að ég unni ekki Reykjavík alls góðs og vilji ekki hennar hag og sóma sem mestan, en ég verð þó að segja, að Reykjavík er orðin of stór miðað við okkar litla og fámenna þjóðfélag, og það er tími til þess kominn að spyrna við fótum og gera ráðstafanir til þess, að fólksstraumurinn utan af landsbyggðinni stöðvist og fólkið vilji vera einhvers staðar annars staðar á landinu, en aðeins í Reykjavík, og það er þröngsýni þeirra manna, sem í Reykjavík búa, að viðurkenna ekki þetta þjóðlega sjónarmið, að það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga, ef þeir vilja búa sem sjálfstæð menningarþjóð í þessu landi, að gera vistlegt og verandi annars staðar, en á þessum eina stað. Það munu margir segja, að það hafi verið gerðar ýmsar tilraunir í þessa átt undanfarin ár, að skapa sæmileg lífsskilyrði annars staðar í landinu, það hafi verið varið miklu fé til samgangna, til vega, til brúargerða, til símalagninga o.s.frv. En við verðum að viðurkenna, ef við skoðum þetta allt í réttu ljósi, að það hefur ekki verið nóg að því gert og að húsakostur í sveitum er tilfinnanlegur bæði hvað snertir samkomuhús og íbúðarhús, ef við miðum við þau þægindi, sem íbúðir hér í Reykjavík hafa að bjóða saman borið við það, sem fjöldinn allur verður að sætta sig við, sem ekki býr hér á þessum stað.

Ástæðan til þess, að upphaflega var flutt hér frv. um samkomuhúsasjóð, var sú augljósa staðreynd, að fólkið í sveitunum hafði ekki möguleika á því að koma saman til skemmtanahalds samanborið við það, sem var í þéttbýlinu. Það hefur ekki lítið að segja fyrir fólk í strjálbýlinu að eiga þess kost að hafa sameiginlegan samkomustað, vistlegan og góðan, til þess að geta haldið þar sína fundi og til þess að geta þar séð leikþætti, kvikmyndir o.s.frv. og fylgjast þannig með menningunni og þeim áhrifum, sem fólkið á svo hægt með að njóta hér í þéttbýlinu. Staðreynd er, að eftir að þessi l. voru sett, hafa mörg félagsheimili verið byggð víðs vegar um landið, og eftirsókn eftir slíkum félagsheimilum er geysimikil. Ég get til upplýsingar gefið hv. dm. nokkurt yfirlit yfir það, hvað hefur verið gert undanfarin ár og hvað hefur verið sótt um að gera af þessu tagi næstu ár, hvað mikill kostnaður fylgir þessum framkvæmdum, og sést þá svart á hvítu, hvort ekki er þörf á því að halda þessari hlutfallstölu í skemmtanaskattinum til þessara bygginga. Það kemur í ljós af skýrslu, sem ég hef í höndum frá stjórn félagsheimilasjóðs, að styrkur til félagsheimila í sveitum, sem eru í smíðum eða þegar er lokið, er 419.000 kr. samtals, og ef lítið er á skrá yfir aðila, sem unnið hafa að byggingu félagsheimila á s.l. ári, og kostnaðaráætlun við framkvæmdir frá áramótum 1949–1950, þá er hér kostnaðaráætlun 18 félagsheimila 5.410.000 kr. og 40% af því er 2.160.000 kr. Þetta eru félagsheimili, sem væntanlega á að ljúka á árinu 1950 og fjárfestingarleyfi eru til fyrir.

Þá eru það félagsheimili, sem sótt hafa um fjárfestingarleyfi á árinu 1950. Það eru hvorki meira né minna, en 39 félagsheimili, sem kosta 1.4728.000 kr., og 40% af þeirri upphæð eru 5,9 millj. kr., og það er gert ráð fyrir að byggja þetta á árunum 1951–1952, ef fjárfestingarleyfi fást. En þó aðeins sé haft í huga það, sem er í smíðum, og það, sem fjárfestingarleyfi er til fyrir, þá er það samtals um 6 millj. kr., eða talsvert á þriðju milljón, sem 40% gerir af því, og á að fást til útborgunar á árunum 1950–51. Þeir, sem ráðizt hafa í byggingu þessara húsa, hafa gert það með þeirri vissu, að þeir fengju 40% af kostnaðinum greiddan. Það er þess vegna verið að koma aftan að þessu fólki, sem ráðizt hefur í þessar félagsheimilabyggingar, ef nú á að taka 20% af því, eftir að búið er að stofna til skulda og ráðast í þessar byggingar. Það er alls ekki sæmandi fyrir Alþ. að haga sér þannig við þessi fátæku félög, sem hafa ráðizt í þessar byggingar, og það er ekki hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að ganga fram hjá þessum staðreyndum. Ég ætla, eftir að ég hef lesið þetta yfirlit yfir hæstv. ríkisstj. og þm., að þeir geri sér glögga grein fyrir því, að það er ekki sæmandi fyrir Alþ. að fara þannig aftan að þessum félögum, sem byggt hafa þessar byggingar, og ræna 20% af byggingarkostnaðinum eftir á, þegar það gerist á sama tíma, að byggingarefni hefur hækkað um allt að 50% frá því að byrjað var á þessum framkvæmdum, þ.e. byggingarefni, sem notað verður hér eftir á þessu ári. Mun ekki verða nægilega erfitt að koma þessum húsum áfram, þó ekki sé skorið niður af þessum 40%, sem reiknað var með í upphafi? Ríkisstj. segir, að þjóðleikhúsið skuldi mikið fé og það verði ekki hjá því komizt að taka meiri hlutann af skemmtanaskattinum til þess að borga þessa skuld, — ríkisstj. hafi engin önnur ráð. Ég held ég verði að segja, að það er ekki góð yfirlýsing hjá hæstv. ríkisstjórn, að hún sé svo úrræðalaus, að hún sjái engin önnur ráð, en að ræna það fólk, sem þegar er byrjað á byggingu félagsheimila, þeim styrk, sem það hefur reiknað með samkvæmt lögum, sem gerð voru á Alþingi á s.l. ári. Ég verð að segja, að það er ekkert undarlegt, þó að fólk úti í sveitunum hafi reiknað með því, að a.m.k. stæðu þessi l., sem gerð voru í fyrra um 40% styrk til félagsheimila, lengur en eitt ár og það mætti hefja framkvæmdir með þeirri vissu, að staðið væri við þá skuldbindingu, sem í þessum l. felst. En það virðist svo, að hæstv. ríkisstj. hafi þrek til þess að bera fram till. um, í fyrsta lagi að skerða þessi 40% um helming, og í öðru lagi, eftir að hún hefur mætt mikilli mótspyrnu hér á Alþ., að lækka þessa skerðingu um helming, að í staðinn fyrir 20% fái félagsheimilasjóður að halda 30%, samkvæmt till. hæstv. menntmrh. Og með þessum 10% hyggst hæstv. ríkisstj. að bjarga fjárreiðum þjóðleikhússins. Ég verð að segja, að ef allt veltur á því, að hæstv. ríkisstj. fái þessi 10% til þess að borga skuldir þjóðleikhússins, þá er hæstv. ríkisstj. úrræðaminni, en ég hafði búizt við. Ég verð að segja, að enda þótt fjárhagur ríkisins sé slæmur eins og sakir standa, þá getur ekki allt oltið á því, að þjóðleikhúsið fái 10% af skemmtanaskattinum, vegna þess að þessi 10% er ekki svo ýkja stór upphæð. Ég var ekki hér á Alþ. á laugardaginn, þegar þetta frv. var til 1. umr., og heyrði ekki þá, hvað sagt var um þetta. Hins vegar hefur verið upplýst um það, hvað þessar lausaskuldir eru miklar, ég hef heyrt eitthvað um það, að þær væru talsvert á 4 millj. kr. 10% af skemmtanaskattinum verður lengi að borga þá upphæð, — og 10% af skemmtanaskattinum borgar aldrei þá upphæð. Hæstv. ríkisstj. verður þess vegna að finna önnur úrræði, og það er ekki sæmandi þeirri ríkisstj., sem nú situr, að bera svona lagað fram; hún ætti að taka þetta frv. til baka, yrði þá hennar vegur meiri.

Hv. þm. A-Sk. hefur borið fram rökstudda dagskrá, og ég er henni fylgjandi. Hann bendir á það í dagskránni, að ríkisstj. eða byggingarn. þjóðleikhússins hafi heimild til þess í l. að taka lán til að ljúka byggingu þjóðleikhússins, og það er vitanlega ekkert annað að gera en að taka lán og borga þessar lausaskuldir upp. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að finna úrræði og hafa möguleika til þess að gera þetta. Hún má ekki auglýsa svo vanmátt sinn og úrræðaleysi hér á Alþ., að hún sjái engin önnur úrræði en að taka 10% af fátækum félögum úti í sveitum, sem eru að basla við að koma upp rándýrum húsum. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að kvikmyndahúsin yrðu ef til vill að loka um skeið hér í Reykjavík vegna þess, að þau fengju ekki myndir til að sýna, og skemmtanaskatturinn mundi þá lækka. Það er auðvitað, að ef það kemur fyrir, að það þurfi að loka, þá lækkar skemmtanaskatturinn, þá minnka einnig þessi 10%, sem hér um ræðir, og munar enn þá minna um það en áður, og þá lækkar einnig styrkur félagsheimilasjóðs, þannig að það tekur lengri tíma að uppfylla þær skyldur, sem l. hafa um það að borga 40% til félagsheimila úti um land. En það eru engin rök fyrir málinu, að hæstv. ríkisstj. bendir á þessa staðreynd, nema síður sé, það eru rök fyrir því, að því síður sé ástæða til þess að vera, að seilast eftir þessum 10%. Það liggur fyrir, að skemmtanaskatturinn ef til vill minnkar vegna þess, að kvikmyndahúsin hafi ekki nýjar kvikmyndir til þess að sýna.

Ég held, að það sé ástæðulaust að fjölyrða meira um þetta að svo stöddu. Ég vænti þess, að hv. d. felli till. hæstv. ráðh. um þessi 10% af þeim ástæðum, sem ég hef bent á, og frv. síðan í heild sinni vegna hinnar augljósu staðreyndar, að félagsheimilin, sem þegar er verið að reisa úti um sveitir, treysta á að fá 40%a af byggingarkostnaði og geta ekki án þess verið, og samkvæmt þeirri skýrslu, sem ég las upp áðan, er það líka staðreynd, að á næstu árum, ef fjárfestingarleyfi fást, liggur fyrir að byggja nær 40 félagsheimili, sem þegar er búið að sækja um fjárfestingarleyfi fyrir, auk þeirra mörgu, sem enn hafa ekki gefið sig fram vegna ýmiss konar annarra ástæðna.