16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Rang. hafði þau orð hér áðan, að hann áliti ekki Alþ. sæm.andi að ræna. Ég er hissa á svona yfirlýsingu hv. þm. og frá þeim flokki, sem hann talar fyrir. Því að ég veit ekki betur, en þessi hv. þm. hafi, ásamt öðrum hv. þm. úr stjórnarliðinu, verið að taka þátt í því undanfarið á þinginu að ræna menn í stærri stíl, en nokkurn tíma hefur áður þekkzt á Íslandi, — hafi skipulagt ránsherferð á hendur alþýðumönnum, sparifjáreigendum og á hendur þeim, sem berjast fyrir lífinu til sveita og sjávar. Ég er hissa á því, að hv. 2. þm. Rang. ætlar að hneykslast á því, að það sé verið að ræna félagsheimilin. Ástandið er nú þannig, að það er búið að ræna af hálfu, þessa hv. þm. og hans stjórnmálaflokks og Framsfl. — með samtökum beggja þessara flokka — svo tugum millj. kr. skiptir af íslenzku þjóðinni. Og mér finnst það bera vott um nokkuð undarlega tilfinningu fyrir því, hvar rænt er, ef hv. þm. ætlar að hneykslast á því, að það skuli eiga að ræna 200 þús. eða 400 þús. kr. frá félagsheimilasjóði, eftir að önnur miklu stærri ránsherferð hefur verið farin á hendur þjóðinni. Ég held því, að þessi siðferðíslega vandlæting eigi alls ekki við, þegar rætt er um þetta mál. Það er búið að binda félagsheimilunum úti um landið miklu þyngri bagga með þeim ráðstöfunum, sem Alþ. hefur gert undanfarið með hækkun á verði byggingarefnis og annars slíks, heldur en með því, sem hér er verið að tala um.

Hins vegar er það auðséð í sambandi við þetta mál, sem fyrir liggur, að þegar hæstv. menntmrh. kemur fram með till. um hækkun tekna þjóðleikhússins af skemmtanaskattinum, þá rís upp það vald, sem einu sinni var kallað byggðavaldið á Íslandi, - það ris nú upp í stjórnarflokkunum, þegar kemur fram till. frá hæstv. menntmrh. um að bjarga þjóðleikhúsinu. Það ris upp gegn því, að tekið sé tillagið, sem rennur til félagsheimilasjóðs, þó að tekið hafi verið frá þjóðleikhúsinu sjálfu það áður, sem því var ætlað að fá af skemmtanaskattinum. En þegar hæstv. ráðh. lætur undan því valdi og kemur fram með till. um að hækka skemmtanaskattinn, hvað þýðir það? Hann er tilfinnanlega hár sem stendur, og það fer minnkandi, sem alþýða manna hefur af fé, til þess að veita sér fyrir þessar tiltölulega litlu skemmtanir, sem hún hefur efni á að sækja. Og ef á að hækka skemmtanaskattinn, þýðir það annað ránið í viðbót frá þessu þingi. Ég býst því við, að þeir menn, sem mótmæla því svo kröftuglega, þegar á að ræna félagsheimilin, sem þeir svo kalla, mótmæli því eins kröftuglega, þegar á að hækka skemmtanaskattinn, sem er skattur af þeim skemmtunum, sem alþýða manna getur veitt sér. 90% af skemmtanaskattinum kemur frá Reykvíkingum. Og það virðist vera svo, að þm. utan af landi, sem hafa mótmælt ráninu gagnvart félagsheimilunum, virðist ætla að sætta sig við, að alþýðan í Reykjavík sé rænd í þessu efni, í viðbót við aðra bagga, sem henni hafa verið lagðir á herðar. Félagsheimilin úti um landið þurfa vissulega á sínu fé að halda. En það er siðferðisraun á þá, sem telja sig fulltrúa dreifbýlisins, hvar þeir ætla að taka peninga, þegar þeir ætla að taka peninga, sem koma úr Reykjavík, til þess að dreifa út um land vegna félagsheimilanna. Það leggst litið fyrir þá kappana, ef þeir ætla að ráða þar á garðinn í þessum efnum, sem hann er lægstur, og í viðbót við það, sem lagt hefur verið yfirleitt á alþýðuna, ætla að vera með í að leggja hækkaðan skemmtanaskatt á Reykvíkinga. Ætli það væri ekki meiri karlmennska fyrir þá, sem telja sig fulltrúa dreifbýlisins, að taka álag til þess að bjarga félagsheimilunum af því auðmagni og þeim gróða, sem safnast saman hér í Reykjavík?

Hæstv. atvmrh. lýsti hér eftir till. áðan um það, hvar væri hægt að taka þessa peninga, sem þarf til þjóðleikhússins. Ég skal gefa honum ávísun á peninga til þess. Það er hér rétt hinum megin við okkur, sem hægt er að taka þá. Þar safnast fyrir tuga millj. kr. gróði í Reykjavík. Ég býst við, að það þýði ekkert að vísa hv. stjórnarflokkum á peninga í fjárhirzlum auðmannanna. En ég skal vísa þeim á að taka þann gróða, sem er hjá ríkinu. Það er vitanlegt, að það safnast fyrir hjá ríkisbönkunum um 30 millj. kr. gróði á ári. Ef t.d. tekin er seðlad. Landsbankans þar á ég ekki við sparisjóðsdeildina — þá hefur hún 7 til 9 millj. kr. í hreinan gróða árlega. Er ástæða til að láta svona gróða safnast fyrir hjá ríkisbanka, þegar drepþungir skattar eru lagðir á alþýðuna? Það er meira að segja svo, að ríkið er látið borga úr ríkissjóði stórfé í háum vöxtum til þessara stofnana. Þessir vextir eru svo píndir út úr almenningi. — Ef 10% skattur væri lagður á gróða seðlabankans á ári, þá er það vissulega meira en hálf millj. kr. og upp undir 750 þús. kr. Það er álitleg fúlga, bara þessi 10% ein, sem gæti fyllilega jafnazt á við það, sem lagt er hér til að taka af félagsheimilunum. Og ætli það væri ekki nær fyrir það byggðavald, sem hér þykist vera að rísa upp nú út af félagsheimilunum — þó að það sýni sig ekki, þegar meira liggur við fyrir sveitirnar — að þora að koma fram og taka þessa hálfu millj. sína með eins konar skemmtanaskatti á seðlabanka Landsbankans? Það væri alveg óhætt að taka það fé, án þess að nokkur þyrfti að kvarta undan því. Ég veit, að þeim mönnum, sem tala hér nú skarpast um að vernda félagsheimilin, þeim mun fatast, ef farið er að minnast á það auðmagn, sem safnast saman hér í Reykjavík, eins og þá sé verið að tala um eitthvað, sem ekki megi snerta við. Það má sífellt snerta við því að skerða kjör almennings. Þau mega versna, svo að skapist ódýrt vinnuafl í sveit hv. 2. þm. Rang. Það má sjálfsagt fyrir honum reka fólkið, sem húsvillt er, þegar búið er að afnema húsaleigulögin, upp í sveit, eins og því var vísað á atvinnuleysisárunum fyrir stríð, það gæti ekki fengið að reisa hús nú, af því að ekki væru peningar til þess, heldur fengi það að hírast sem ódýrt vinnufólk á sveitaheimilum. — Ég held, að þeir þingfulltrúar, sem sérstaklega þykjast vera á þingi fyrir bændur, ættu að þora að berjast á móti því auðvaldi, sem þeir hafa verið undirlægjur fyrir og þeir hafa þjónað hér á þingi. Og það virðist ekki útheimta ákaflega mikla hugdirfsku að taka af þeirri stofnun, sem ríkið á sjálft og safnar saman mestum auði hér í Reykjavík. Ég álít það, sem kemur fram hjá þeim hv. þm., sem telja sig fulltrúa sveitanna, þegar þeir taka vel og skörulega til máls fyrir félagsheimilin, en þora ekki að taka peningana handa þeim þar, sem þeir liggja fyrir, — ég tel það þröngsýni, sem sé alveg óþolandi. Það er ekki hægt endalaust að níðast á alþýðu manna í Reykjavík. Það er búið að höggva nokkuð oft í þann knérunn á þessu þingi. Og það má sannarlega fara að gera þær kröfur til þeirra, sem telja sig fulltrúa sveitanna sérstaklega, að þeir fari að skilja það út frá hagsmunasjónarmiðum bændanna sjálfra, að það verður ekki endalaust hægt að borga bændum með því móti að ganga gífurlega á hluta alþýðunnar í bæjunum. Bændur í sveitum og alþýðan í kaupstöðunum eiga að standa saman í sinni baráttu. Og þá er illa farið, ef bændastéttin lætur nota atkvæðamagn sitt hér á Alþ. til þess að beita því á móti alþýðunni í bæjunum. Þessar stéttir eiga að snúa saman bökum til þess að berjast, en ekki láta auðmenn og aðra nota sig til að berjast hvora gegn annarri.

Það var gerð tilraun til þess að vita, hvort fylgi fengist hjá hv. þm. til að spara með því að skera ofurlítið niður skriffinnskukerfið hér í Reykjavík, sem mætti skera niður. Það voru till., sem námu um hálfri millj. kr. Ég veit ekki til, að neinn úr stjórnarflokkunum hafi greitt atkv. með þeim till. að skera niður skriffinnskukerfið hér í Reykjavík. Það hefði mátt taka þar fé til þess að bjarga félagsheimilunum, sem hv. þm. stjórnarfl. nú bera fyrir brjósti, og það svo, að þeir hafa nú þorað í fyrsta skipti á þessu þingi að risa upp á móti sinni eigin stjórn — þó að þeir hafi beygt sig annars fyrir henni, hvað harðvítug sem hún hefur verið gagnvart hagsmunum alþýðunnar. Þegar við lögðum til að spara eitthvað á útgjaldaliðum ríkisins, þá var hver einasta hönd hjá stjórnarliðinu uppi á móti því til að fella það. Nú þykir þessum sömu fulltrúum rétt að slá undan í þessu, með því að hækka skemmtanaskattinn í Reykjavík.

Hv. 2. þm. Rang. talaði um, að þetta væri prinsipmál, eitt af þeim málum, sem sýndu, hvort menn vildu, að fjármagnið streymdi úa í dreifbýlið. Ef honum og öðrum hv. þm. úr stjórnarflokkunum hefði verið alvara með að láta fjármagnið fara til dreifbýlisins, meira en nú er, þá hefðu þeir átt að athuga það fyrr á þessu þingi. Það hefur ekki staðið á okkur sósíalistum með að reyna að koma því fram, að fjármagninu yrði beint til atvinnutækja úti um landið. En það hefur oft verið sýnt fram á það, hversu það hefur strandað á stjórnarflokkunum. Til þess að beina fjármagninu út um sveitirnar og landsbyggðina, þá þarf að breyta sjálfri fjármálapólitík landsins. Það þarf að reka bankana — og fyrst og fremst seðlabankann — út frá því sjónarmiði að setja fjármagnið þar, sem þjóðin sem heild þarfnast þess, með tilliti til þess, hvað verður að álíta heppilegast vegna þarfar þjóðarinnar fyrir það, — en ekki eftir því, hvar það gefur mestan gróða fyrir lánsstofnunina í hvert skipti. Það eru þessi gróðasjónarmið, þessi reikningslegu sjónarmið, sem hafa ráðið fjármálapólitíkinni fram að þessu. Það eru þessi gróðasjónarmið, sem við sósíalistar höfum barizt á móti. Stundum hefur okkur tekizt að knýja það fram, að tillit hefur verið tekið til þarfa byggðanna úti um landið, en ekki bara gróðasjónarmiða lánsstofnananna. Í samb. við nýsköpunartogarana, er þeir voru staðsettir úti um landið og þegar knúð voru fram l. á Alþ., þar sem gert var mögulegt, að bæir úti um landið, sem sjálfir áttu ekki neitt, gætu tekið togara til kaups, þá kostaði það harðvítuga baráttu við Landsbankavaldið að knýja slíkt fram. En síðan hefur alltaf verið látið undan því valdi á hverju einasta sviði. Þær ríkisstjórnir, sem hafa verið á undanförnum árum, hafa, í mótsetningu við það, sem gert var viðkomandi nýsköpunartogurunum, sem fóru út á land, alltaf látið undan síga fyrir þessu valdi. Og það er af því, að það gróðasjónarmið, sem ræður, þegar fjármagnið er sett þar sem gróðavænlegast er að setja það, það er það sjónarmið, sem er eðlilegast sjónarmið fyrir auðvaldsskipulag. Ef hins vegar það sjónarmið er ríkjandi að beina fjármagninu þangað, sem mest er þörfin fyrir það, þá er það sjónarmið, sem er andstætt við þann hugsunarhátt, sem venjulega ríkir í auðvaldsskipulagi, það sjónarmið miðast við þjóðarvilja og þjóðarþarfir, en ekki við gróða eingöngu, af lánsfénu. En af því að miðað hefur verið við gróðann af lánsfénu og lánað hefur verið fyrst og fremst með tilliti til þess, hefur gengið svo erfiðlega að fá fjármagninu veitt til þess úti um landið, sem þjóðin þarfnast, og þá sérstaklega í þarfir útflutningsframleiðslunnar. Það er vitanlegt, að hefðu þær till., sem við höfum borið fram um þetta, verið samþ., þá hefði það þýtt meiri útflutningsframleiðslu úti um landið, og þá hefði framleiðslan úti um landið fengið meiri gróða yfir að ráða. Og einmitt byggðirnar úti um landið hefðu þá fengið betri aðstöðu til þess að ná í fjármagn. Það hefði aftur ýtt undir atvinnuvegina úti um landið. En í hvert skipti, sem við höfum komið fram með slíkar till., hefur hv. 2. þm. Rang. og meginið af stjórnarflokkunum staðið á móti þeim. Í hvert skipti, sem reynt hefur á um það, hvort dreifbýlið ætti að fá samþ. slíkar réttarbætur á Alþ., hafa þeir, sem telja sig fulltrúa dreifbýlisins, verið andstæðir slíkum ráðstöfunum, þegar lagt hefur verið til, að fjármagninu yrði beint til dreifbýlisins, vegna þess að þeir hafa beinlínis gengið í þjónustu þeirra sjónarmiða, sem undanfarið hafa ráðið, bæði hjá landsbankastjórninni og þeim ríkisstjórnum, sem undanfarið hafa setið. — Eigi þess vegna að blanda inn í umr. um mál það, er fyrir liggur, spursmálinu um það, hvert skuli beina fjármagninu og hvort því skuli beina til dreifbýlisins meir, en gert hefur verið á undantörnum árum, þá held ég, að sá áhugi, sem hv. 2. þm. Rang. virðist telja sig hafa í þeim efnum, mætti koma hjá honum og hans flokki meir fram í því, sem meira er virði í þessum efnum en það, er snertir þetta mál, sem fyrir liggur.

Það er og hægur vandi að tryggja hvort sem væri þjóðleikhúsinu eða félagsheimilum úti um sveitir landsins það, sem samsvarar rúmlega hálfri milljón kr. á ári, með því að leggja 10%a skatt á hreinan gróða seðlabanka Landsbankans. — Hitt vil ég svo minna á, að Alþ. hefur skyldum að gegna við Reykjavík og þær menningarstofnanir, sem þar eru settar á fót, vegna þess að Reykjavík er höfuðborg. Og ég vil sérstaklega minna fulltrúa sveitanna — sem telja sig vera — á það — og ekki sízt framsóknarmenn — að upphaflega eru lög um skemmtanaskatt og þjóðleikhús reyndar sett — ef ég man rétt 1927 — á eingöngu til þess að koma þjóðleikhúsinu upp. Skemmtanask. var lagður á í upphafi vegna þjóðleikhússins, og hann hefur fyrst og fremst verið tekinn af Reykvíkingum, eða um 90%. Ég held því, að þeir, sem nú í nafni sveitanna mótmæla harðast þessu frv., mættu minnast þess, að það hefur ekki verið sveitunum dýrt að koma upp þjóðleikhúsinu. En þó að það sé að sjálfsögðu staðsett í höfuðborginni, þá er það menningarmiðstöð fyrir allt landið, og þess vegna málefni allra landsmanna, að vandamál þess verði leyst. Ég held, að við ættum að reyna að leysa þetta vandamál á þeim grundvelli, sem ég hef bent á, og tryggja með með því tvennt í einu, að félagsheimilasjóður haldi sínum hluta og vel það og vandamál þjóðleikhússins leysist líka, enda verði þetta gert á kostnað þeirra aðila, sem græða, þegar aðrir tapa. Ég er alveg á móti þeirri leið að hækka skemmtanaskattinn, enda óþarft, ef fylgt er þeirri leið, sem auglýst var eftir af hæstv. ráðh. og ég hef nú bent á.