16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 2. og 6. þm. Reykv. hafa verið að tala hér um menningargildi þjóðleikhússins, eins og það væri aðalágreiningsefnið í þessum umr. Þetta er bara alls ekki það, sem um er deilt. Við erum allir sammála um, að þjóðleikhúsið sé þörf og merk menningarstofnun, og við erum líka allir sammála um, að leysa beri úr þeim vanda, sem þessi stofnun er í vegna skulda, sem á henni hvíla. Hins vegar stendur deilan um það, hvernig eigi að leysa úr þessum vanda, og það eru fleiri en við, sem andmælum þessu frv. hér á Alþingi, sem andvígir erum þeirri leið að taka það framlag, sem félagsheimilunum nú er ætlað með lögum, til að greiða skuldir þjóðleikhússins, þó að hv. 2. þm. Reykv. vildi gera lítið úr þeirri andstöðu. Ég vil benda á nokkra aðila, sem þegar ha£a sent mótmæli við þessu frv., og jafnframt geta þess, að þeir aðilar eru ekki síður hér í Reykjavík en úti á landi. Fyrst má nefna U.M.F.Í, þá stórstúkuna, bandalag skáta, íþróttabandalag Reykjavíkur, einnig íþróttafélögin og sundfélögin. Mörg fleiri félög mætti nefna, en þess gerist ekki þörf, því að af þessu má sjá, að það er um að ræða óstaðbundna andstöðu við þetta frv. eins og það liggur fyrir og það af hálfu gagnmerkra samtaka, sem hafa meira víðsýni en 2. þm. Reykv. Hv. 2. þm. Reykv. hefur viljað láta í það skína, að við, senn andvígir erum frv., værum að mæla gegn þjóðleikhúsinu. Þetta eru alger öfugmæli hjá hv. 2. þm. Reykv., sem ekki hafa við nokkur rök að styðjast. Við viljum þjóðleikhúsinu allt það bezta og teljum jafnsjálfsagt og hann, að leyst verði úr vandræðum þess, þó að við getum ekki fallizt á þessa leið. Annars er það nú ekki neitt nýtt, þó að þessi þm. fari með rakalausar staðhæfingar, sem ekki hafa við neitt að styðjast. Hann hefur t.d. í allan vetur hrópað alla sína andstæðinga út sem auðvaldsþjóna og arðræningja, sem ekkert hugsuðu um annað, en hvernig þeir ættu að ræna alþýðuna. Hann hefur lýst öllum aðgerðum Alþingis til að ráða fram úr vandræðum atvinnuveganna sem ósvífnum árásum á lífskjör almennings í landinu, enda þótt verið væri að forða algerri stöðvun atvinnulífsins og þar með atvinnuleysi og eymd hjá öllum almenningi. Hv. þm. bregður því ekki, þó að þessi þm. fari með öfugmæli og blekkingar í sambandi við þetta mál. Allur málflutningur þessa þm. hefur miðað að því að gera erfiðara fyrir í því björgunarstarfi, sem Alþingi hefur verið að berjast við til þess að forða hruni, og hann hefur snúizt gegn öllum þeim leiðum, sem bent hefur verið á, án þess þó að benda sjálfur á nokkur úrræði, sem til bjargar mættu verða. Svo er þessi maður að tala um þjónkun. Hann þjónar ekki íslenzkum hagsmunum, en þó sýnir hann sennilega meiri þjónkun og hans flokkur, en nokkur annar, því að hann þjónar erlendum hagsmunum og kýs þá þjónustu, heldur en að veita lið til þess að ráða fram úr þeim örðugleikum, sem íslenzkt atvinnulíf nú á við að stríða. Hv. þm. eru farnir að sjá í gegnum þann blekkingavef, sem 2. þm. Reykv. er að þyrla upp hér á Alþingi ásamt flokksbræðrum sínum, og þess vegna eru þeir hættir að taka mark á stóryrðunum um landráð, þjónkun og arðrán, þau eru alveg hætt að hitta nokkurt mark. Þessir flokksbræður kæra sig ekkert um, að ráðið verði fram úr þeim örðugleikum, sem íslenzkt atvinnulíf á nú við að stríða, því að öngþveitið í atvinnulífinu og atvinnuleysi ásamt þeirri örbirgð, sem af því leiðir, er einmitt jarðvegurinn fyrir þá stefnu, sem þeir berjast fyrir. Og þess vegna er hrópað um landráð og arðrán, þegar fram koma till. til að leysa úr vandræðum atvinnulífsins. Þetta er kjarni málsins, og þess vegna bregður þm. ekki við stóryrði hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræðra hans. Hv. 6. þm. Reykv. var að tala um, að skemmtanaskatturinn væri allur innheimtur hér í Reykjavík og þess vegna ætti hann ekki að renna í félagsheimilasjóð, heldur til leikhússins. Hv. 6. þm. Reykv. er ekki einn um þessa skoðun. Hann er þar á sömu línu og flokksbróðir hans 2. þm. Reykv. Það er annars einkennilegt, hvað þessir menn geta verið þröngsýnir gagnvart hinum dreifðu byggðum, og það er eins og þeir geti alls ekki skilið, að vandamál dreifbýlisins eru vandamál allrar þjóðarinnar, enda þótt það sé alltaf að koma betur og betur í ljós. Ég get líka bent þessum hv. þm. á, að það á líka að reisa félagsheimili í kaupstöðunum, og ég veit um mörg félög hér, sem bíða þess með mikilli eftirvæntingu að fá aðstoð úr félagsheimilasjóði til að reisa félagsheimili, þó að þeir staðir, sem mesta hafa þörfina, verði auðvitað látnir sitja fyrir. Ég vil að lokum láta það koma skýrt fram, að ég vantreysti ekki svo hv. ríkisstjórn, að ég telji hana ekki hafa nægileg úrræði til að afla þessara 250 þús. kr., sem hér er um að ræða, á annan hátt en þann að taka þær frá félagsheimilunum. Það á ekki að velta á því, hvort þjóðleikhúsið verður rekið áfram eða fær þessar 250 þús. kr. Ég mótmæli þeirri skoðun, og ég verð að segja, að mér finnst sú afstaða hæstv. ríkisstj. mjög lítilmótleg, og hún getur raunar varla risið undir slíku; hún ætti að taka þessa till. sína aftur. Það er áreiðanlegt, að þjóðleikhúsið heldur áfram að starfa, þó þessi litla upphæð sé ekki tekin af félagsheimilunum. Og ég vil leyfa mér að upplýsa hæstv. menntmrh. um það, að þessi upphæð nemur ekki meiru en 250 þús. kr. En það tekst ekki að sannfæra nokkurn mann um það, að framtíð þjóðleikhússins sé undir því komin, að þessi upphæð sé tekin úr félagsheimilasjóði. Og við eigum líka ríkisstjórn, sem stendur hvorki né fellur með 250 þús. kr. Hins vegar kann að vera eðlilegt, að ríkisstjórnin spyrji, hvaðan eigi að taka það fé, sem hér um ræðir. En enda þótt hún tæki nú þessi 10% af skemmtanaskattinum, verður hún eftir sem áður að afla sér lánsfjár til að standa skil á greiðslum þjóðleikhússins. Og geti hún aflað sér þess fjár, sem hún þarf á að halda umfram þessi 250 þúsund, þá getur hún eins aflað þeirra um leið. Hæstv. ríkisstjórn nýtur það mikils trausts bæði hjá Landsbankanum og fleiri stofnunum, að hún getur bjargað þessu máli öðruvísi, en að taka féð af fátækum félögum, sem ekki mega við þessari skerðingu á framlögum, þótt lítil séu. Og 250 þús. kr. eru svo lítill partur af þeim milljónum, sem hér er um að ræða, að það er ekki sæmandi fyrir hæstv. ríkisstjórn að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, til að afla þeirrar fjárupphæðar; enda getur hún aflað hennar með mörgu móti öðru.

Ég tel, að ekki sé ástæða til að fjölyrða frekar um þetta. Er hv. þm. hafa athugað málið og gert sér þess grein, að hér er aðeins um það að ræða, hvort taka á 250 þús. kr. af fátækum félögum víðs vegar um land eða ekki, þá munu þeir sjá, að þessi till. hæstv. ríkisstj. hlýtur að snúast upp í hreint grín, ef gera á þetta að kappsmáli. Og ég er það mikill stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., að ég kæri mig ekki um að stuðla að því, og vil leyfa mér að benda henni á, að bezt muni vera að láta þessa till. ekki koma undir atkvæði.