16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það hafa verið haldnar nokkrar ræður um þetta mál síðan ég gerði grein fyrir tillögunni um rökstudda dagskrá. Finnst mér, að margt af því, sem fram hefur komið í ræðum sumra hv. þm., t.d. hv. 2. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv., liggi fyrir utan kjarna málsins, sem hér er til umræðu. Ég mun því ekki hirða um að taka þær til athugunar nú, a.m.k. ekki í bili, en hins vegar get ég ekki látið vera að svara nokkuð athugasemdum hæstv. menntmrh.

Hæstv. menntmrh. viðurkenndi það, sem ég hafði bent á, að málinu, sem flutt er til þess að sjá farborða lausaskuldum þjóðleikhússins, verður ekki borgið, nema lán verði tekið til þess, og það verður gert, hvort heldur sem þetta frv. verður samþ. eða ekki. Það er staðreynd.

Það er líka staðreynd, að á árunum 1946 og 1947 lágu fyrir um það áætlanir, að þjóðleikhúsinu yrði að fullu borgið, ef það fengi skemmtanaskattinn að fullu til ársloka 1947.

Það er enn fremur staðreynd, að á öndverðu ári 1949 kom það í ljós, að þjóðleikhúsið vantaði verulega fjárhæð til þess að greiða stofnkostnaðinn, og var þá búizt við því, að það þyrfti rúmlega 4 milljónir króna til viðbótar. Þá er það einnig staðreynd, að núna í maí 1950 koma enn nýjar kröfur, þannig að í viðbót við það, sem veitt var í fyrra, vantar nú 4–5 millj. króna.

Ég verð að segja það, að það er fátítt, að einu fyrirtæki skeiki svona mikið í áætlunum sínum, a.m.k. á svona skömmum tíma eins og hér er um að ræða. Það hefur ekki verið upplýst í hv. menntmn., hvort hér er um endanlegt uppger að ræða, og hvort stofnkostnaðurinn sé allur bundinn í þessum skuldum, 10 millj. króna. Hæstv. menntmrh. segir, að byggingunni sé ekki alveg lokið og að byggingarnefnd þjóðleikhússins eigi að vera virk áfram. En væri þá ekki ástæða til þess fyrir Alþingi að fá upplýsingar um það, hvaða verk þar eru ógerð, og hvað það er, sem vinna þarf, áður en gengið er frá málinu endanlega?

Hæstv. menntmrh. drap á það í ræðu sinni, sem reyndar hefur einnig komið fram hjá ýmsum öðrum, að skemmtanaskatturinn hafi í öndverðu verið settur á vegna þjóðleikhússins og það ætti því forgangsrétt á honum. Við skulum nú athuga þetta nánar. Skemmtanaskatturinn er nú fyrst og fremst settur á sem tekjustofn fyrir ríkið, sem það getur notað og hefði notað á einhvern annan hátt, þó að ekkert þjóðleikhús hefði verið í smíðum. Þetta kom fyrst fram í heimildarlögum um skemmtanaskatt 1918, sem þá var á lagður til þarfa ríkissjóðs. Í öðru lagi er það, að á árunum 1930–1940 runnu tekjurnar af skemmtanaskattinum til ríkissjóðs, en ekki til þjóðleikhússins. Auðvitað var þetta gert af brýnni nauðsyn, en ef kenningin, sem menntmrh. kom fram með, er rétt, að þjóðleikhúsið eigi forgangsrétt á þessum skatti, þá átti það einnig forgangsrétt á honum milli 1930 og 1940, og ber þá ríkissjóði að endurgreiða þennan skatt, sem þá rann í ríkissjóð. Hefur hæstv. ráðherra ekki athugað það? Í þriðja lagi vil ég benda á það, að á síðari árum hafa verið uppi um það tillögur að hækka skemmtanaskattinn, og þá hefur verið litið svo á í því sambandi, að þetta væri tekjustofn, sem ráðstafa mætti án tillits til þjóðleikhússins. Í því sambandi vil ég benda á það, að 1946 var starfandi nefnd hagfræðinga og gerði meðal annars áætlun um þjóðartekjur. Í áliti þeirra segir á bls. 75–76, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin vill enn fremur vekja athygli á því, að hækka mætti til mikilla muna skemmtanaskatt á kvikmyndasýningum og dansskemmtunum. Tekjur af þessum skatti eru nú um 2 millj. króna á ári, og munu nú 3/4 af upphæðinni vera vegna kvikmyndasýninga. Aðgangur að kvikmyndasýningum kostar óeðlilega lítið samanborið við flest annað, og mætti því að skaðlausu jafnvel þrefalda skattinn á þeim.“

Þarna er ekki litið á skemmtanaskattinn sem tekjustofn í beinum tengslum við þjóðleikhúsið, heldur sem tekjustofn, sem ríkið gæti og vert væri að það notaði sér.

Þá kom það fram hjá hæstv. ráðh., að um það bil 90% af öllum skemmtanaskattinum væru innheimt í Reykjavík. Ég tel það alveg víst, að hæstv. ráðh. hafi undir höndum gögn, sem sýni þetta, og vil ég ekki bera neinar brigður á það, en hins vegar vil ég benda á það, að fjöldi fólks utan af landi er beinlínis þvingað til þess að dvelja í Reykjavík langdvölum. Það er fólk, sem vill afla sér einhverrar menntunar, það verður allt að koma hingað, vegna þess að menntastofnanir í sérgreinum eru allar saman komnar hér í Reykjavík. Í annan stað er fjöldi Reykvíkinga þjónustumenn ríkisins, sem af þjóðfélagslegum ástæðum geta ekki verið búsettir annars staðar en hér, og vegna þess þjóðfélagslega fyrirkomulags greiða þeir auðvitað skemmtanaskattinn hér. En þegar litið er á málefni Reykjavíkur í sambandi við þetta mál, gætir töluverðs misskilnings hjá hv. ræðumönnum, þegar þeir álíta, að félagsheimilin séu aðeins vegna sveitanna og félagsheimilasjóður sé eingöngu til styrktar sveitunum. En þetta er hreinn misskilningur, því að lögin um félagsheimilasjóð ná alveg jafnt til kaupstaða og sveita. Það virðist vera full ástæða til þess að taka þetta fram. Félagsheimilasjóður tekur því einnig til félagsheimila í Reykjavík. Öll ópólitísk félög, svo sem ungmennafélög, búnaðarfélög, íþróttafélög o.fl., hafa jafnan rétt til þess að fá hluta af byggingarkostnaði félagsheimila sinna greiddan úr félagsheimilasjóði, án tillits til þess, hvort þau eru reist í Reykjavík eða öðrum kaupstöðum eða sveitum. Og ég held, að svo mikil þörf sem er á félagsheimilum í sveitum, þá sé hún hreint ekki minni í kaupstöðum. Margir Reykvíkingar þurfa að eiga fleiri heimili en eitt, sumir þeirra eiga sumarbústaði úti um sveitir, en sveitamenn eiga þess ekki kost. Það er eins með unglingana og þessa menn, æskan þarf að efla þrótt sinn og efla félagslíf, bæði utan Reykjavíkur og í Reykjavík, og til þess þarf að skapa henni skilyrði. Þau erindi, sem liggja fyrir Alþingi frá ýmsum félagasamtökum í Reykjavík, sýna það glögglega, að unga fólkið í Reykjavík lítur á þetta öðrum augum en hv. þm. Reykv. virðast gera. Hér liggja fyrir mótmæli gegn þessu frv. frá Ungmennafélagi Íslands, undirritað af stjórn þess. Hér liggja enn fremur mótmæli frá stórstúku Íslands. Hér liggja fyrir mótmæli frá Bandalagi íslenzkra skáta. Hér liggja fyrir mótmæli frá stjórn félagsheimilasjóðs, sem mikil kynni hefur af framkvæmdum þeirra mála, sem sjóðurinn styður. Það liggja fyrir mótmæli frá bandalagi æskulýðsfélaga Reykjavíkur. Það liggja fyrir mótmæli frá íþróttafélögunum í Reykjavík. Það liggja fyrir mótmæli frá íþróttabandalagi Reykjavíkur. Það liggja fyrir mótmæli frá stjórn kvenfélagasambands Íslands o.fl.

Þá hef ég og í höndum lista yfir þau félagsheimili, sem í smíðum eru eða undirbúningi. Þeim er skipt í þrjá flokka. Í fyrsta flokki eru félagsheimili, sem langt eru komin, en eiga vangoldinn styrk, sem búið er að lofa þeim. Í þessum flokki eru félagsheimili í Reykjavík og Gullbringu- og Kjósarsýslu, svo að af því geta menn séð, að það eru ekki bara útkjálkarnir, heldur einnig höfuðborgin og næsta nágrenni hennar, sem hér eiga hlut að máli. Í öðrum flokki eru félagsheimili, sem gerð hefur verið fullkomin áætlun um byggingu þeirra og áætlun um kostnað við bygginguna. Þar af eru tvö heimili í Reykjavík og auk þess nokkur í nágrenni bæjarins. — Í þriðja flokki eru svo heimili, þar sem hafinn er undirbúningur að félagsheimilum, án þess að fyrir liggi fullkomin áætlun um framkvæmdir eða kostnað.

Ég hygg, að þessi dæmi, sem ég hef nú sýnt, séu fullkomlega skýr til þess að sýna, hve mikill misskilningur það er að líta á þetta mál sem baráttumál sveitanna gegn Reykjavík.

Þá er að athuga það, sem hæstv. menntmrh. sagði um, að 90% af skattinum sé innheimt í Reykjavík. En við skulum þá líka athuga það ofurlítið, hvernig skattinum er svo skipt niður aftur. 50% af honum rennur til þjóðleikhússins, 25% í byggingarsjóð og 25% í rekstrarsjóð. Þá renna 10% til lestrarfélaga og kennslukvikmynda, þar af 2/3 til kennslukvikmyndanna, og ég fullyrði það, að Reykjavíkurskólarnir hafi mest not þeirra, vegna aðstöðu sinnar til þess að sýna þær. Ég held, að það megi fullyrða, að stærsti hlutinn af þessu renni til menningarauka og hagsbóta fyrir Reykjavík. Þá eru komin 56,7%. Þá á Reykjavík jafnan rétt til félagsheimilanna og framlaga til þeirra eins og félög í sveitum úti, og enn fremur er það upplýst, að byggingarkostnaður slíkra húsa hér á Reykjavík er hreint ekki minni, en úti á landi, og það er upplýst í þessu sambandi, að tvö af þeim húsum, sem þannig á að byggja í Reykjavík, eigi að kosta miklu meira en nokkurt hús úti á landi. Þegar allt þetta er dregið saman, þá held ég, að Reykjavík fari hreint ekki varhluta af þessu, og þegar þess er enn fremur gætt, að fjöldi fólks utan af landi hlýtur að greiða skattinn hér vegna þjóðfélagslegra aðstæðna, þá sést það enn betur, að Reykjavík ber ekki skertan hlut frá borði. En þá er komið að þeirri spurningu, hvort þingmenn Reykjavíkur telji það nú tímabært að dreifa meira menntastofnunum út um Landið. Það er atriði, sem vert er að taka til athugunar hér á þingi. En það hefur nú borið svo við, síðan ég tók sæti á þingi fyrir átta árum, að það hefur reynzt harla erfitt að koma þeirri stefnu í lög og framkvæmd. Ég er þess albúinn að rifja upp dæmi um slíkt; það eru til nægar bækur til að sýna það, en við skulum samt láta nægja núna að byrja með nokkur dæmi eftir minni. Árið 1943 var það mjög til umræðu að breyta lögunum um kennaraskóla Íslands. Var þá leitað upplýsinga skólastjórans, hvaðan nemendur skólans kæmu. Kom þá í ljós, að um langt árabil voru yfir 80% nemendanna utan af landi, og meiri hlutinn af því fólki hverfur aftur út á landsbyggðina að af loknu prófi. Þá flutti hv. þáverandi og núverandi þm. N-Þ. frv. þess efnis, að kennaraskólanum yrði útvegaður staður utan Reykjavíkur á jarðhitasvæði, þar sem hentugt væri að hafa æfingaskóla. Málið hlaut engan byr þá. Síðan var það tekið upp aftur af mér og hv. þm. N-Þ., en hlaut engan byr. En 1946 voru sett ný lög um kennaraskólann og æfingaskólann, og þá er það tekið fram, að skólinn eigi að vera í Reykjavík, þó að 80% af nemendum hans séu utan af landi.

Húsmæðrakennaraskólinn er fyrst stofnaður með reglug. þar um 1942. Þar er svo fyrir mælt, að námstímanum skuli skipt í þrjú kennslumisseri, og eigi kennsla að fara fram að sumu leyti í Reykjavík, en að sumu leyti úti á landi, og fór sú kennsla fram á Laugarvatni. Þegar lögin voru sett um þennan skóla 1947, þá kom það upp úr kafinu, að það olli miklum erfiðleikum að láta skólann starfa á Laugarvatni. Var þessu því breytt frá því, sem áður var, og ákveðið í lögunum, að skálinn skuli starfa í Reykjavík og nágrenni hennar. En það þótti þá nauðsynlegt vegna þess, að búrekstur er ein námsgrein, að setja „og nágrenni hennar,“ líklega vegna þess, að Austurvöllur hafi þótt of lítill til þeirrar kennslu. Ég hef nú nefnt þetta sem örfá dæmi, en fleiri dæmi er hægt að finna í bókum um þetta, en ég skal nú ekki fara lengra í þetta að sinni. En þessi dæmi ættu að nægja til þess að sýna það, að það er megnasti misskilningur, ef Reykjavíkur-þm. halda, að hér sé um eitthvert baráttumál milli Reykjavíkur annars vegar og dreifbýlisins hins vegar að ræða. En hins vegar vil ég taka það fram, að það væri rétt að taka nú upp þá stefnu að dreifa þeim stofnunum, sem ríkið rekur, meira út á land, en verið hefur.