16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi segja það við hv. 2. þm. Rang. og jafnvel við hv. þm. A-Sk., að þeir mundu ekki hafa hent af sér skónum til þess að bjarga skólunum. — En viðvíkjandi því, sem tekið hefur verið fram af hv. 2. þm. Rang., sem hv. þm. A-Sk. las nú upp líka — það var um félagsheimilin, sem umr. hafa nú snúizt mjög um —, þá hefur nú verið farið út í að ræða um skólabyggingar og talað um, hvernig þetta hefur verið rekið, er skólar hafa verið byggðir, að of miklir skólar hafi verið byggðir í kaupstöðunum og of litið af þeim í sveitunum, og farið hefur verið út í að rekja sögu skólabygginganna. — Og þá er Laugarvatnsskólabyggingin. — Og ég er ekki viss í því, ef sú saga væri rifjuð upp frá rótum, að það yrði fallegri saga, en jafnvel það, sem þeir eru að segja um byggingu þjóðleik!hússins. — En hitt er vitanlegt, og getur verið rök hjá mönnum, sem telja þjóðleikhúsið ekki þarfa stofnun, að of mikið sé fyrir það gert frá því sjónarmiði. Og það eru engin rök fyrir hendi á móti því önnur en þau. Því að ég er viss um, að þessir menn gera sér ekki nokkra grein fyrir því, hvað einstaklingar hafa fórnað, þar til það var orðin almenn hugmynd, að það þyrfti að byggja þjóðleikhús. Því að allar þær fórnir og allt það starf, sem einstaklingar hafa lagt á sig, það hefur sannfært þjóðina um, að það þyrfti að byggja þjóðleikhús. — Og þegar það loks er komið, er deilan um það að taka nokkuð af þeim fjármunum til annars, sem lögfest hefur verið á sínum tíma, að það eigi að byggja þjóðleikhús fyrir. Og hefðu þessir menn ráðið, sem nú vilja taka þetta frá þjóðleikhúsinu, þá hefði það aldrei verið byggt. Enda sýnir það dálítið, hvaða hug Alþ. hefur borið til þessa máls, að fyrst er því komið inn hjá mönnum, að það sé þess vert að byggja þjóðleikhús, en síðan, þegar skrokkur hússins er kominn upp, eru allar tekjurnar, sem því eru ætlaðar, teknar í ríkissjóð, sem hv. þm. A-Sk. er að vitna í og fyrrv. hv. þm. S-Þ. kallaði þjófnað frá þjóðleikhúsinu á sínum tíma.

Og viðvíkjandi því, sem sagt hefur verið um félagsheimilin, þá er ákaflega hjartnæmt að heyra hjá þessum mönnum, hvað þessi félög í Reykjavík séu mörg, sem mótmæla þessu, sem farið er fram á í frv., sem fyrir liggur. En öll þessi félög fá stóran styrk úr ríkissjóði. Og þegar verið var að tala um félög, sem áttu að hafa rétt til félagsheimilaframlags, þá var einn félagsskapur þó undanskilinn, sem ekki átti neina hlutdeild í þessu efni, að það voru verkalýðsfélögin. Þau máttu ekki vera með. Og í allri ástúðinni gagnvart félagsskap ýmiss konar hér í Reykjavík var ómögulegt, að verkalýðsfélögin mættu vera þarna með, og það var fellt úr einmitt af þessum sömu mönnum. Og það var líka dregið út, að þessi félög hefðu orlofsheimili eða hvíldarheimili væru byggð fyrir félagsmenn. Og svo segja þeir, þessir menn, að félögin í Reykjavík eigi líka að njóta góðs af félagsheimilasjóði, sem getur verið satt, svo langt sem það nær. — Reykjavík skilur, að þjóðleikhúsið er virðuleg menningarstofnun. En þessir menn, sem virðast vera á móti því, skilja það ekki — þeim dettur það ekki í hug — og halda líkast til, að þegar búið er að koma því upp, þá sé ákaflega gott að stæra sig af því, að þetta sé mikið átak — en vilja kippa af því möguleikanum til starfa.

Og á annað vil ég benda hv. þm. A-Sk. Fyrst þegar hann kom með frv. um félagsheimili, var honum ekki farið að detta í hug að taka skemmtanaskattinn fyrir þau. En af því að það voru ekki nein ráð til þess að ná í peninga í félagsheimilin, þá datt þeim í hug — honum og öðrum, sem með honum voru —, að þarna væri leið til að ná í peninga, með því að taka af skemmtanaskattinum, þegar búið var að ákveða, að hann færi til þjóðleikhússins. Sömu menn halda, að nú sé hægt að fá tekjulindir fyrir þessa starfsemi. En hvers vegna koma þeir þá ekki með tekjulindirnar?

Ég er sannfærður um, að ekki hefur byggingarnefnd og því síður aðrir haft hugmynd um, hve mikið mundi kosta að koma upp svona byggingu eins og þjóðleikhúsinu, hve mikið rafmagn þyrfti til þess að byggja upp svona fyrirtæki, sem er ekki undarlegt. Því að þeim skeikar verkfræðingunum um fyrirtæki, sem þeir vita, til hvers eiga að vera, og þó vana menn hafi verið um að ræða, hafa áætlanir þeirra um ýmis mannvirki ekki staðizt. Og því fremur, þegar verið er að byggja upp þjóðleikhús, sem þeir höfðu ekki hugmynd um, hve mikils þurfti með til að fullgera. Og menn vissu ekki, hvernig ætti að innrétta það, þegar búið var að byggja kassann. Og þó margt megi finna að byggingu þjóðleikhússins og framkvæmdum í því sambandi, þá finnst mér dálítið hart, eftir að jafnmikið hefur verið sagt um þessa byggingu og hún talin svo mikið menningarfyrirtæki fyrir íslenzku þjóðina, að einmitt á sama tíma, sem allir eru stoltir yfir því hér heima, þessu átaki, sem gert hefur verið í sambandi við þjóðleikhúsið, þá skuli menn vera til, sem eru æstir yfir því, þó einhvern tíma sé gengið á það fé, til að taka það handa þjóðleikhúsinu, sem ég tel, að ranglega hafi verið tekið frá þjóðleikhúsinu, þó að það sé látið til annarra hluta um eitthvert árabil.