16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skaut hér fram hugmynd í minni ræðu áðan um tekjuöflun og gat þess, að með því móti yrði hægt að ná í tekjur hjá aðila, sem lítið hefði verið gengið á, þegar þungar álögur hefðu verið lagðar á aðra í þjóðfélaginu. Ég stakk upp á því að taka 10% af gróða seðladeildar Landsbankans, sem mundi nema, þessi 10%, 700.000 til 800.000 kr. á ári, og þessar tekjur væri hægt að nota annaðhvort handa þjóðleikhúsinu eða félagsheimilunum, allt eftir því, hvernig skemmtanaskattsmálið nú væri afgr. Ég gaf þeim mönnum, sem bera félagsheimilin fyrir brjósti, tækifæri til þess að sýna, hvort þeir vildu útvega félagsheimilunum tekjur, kannske ekki samsvarandi þeim, sem þau nú hafa, heldur líka meiri. — Nú hafa þrír hv. fulltrúar stjórnarinnar talað í þessum efnum, hæstv. ráðh. og tveir hv. stjórnarfl.-þm. Hæstv. menntmrh. sagði, að það mætti eiginlega ómögulega leggja neinar álögur á seðladeild Landsbankans; hann hefði ekki afskrifað skuldir, og þess vegna væri viðbúið, að hann ætti ekki nógu mikið til, ef svo og svo mikið af lánum, sem hann á hjá útvegsmönnum, reyndist tapað fé. Landsbankinn á nú upp undir 100 millj. kr. skuldlausar eignir, og það þótt hús hans sé metið á eina krónu. Og eign hans hér hinum megin við okkur, sem Landsbankinn á, er miklu, miklu meiri en nokkurn tíma kæmi til greina, að þau töp mundu nema á útgerðinni, sem nú eru óafskrifuð. — Ég veit hins vegar, hvað:það er, sem veldur því, að hæstv. viðskmrh. skuli taka svona dauflega í að leggja nokkuð á Landsbankann í þessum efnum. Það kom fram einu sinni fyrr á þinginu, að hæstv. viðskmrh. tók undir till., sem ég var með um að ríkið borgaði óþarflega mikla vexti af lánum hjá Landsbankanum, þannig að ríkissjóður væri beinlínis skattlagður handa Landsbankanum, og skömmu síðar kom stjórnin með frv. í þessu, einmitt um að skylda Landsbankann til að lána með lægri vöxtum en nú, handa 17 togurum, en það hefur aldrei fengizt afgr. af þinginu. Og allar umr. hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. um að spara fé með því að láta ekki Landsbankann græða eins mikið á vöxtum frá ríkinu hafa því orðið til einskis. Það er eins og Alþ. ráði ekki hér, heldur er eins og útlánastofnun, sem er hér við hliðina á okkur, segi Alþ. fyrir verkum. Það hefur hvað eftir annað verið svo, að þegar menn, sem kosnir eru af stjórninni, hafa sínar hugmyndir, ef þær fara í bága við reikningslega hagsmuni þeirrar stofnunar — sem þjóðin á — þá eru hugmyndir þessar slegnar niður með peningavaldinu, sem Landsbankinn hefur. Ég veit ekki, hvort hæstv. menntmrh. hefur hug til þess að minnast á þetta og til þess að reyna að aftra því, — af því að ríkisstj. hæstv. er orðin eins og bandingi hjá Landsbankanum — eins og vesall skuldari, sem ekki þorir að segja nokkurn skapaðan hlut. En hæstv. menntmrh. þorði a.m.k. að finna tylliástæðu. fyrir þessu. — Og hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. A-Sk., sem hér töluðu á eftir honum úr stjórnarliðinu og báðir hefðu átt að koma inn á þessa hugmynd, þar sem ég benti á tekjustofn til handa félagsheimilasjóði, ef stjfrv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ., eða handa þjóðleikhúsinu, ef það verður ekki samþ., hafa hvorugur minnzt á þetta. Af hverju? Líklega er ekki langt að leita að ástæðunni. Ætli það sé ekki af því, að þeirra hugmynd sé að hækka skemmtanaskattinn — og þá sé allt í lagi? Ef álögin eiga að lenda á alþýðustéttunum, þá er allt í lagi að þeirra áliti, að því er virðist, en þegar bent er á, að Landsbankinn geti lagt fram fé til þessa, þá megi hann ráða því að leggja þungar fjárhagslegar byrðar á ríkissjóðinn. — Ég benti á, út af því, sem hv. 2. þm. Rang. stagaðist á og hæstv. menntmrh. leiðrétti, að spurningin stendur ekki um hálfa eða einn fjórða úr milljón, heldur um á 4. millj. kr., sem þarf að útvega lánsfé til að greiða. Og þessar till. ríkisstj. og þessi till., sem ég skaut hér fram, þær hafa sitt gildi í því, að þær eru tekjustofn, hvor fyrir sig, sem á vissu árabili mundi gefa þessa upphæð. — Ég skal síðar koma að því, hve mikið traust muni vera hægt að hafa til ríkisstj. til þess að skaffa þessar 4 millj. kr. Og mér finnst þeir gefast fljótt upp í áhuganum fyrir félagsheimilunum og traustinu til ríkisstj. í því sambandi, þegar þessir hv. þm., sem töluðu fyrir félagsheimilunum, komu ekki að neinu leyti inn á það, hvort réttmætt væri að taka tekjustofn til þeirra, sem lenda mundi á peningavaldinu hér í Reykjavík, en virðast ekkert hafa við það að athuga að hækka skemmtanaskattinn, vegna þess að hann lendir fyrst og fremst á Reykvíkingum almennt og á alþýðunni ekki sízt.

Þá minntist hv. 2. þm. Rang. á það — og fór út í stjórnmálaumr. almennt í sambandi við það — já, hann minntist á, að hann hefði nú verið að bjarga atvinnulífinu., og að þeir þingmenn sveitanna, eins og hann sagði, hefðu nú verið að vinna afrek á þessu þingi til þess að bjarga atvinnulífinu. — Ja, mikil er trú þín! Og mikið er gott fyrir hv. 2. þm. Rang. að geta staðið í þessum hugmyndum, þegar hann heldur heim frá þessu þokkalega þingi og fer nú að tala við bændurna þarna í Rangárvallasýslu um áburðarverðið og annað slíkt — að geta þá staðið í þessum hugmyndum, að hann hafi verið að bjarga atvinnulífinu og þjóðinni, — þegar fyrstu bændurnir koma til með að segja honum, að þeir hafi ekki tekið áburð, sem þeir hafi pantað, og hafi lítið til þess að bera á túnin, vegna þess að hv. þm. þeirra hafi tvöfaldað eða þrefaldað áburðarverðið. Ósköp held ég, að honum gangi tregt að sannfæra þá um, að hann hafi bjargað atvinnulífinu. Og svipað verður að segja í sambandi við fóðurbætiskaup bænda og annað slíkt. Ég veit ekki betur en að það hafi rignt mótmælum út af því, að áburðarverðið hækkaði allt of mikið, og kröfum um, að ríkisstj. léti greiða þessa vöru niður og hún yrði seld á gamla verðinu. Bændur hafa, sem sagt, komið saman á fundum hjá sér, til þess að reyna að fá ríkisstj. til að bjarga þeim frá þessu bjargráði hv. 2. þm. Rang. Kannast þessi hv. þm. ekki við, að ýmsir hv. þm. hafa látið þau orð falla, að þeir hefðu aldrei greitt atkv. með þessum bjargráðum, ef þeir hefðu vitað, hvað þau þýddu og hvað þetta var? Og þó að hv. 2. þm. Rang. sé nú í þessari sælu trú, að hann hafi bjargað atvinnulífinu, mun hann reka sig á, að hans umbjóðendur líta öðruvísi á það mál. Og ég býst við, að sama yrði ofan á, ef hann talaði við sjómenn, sem verið hafa úr Rangárvallasýslu á vertíð í vetur. Ég tala nú ekki um, ef hann talar við útgerðarmenn, sem leggja upp í frystihúsin og ekki er borgað frá hnaðfrystihúsunum það, sem gert var ráð fyrir í grg. fyrir bjargráðafrv. ríkisstjórnarinnar, og hafa ekki neitt fengið hækkað fiskverðið, sem sagt var, að hlyti að hækka í 93 aura pr. kg. Ég býst við, að bjargráð hv. 2. þm. Rang. séu ekki neitt dásömuð af þessum mönnum. — Og fyrst þessi hv. þm. sagði, að atvinnuleysi væri nú komið í landinu, ef hann hefði ekki bjargað atvinnulífinu, — vill hann þá ekki ganga um göturnar hér í Reykjavík — þó hann fari ekki út um landið — vill hann ekki tala við fólkið hér, sem mundi segja honum, að atvinnuleysi er nú þegar komið hér, því miður. Og svo fjötraðir eru verkamenn hér og fiskimenn og allir Íslendingar vegna þessara ráðstafana, sem hv. 2. þm. Rang. hefur tekið þátt í og kallar nú bjargráð, að menn fá ekki tækifæri til að bjarga sér sjálfir, þeir menn, sem hæstv. ríkisstj. segir, að hún geti ekki bjargað meir en hún gerði í vetur. En það er fellt allt, sem kemur fram um það, að menn fái að mynda sin samtök um að reyna að bjarga sér sjálfir. — Svo kemur hv. 2. þm. Rang. með það, að þetta, sem ég hafi verið að krítisera það, sem gert hefur verið og kallað bjargráð, það geri ég ekki vegna þess, að neinum íslenzkum verkamanni þyki vont að vera atvinnulaus, né vegna þess, að neitt fólk finni til undan því, að brauð, smjör og smjörlíki og annað þ. h. sé hækkað í verði, eða að neinum finnist sárt að geta ekki staðið í skilum með það, sem menn hafa undirgengizt, vegna þeirra verðhækkana, sem nú skella yfir, — nei, það á ekki að hafa verið út af neinu slíku, sem við, sem börðumst á móti gengislækkunarfrv., gerðum það. Það á auðvitað að vera eftir fyrirskipunum frá Moskvu. — Hv. 2. þm. Rang. gerði áðan í sinni ræðu það, sem yfirleitt hefur ekki verið gert hér á þingi, að gripa til svo aumlegra og lélegra röksemda, að venjulega láta stjórnarflokkarnir sér nægja að láta flokksblöðin flytja það, en telja fyrir neðan sína virðingu að nota það sjálfir. Ég tel ekki nema sjálfsagt, að Morgunblaðið tali þannig, en hv. þm. ætti ekki að láta sér sæma að tala hér eins og Morgunblaðið. Við sjáum það daglega, sem börðumst á móti gengislækkuninni, að það er svo sem auðvitað, að ótætis kommúnistarnir hafa verið á móti henni samkvæmt fyrirskipun frá Moskvu, en ekki gert það frá sjálfum sér. Alþfl. er svo aftan í ótætis kommúnistunum, því að hann hefur ekki heldur gert það af sjálfu sér. Heldur hv. þm., að svona röksemdir séu boðlegar í umr. milli þm.? Ég vil minna þennan hv. þm. á það, fyrst svona mikil] skrekkur er hlaupinn í hann út af ótætis kommúnistunum, að einu sinni áður hefur hann orðið skelkaður á svipaðan hátt. Það var fyrir nokkrum árum, — mér datt þetta í hug af því, að hann var að upplýsa till. frá okkar hálfu, — átti hann og fleiri þm. í hans flokki þátt í því að lækka verð á afurðum bænda og lækka kaupgjald með l. frá Alþingi. Það var haustið 1944. Þá mynduðust samtök milli Sósfl., Alþfl. og Sjálfstfl. Auðvitað hefur þessi hv. þm. þá gengið með þá hugmynd, að allt, sem við kæmum nærri, sé samkv. fyrirskipunum frá Moskvu. Hann hefur verið hræddur um, að nýsköpunarstefnan væri komin frá þeim vonda Stalín og Alþfl. og Sjálfstfl. væru að falla í ægilegt net. Hvað gerði hv. þm. þá? Hann var svo hræddur við að taka afstöðu með þeirri stj., sem Sjálfstfl. myndaði þá, að hann var í andstöðu við þá stj. þann tíma, sem hún var við völd. Það er sú stj., sem Sjálfstfl. hefur verið stoltastur yfir að hafa tekið þátt í, enda er það í eina skiptið, sem þessi flokkur hefur orðið að gagni fyrir þjóðina, og jafnvel þá var hv. 2. þm. Rang. svo hræddur við átætis kommúnistana, að hann þorði ekki að vera með. Ég veit ekki, hvort hann hefur séð eftir því á eftir. Ég er hræddur um, ef hv. þm. ætlar að halda sér með röksemdir sínar í þeirri hæð, sem hann gerði í sambandi við þetta, þá verði erfitt að ræða við hann á því stigi, sem þm. ættu að ræða hver við annan. Ef við ætlum að fara út í deilur um þetta, þá mundi ég biðja hann að athuga, hvað hann sjálfur var að gera, þegar hann samþ. gengislækkunina, ef hann hefur trú á því, að menn hlýði fyrirskipunum annars staðar frá, hvort hann hafi ekki flett upp Marshallsamningnum í stjórnartíðindunum frá 1948, 238 bls., 4. gr., og athugað, hvernig gengislækkunin er til komin. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku tilkynnir ríkisstjórn Íslands við og við ráðgert dollaraverð slíkra vara, þjónustu og tæknilegra upplýsinga, og ríkisstjórn Íslands leggur síðan inn á hinn sérstaka reikning samsvarandi upphæð í krónum samkvæmt því gengi, sem á hverjum tíma hefur orðið samkomulag um við alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“

Þessi alþjóðagjaldeyrissjóður sendi sinn fulltrúa hingað heim til Íslands. Sá fulltrúi tilkynnti síðan, hvað gengið skyldi verða á íslenzku krónunni. Ríkisstj. lýsti yfir, að hún hefði orðið hissa, — það var hæstv. atvmrh., sem gerði það, — hissa yfir því, að það væri svona mikil gengislækkun, sem fulltrúi alþjóðagjaldeyrissjóðsins áleit nauðsynlega. Þm. stjórnarflokkanna sinntu valdboðinu frá gjaldeyrissjóðnum, sem framkvæmdi það í samræmi við Marshallsamninginn, 2. málsgr. 4. gr., ef til vill sem skilyrði fyrir því, að þær fjárveitingar fengjust til Íslands, sem Marshallaðstoðin hefur hugsað sér að senda. Ég get vel fyrirgefið hv. 2. þm. Rang. þetta tal, sem hefur sjálfsagt verið í gamni, en ef hann ætlar að fara að tala í alvöru eins og Morgunblaðið, þá ætti hann að athuga þá samninga, sem hans stj. framkvæmdi og gerðir voru samkv. valdboði utanlands frá, sem ráðh. stj. voru hissa á, með þeim afleiðingum, sem þm. stjórnarflokkanna hefðu ekki búizt við, að mundu verða. Þessi þjóðholli þm. ætti því ekki að undirstrika það, þegar slíkt mál er til umr., að þjóðin hafi grætt á gengislækkuninni. Hún hefur þvert á móti rúinerað Íslendinga.

Hv. 2. þm. Rang. talaði um, að hann hefði verið að tryggja brauð öllum alþýðufjölskyldum með gengislækkuninni. Ein fyrsta afleiðingin var sú, að brauðið hækkaði um 50%. Það er búið að hækka smjörið um 100%, smjörlíki hefur hækkað líka. Allar brýnustu nauðsynjavörur almennings, sem reynt hefur verið að halda niðri, hafa hækkað. Og um leið er atvinnuleysið leitt yfir almenning. Þetta halda þessir menn, að sé til hagsbóta fyrir þjóðina. Þetta á að vera til að bjarga fólkinu. Það er verið að leiða sult yfir þjóðina, sult, sem fólkið hefur sem betur fer ekki haft af að segja síðasta áratuginn. Það er því ekki undarlegt, þó að slík atriði sem þessi dragist inn í mál eins og það, sem hér liggur nú fyrir.

Hv. 2. þm. Rang. talaði um okkar till. viðvíkjandi fjárl., og þær voru auðvitað allar til að sýnast. Mikið af þeim till., sem þar voru um sparnað, var samsvarandi þeim till., sem meiri hl. fjvn. flutti í fyrra. Ég man ekki, hvort hv. þm. var í fjvn. þá, en ég býst við, að það hafi ekki verið nein synd af hálfu fjvn. að flytja þær, og þá ekki heldur synd að greiða atkv. með þeim. En þá voru þær fluttar af stjórnarflokkunum. Og þá finnst mér, að það hafi ekki heldur verið synd, þó að stjórnarliðið gæfist upp við sparnaðinn, að sýna einhverja viðleitni í þá átt. Okkur er ljóst, hvílíkur ofurþungi álaga hvílir á almenningi, svo mikill, að hann er að sliga landsmenn. Það þarf enginn að halda, að öll þessi gjöld komi til með að rukkast inn eins og áður, þegar atvinnulífið og fólkið er að brotna undan þessum þunga. Svo sló hann upp í grín og sagði, að það væri svo sjálfsagt að treysta stj. til að bjarga þessu. Hann treystir stj. vel til að bjarga þessum 4 milljónum. Ég er kunnugur því, hvernig hefur gengið fyrir hæstv. stj. að bjarga öðrum 4 milljónum. Það er framlag til Sogsvirkjunarinnar. Ég veit vel, hvernig það mál hefur dregizt og strandað, af því að hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til að leggja fram þessar milljónir þrátt fyrir góðan vilja. Það er ekki búið að tryggja sér þær enn þá. Það kemur af því, sem ég gat um í upphafi míns máls. Hæstv. stj. er þannig undir nöglinni hjá Landsbankavaldinu í landinu, að þótt hún elgi að vera húsbóndi yfir því, þá er hún næstum því eins og betlari. Hún er að biðja Landsbankann að lána sér svona hluti. Það, sem við þm. eigum að gera, það er að gefa stj. kjark og vald, svo að hún geti talað við landsbankastjórnina eins og húsbóndi á sínu heimili. Ég veit vel, að það er ekki þægilegt fyrir stj. að eiga að ganga fyrir dyr Landsbankans og biðja hann að lána sér. Ríkið er í miklum skuldum við bankann. Ég held því, að það væri viðkunnanlegt að láta bankann vita, að hér er vald, sem segir, hvað á að gera við þann gróða, sem bankinn fær. Þegar svo er reytt af öllum almenningi, að hann hefur varla til hnífs og skeiðar, þá er engin ástæða til, að stofnun, sem ríkið á, græði 17–19 milljónir á hverju ári. Það, sem við þm. eigum að gera, er að láta stj. vita, að hún hafi þingið bak við sig í þessu efni. Það er eins og hvert annað grín að segja, að stj. bjargi þessu, þjóðleikhúsið verði ekki boðið upp. Ég get ekki treyst hæstv. stj. svona mikið. Ég er hræddur um, að hæstv. stj. bjargi litlu í þessu efni. Mér finnst bjargráðin ekki hafa tekizt það vel í vetur hjá hæstv. stj., þó að hún hafi notið aðstoðar svona þjóðhollra þm. eins og hv. 2. þm. Rang., að það muni ganga vel, þegar stj. á að bjarga sér upp á eigin spýtur. Ég held þess vegna, að það hefði verið betra að gefa hæstv. stj. heimild til að leggja þennan skatt á gróða Landsbankans, svo að hún hafi það í pokahorninu, þegar hún færi að tala um það, hvort hann vildi láta 4 milljónir. Stj. mundi vera kurteis og segja: Ég vil ekki gera þetta, en það er bara þingið, sem er svona vitlaust, og ég neyðist til þess, af því að ég fæ ekki peninga. — Ég held, að þegar þingið vill veita hæstv. stj. svona vald, þá eigi hún að taka mannlega á móti, þiggja það og nota sér það, en að segja, að stj. bjargi því einhvern veginn, það finnst mér lítilmannlegt. Mér finnst satt að segja, að það verði hlaupið frá öllum atriðum varðandi fjármál þjóðarinnar í slíkri vitleysu, eins og kemur fram í smámáli eins og þessu, því að ég kalla þetta smámál, að mér finnst, að það hefði ekki mátt vera minna en þingið hefði tekið sjálft ákvarðanir í þessu máli, en ekki kastað öllu á herðar ríkisstjórninni. Með því að gera ekkert er þjóðleikhúsið sett í þá hættu, að það verði sett á uppboð. Það verður vitanlega ekki farið langt með það, þó að það verði boðið upp. En það er annað, sem er miklu meira vert, og það er það, að þingið hafi mannskap í sér til að benda hæstv. ríkisstj. og gefa henni heimild til að nota þann tekjustofn, sem auðvelt er fyrir þingið að gefa henni vald til og það hjá þeim aðila, sem á engan hátt hefur orðið fyrir þungum búsifjum af þeim hörðu álögum, sem aðrir hafa orðið að bera.