16.05.1950
Neðri deild: 107. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umræðum um þetta mál hingað til. Þess hefur ekki heldur verið þörf, því að aðrir hafa flutt þau rök, sem til þess hníga, og sýnt fram á, að þetta mál er ekki reist á þeim grundvelli, að rétt sé eða skynsamlegt að samþykkja það.

Það er óþarft að rifja upp sögu þessa máls frekar en gert hefur verið. Ég vil þó geta þess til nánari skýringar, að þegar þetta mál var hér fyrir Alþingi 1947 og horfið var að því að skipta skemmtanaskattinum, þá var það gert á þeirri forsendu, að hæfilega væri séð fyrir þjóðleikhúsbyggingunni, enda stuðzt við upplýsingar þeirra, sem um það verk áttu að sjá. Það er því algerlega rangt, sem fram hefur komið í þessum umr., að um einhverja rányrkju hafi verið að ræða, þegar frv. um félagsheimili var samþ. Það er enn fremur rangt, að þjóðleikhúsið hafi verið svipt öllum tekjum 1947. Ég veit ekki betur en það hafi eftir þeim lögum átt að halda 40% af skemmtanaskattinum. Hins vegar átti félagsheimilasjóðurinn að fá 50%. Allt tal um rányrkju af hendi Alþingis er því tilhæfulaust slúður, þar sem þessi skipting var byggð á upplýsingum, sem byggingarnefndin gaf Alþingi. Á s.l. ári var svo aftur gerð breyting á þessari skiptingu, þannig að hlutur þjóðleikhússins var aukinn og átti nú að ganga til rekstrar þess. Var sú skipting ákveðin þannig, að þjóðleikhúsið fékk 50%, félagsheimilasjóðurinn 40%, en lestrarfélög og kennslukvikmyndir 10%.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt til, að hlutur félagsheimilasjóðs verði lækkaður niður í 20%, en þjóðleikhúsið fái 70%. Ég skal ekki véfengja þær upplýsingar, að þjóðleikhúsið þurfi á þessu fé að halda, en vil hins vegar taka undir með 2. þm. Rang., 5. landsk. þm. og þm. A-Sk., að ég trúi ekki, að hæstv. ríkisstj. sé svo runninn mergur, að hún eigi ekki aðrar leiðir til að afla þessara 250 þús. kr., en líkur eru fyrir, að þessi breyting muni færa þjóðleikhúsinu eftir síðustu brtt. hæstv. ráðh. Hæstv. ríkisstj. er þá úrræðaminni, en ég hef haldið til þessa.

Það er alger óþarfi að setja okkur, sem andvígir erum þessari leið til að auka tekjur þjóðleikhússins, upp við vegg og lýsa okkur sem óvinum lista og menningar og þá þjóðleikhússins um leið. Við gætum á sama hátt og með jafnmiklum rétti lýst formælendur þessa frv. erkióvini allra þeirra, sem ekki eiga neitt félagsheimili eða hálfgerð hús, er liggja undir skemmdum, en okkur dettur slíkt ekki í hug, því að við vitum, að þessir menn hafa líka áhuga fyrir félagsheimilum. Það er líka áreiðanlega áhætt að fullyrða, að við, sem ekki viljum skerða hlut félagsheimilasjóðs vegna þeirrar brýnu þarfar, sem honum er ætlað að leysa, unnum þjóðleikhúsinu alls góðs og teljum sjálfsagt, að óreiðuskuldir þess verði greiddar, þó að við viljum velja til þess aðrar leiðir en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það hefur verið minnzt á þetta svokallaða byggðavald hér í þessum umræðum og talað um, að það rísi nú rétt einu sinni upp í fjandskap við kaupstaðina. Það má nú margt um þetta svokallaða byggðavald á Alþingi Íslendinga segja, bæði í sambandi við þetta þing og önnur, en út í þá sálma ætla ég ekki að fara. Hins vegar vil ég geta þess, að sé nokkuð við byggðavaldið að sakast, þá er það fyrst það, að það hefur ekki verið nægilega notað undanfarið. Þetta segi ég ekki af neinu vanmati á okkar ágætu höfuðborg, nema síður sé, heldur eingöngu frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það er því algerlega óþarft af hv. forsvarsmönnum þjóðleikhússins, sem kalla sig, að vera með eitthvert goms eða svigurmæli um, að hið svokallaða byggðavald geri sig of breitt. (Viðskmrh.: Hver var að tala um það?) Það hafa ýmsir gert. Sannleikurinn er sá, að hæstv. menntmrh. hefur sótt þetta mál meira af kappi en forsjá, enda kemur það greinilega í ljós í sambandi við þá brtt., sem hann hefur nú flutt. Hv. þm. sjá, hvernig nú á að bjarga þjóðleikhúsinu. Lestrarfélög og kennslukvikmyndir, sem hafa haft 10% af skemmtanaskattinum, eiga að lækka um 2%. Þessi 2% eiga að bjarga þjóðleikhúsinu, og eftir að þau hafa verið tryggð því til handa, á Fjalla-Eyvindur að geta gengið áfram. Gerið þíð svo vel. — Þetta er fjarstæða, og eins er um aðra liði þessa frv. og þær breytingar, sem gerðar hafa verið á því. Það er alveg ástæðulaust að ráðast að félagsheimilasjóðnum, sem nú þegar er þyngri skyldum hlaðinn en hann getur undir risið, hvað þá ef af honum er skorið. Ég vil því leyfa mér að vænta, að hv. þm. verði á móti þessu frv. ásamt öllum þeim breytingum, sem fram hafa komið, og það verði gert á þeirri forsendu, að þm. treysti hæstv. ríkisstj. til að finna önnur úrræði til að afla fjár til þess að okkar glæsilega þjóðleikhús verði leyst úr skuldafjötrum og því tryggður betri rekstur, en þetta frv. gerir ráð fyrir. Þetta frv. hefur líka viðar mæti andúð, en hér á Alþingi, þó að það eigi ekki langan aldur að baki, og má í því sambandi benda á mótmæli æskulýðsfélaganna, og þar er það ekki eingöngu byggðavaldið, sem mótmælir frv., heldur líka æskulýðsfélögin hér í höfuðstaðnum, enda er félagsheimilasjóðurinn ekki bundinn við sveitirnar einar, þó að gert sé ráð fyrir, að hann leysi fyrst þörfina þar, sem hún er brýnust.

Ég vil svo áður en ég lýk máli mínu segja það, að það dregur til nýrra vega í okkar þjóðfélagi, ef hið glæsilega menningarsetur, þjóðleikhúsið, þarf að fara á uppboð, eins og heyrzt hefur í þessum umræðum. Mér þótti satt að segja leitt og ekki samboðið hæstv. menntmrh. að hafa orð á slíku, og ég verð að endurtaka það, að það bregður þá til nýs og það ekki góðs, ef þetta glæsilega musteri þarf að fara á uppboð vegna þess að ekki séu nein úrræði til að greiða iðnaðarmönnum og öðrum, sem við það hafa unnið. Oft hefur verið útvegað fé til húsbyggingar í Reykjavík og það ómerkilegri bygginga, en þjóðleikhússins. Húseignir í Reykjavík eru nú einhverjar þær beztu og arðvænlegustu eignir, sem nokkur Íslendingur á, og þar af leiðandi ein öruggustu veð fyrir lánum. Hins vegar hefur verið erfitt að fá fé til húsbygginga úti á landi, og af þeim ástæðum standa nú mörg félagsheimili ófullgerð og sum jafnvel undir skemmdum. Ég álít, að það sé vilji Alþingis og þjóðarinnar í heild, að skjótt verði brugðizt við þeim vanda, sem þjóðleikhúsið er í, og ríkisstj. beri skylda til að ráða fram úr því vandamáli, en bara án þess að slátra lambi fátæka mannsins um leið.