16.05.1950
Neðri deild: 107. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja fram brtt. í sambandi við það vandamál, sem hér er til umræðu, en það er í fyrsta lagi, að meiri hluti þm. virðist vera andvígur hækkun á skemmtanaskattinum. Í öðru lagi hefur komið fram, að félagsheimilasjóð vanti meira fé, og í þriðja lagi er aðkallandi að leysa úr brýnni þörf þjóðleikhússins í sambandi við skuldir, sem á því hvíla. Brtt. minni er ætlað að leysa allan þennan vanda.

Till. mín er um það, að Landsbanki Íslands hlaupi nú undir bagga, hjálpi þjóðleikhúsinu og láni því fé. Árlegur rekstrarafgangur seðladeildarinnar er nú 6–8 millj. kr., og á bankinn að lána 10%, eða 600–800 þús. kr. á ári. Eða ef hentugra þykir, má hafa það svo, að það séu 300–400 þús. kr. til þjóðleikhússins og 300–400 þús. til félagsheimilasjóðs. Ég býst við, að ef þetta verður samþ., þá megi þjóðleikhúsið vel við una. Jafnframt leyfi ég mér að leggja til, að fyrirsögn frv. breytist. — Ég held, að 2. greinin mundi verða nokkuð raunhæfari þannig, en í þeirri mynd, sem hún er nú. Ég veit ekki, hvaða lánsstofnun mundi vilja lána út á þær tekjur, skv. 1. gr. óbreyttri, en ef 1. gr. yrði orðuð eins og ég legg til, þá yrði lán auðsótt. — Ég vil biðja forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt. minni, þar sem hún er of seint fram komin og þar að auki skrifleg.