16.05.1950
Neðri deild: 107. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég skal ekki halda uppi löngum umr., því að þetta mál virðist fullrætt af báðum aðilum. Og þótt þetta mál sé sótt af kappi, þá hef ég reynt að stilla ræðum mjög í hóf, en það hefur stappað nærri, að skort hafi á fulla kurteisi hjá sumum andstöðumönnum þessa máls.

Hv. þm. N-Ísf. sagði í ræðu sinni, að ég hefði sagt, að þjóðleikhúsið hefði verið svipt skattinum. Þetta sagði ég aldrei. Hitt sagði ég, að þjóðleikhúsið hefði haft siðferðislegan rétt til alls skattsins. Hitt er svo annað mál, að á þessu hefur illa verið haldið af þeim mönnum, sem hafa haft fjárráð hússins. — Hv. þm. sagði, að hann tryði því varla, að ríkisstj. gæti ekki greitt þessar 250 þús. Þetta er sami misskilningurinn og hjá hv. 2. þm. Rang. Hér er um að ræða 3–4 millj., en 250 þús. kr. á ári, og er það annað en 250 þús. út af fyrir sig. Svona rangfærslur eru aðeins til að villa. Hv. þm. talaði um það með fjálgleik og mörgum orðum, að hér væri verið að ráðast á byggðavaldið. Ég vísa þessu algerlega frá mér. Þetta hefur komið hér inn í umræðurnar af allt öðrum mönnum. — Hv. þm. taldi það óviðkunnanlegt af mér að minnast á það, að hægt væri að bjóða upp þjóðleikhúsið. Það má hver hneykslast á þessu, sem vill, en eigi að síður er þetta sú sorglega staðreynd. Þjóðin er búin að byggja hús fyrir meira en 2 tugi millj. og skuldar 2–3 milljónir, og er fögnuðurinn í sambandi við þessa byggingu vissulega beiskjublandinn, ef lánveitendur geta krafizt þess, að húsið sé boðið upp. Ef hv. þm. N-Ísf. er mjög umhugað að forða þjóðleikhúsinu frá slíku, er fyrsta skilyrðið það að horfast í augu við veruleikann.