16.05.1950
Neðri deild: 107. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. málsins átti ég eftir athugasemd, en nennti þá ekki að eyða tíma í að svara hv. 2. þm. Reykv. Hann ræddi ekki um þjóðleikhúsið, heldur almennt um þjóðmál. Ég vil ekki þreyta hv. þingmenn á að svara honum. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um skemmtanaskattinn.

Hæstv. menntmrh. talaði um það tvisvar, að það væri um misskilning að ræða, að ráðherra teldi, að allt væri í vandræðum nema ríkisstj. fengi 250 þús. kr. frá sveitunum. En hæstv. ráðh. ætlar nú að slá af, skv. brtt. á þskj. 810, og sætta sig við að fá 200 þús. kr. á ári, því að hann leggur til, að félagsheimilasjóður fái 32% í stað 40%. Ég segi það enn, sem ég sagði hér fyrr í kvöld, að ef hæstv. ríkisstjórn er í vandræðum að afla sér þessara 200 þús., þá verður hún jafnt í vandræðum að afla sér fjár, þótt þessi till. verði samþ. Eins og sakir standa, þá nema óreiðuskuldir þjóðleikhússins nú á 4. millj. króna, og nú er um það að ræða, hvernig á að borga verktökunum. Það verður jafntorvelt viðfangs, þótt þessi till. verði samþ. Ríkissjóður verður að taka lán til að greiða þessa skuld. En ríkisstj. virðist vera ákaflega vonlítil um rekstur þessa fyrirtækis. Það má þó minna á það, hvaða tekjur þjóðleikhúsið fær. Það fær 50% af skemmtanaskattinum eða um 1.250 þús. kr. á ári. Áð öðru leyti verður maður að áætla tekjur þess eftir líkum, þar sem engin reynsla er komin á rekstur þess. Ég hygg, að gera megi ráð fyrir a.m.k. 200–250 leikkvöldum á ári. Tekjur hvers kvölds eru 12.500–13.000 kr. Og ef maður reiknar með lægri tölunni — eða 200 leikkvöldum — þá gerir það 21/2 millj. kr. Þá verða brúttótekjur þess 3 millj. og 750 þús. kr. Hver er svo rekstrarkostnaður hússins ásamt vaxtaafborgunum? Ég get ekki svarað því, því að engum er það kunnugt. En hitt er staðreynd, að árlegar tekjur þjóðleikhússins nema hátt á 4. millj. kr. Þess vegna þykir mér ekki ólíklegt, að það geti sjálft staðið undir vöxtum og rekstrarkostnaði sínum. Svo að það er engin fjarstæða að halda, að það geti borið sig, nema hæstv. ríkisstjórn haldi, að ekki sé hægt að reka opinber hús nema með tapi. Þegar líkur benda til, að hægt sé að reka hús þetta án taps, þá er ekki tímabært að sækja fé til sveitanna.

Hæstv. menntmrh. sagði, að þjóðleikhúsið hefði siðferðislegan rétt til alls skemmtanaskattsins. Það var leiðinlegt, að hæstv. ráðh. skyldi koma með þetta, því að ég segi, að þjóðleikhúsið hafi ekki einungis siðferðíslega kröfu, heldur lagalega kröfu, á þann hluta skemmtanaskattsins, sem rann í ríkissjóð á árunum 1930–1940. Ef hæstv. ráðh. vill heimta inn þetta, þá ætti hann að gera það.

Um brtt. hv. 2. þm. Reykv., að taka 10% af gróða Landsbankans, þá býst ég við, að hv. þingmenn taki till. ekki alvarlega. Hv. þm. talaði um, að Landsbankinn ætti nú 100 millj. í skuldlausri eign. Ég segi nú bara, að svo er guði fyrir að þakka, að Landsbankinn á þessa eign, en mér dettur ekki í hug að fara að fjargviðrast út af því. Því frekar getur Landsbankinn lánað þjóðinni eitthvað. Það þarf enginn að sjá ofsjónum yfir því, þótt Landsbankinn eigi eitthvað. — Það er rétt, að þetta mál er nú orðið þaulrætt. Ég hygg, að ríkisstj. hafi líka fengið þá ráðningu, sem hún á skilið, fyrst hún tók ekki þann kostinn, sem ég ráðlagði henni í upphafi málsins að draga málið til baka.