17.05.1950
Efri deild: 114. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er andvígur 1. gr. þessa frv., um hækkun á skemmtanaskattinum, og mun því greiða atkv. gegn henni. Ég tel, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að auka enn á þennan skatt, auk þess sem þess er að gæta, að langmestur hluti hans fellur til frá stærstu kaupstöðunum, en samkv. gildandi l. og eftir þessu frv. er ætlazt til, að honum sé dreift til annarra hluta landsins umfram það, sem eðlilegt getur talizt. Hins vegar tel ég nauðsyn að viðurkenna þá staðreynd, að afla verði meira fjár, en gert hefur verið, til að greiða óreiðuskuldir þjóðleikhússins, og ég tel, að ekki verði hjá því komizt. Ég get því fallizt á 1. brtt. á þskj. 814 heldur en ekki neitt, en vil láta þess getið jafnframt, að ég tel, að meira af skattinum hefði átt að renna til greiðslu á lausaskuldum þjóðleikhússins, en hér er gert ráð fyrir. — Ég heyrði ekki, að hæstv. ráðh. gæfi neinar upplýsingar um 2. brtt. á þskj. 814 né hverra tekna af þessu mætti vænta eða hver rök væru fyrir því, að leitað er á þennan stað eftir tekjum fyrir þjóðleikhúsið. Ef ég man rétt, þá var einkasala á viðtækjum stofnsett til þess að tryggja mönnum fyrst og fremst góð og hentug tæki, sem menn mættu reiða sig á, að væru örugg og ekki seld dýrara verði, en nauðsyn krefði. Nú mun hafa farið svo í framkvæmdinni, að hagnaður mun hafa orðið af einkasölunni, og mun hann hafa runnið til útvarpsins. Mig vantar upplýsingar um það, hvað langt þessar tekjur hrökkva til greiðslu á skuldum þjóðleikhússins, og enn fremur viðkomandi því, sem lögð var áherzla á, þegar viðtækjaverzlunin var stofnsett, að hún skyldi útvega góð og hentug tæki, en ekki vera rekin til fjáröflunar eða til að græða á henni.