17.05.1950
Efri deild: 115. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. nefndi sögu þjóðleikhússins sorgarsögu, og ég held, að það sé ýmislegt dramatískt við þá sögu.

Þeir tveir þættir, sem sérstaklega snúa að alþm., eru þeir, að 1946 er leitað til Alþ. vegna þessarar byggingar, og þá var Alþ. tjáð, að að mundi vanta 2–3 millj. kr. Til þess að ljúka byggingunni. 1947 var talið sjá svo fyrir endann á byggingu hússins og kostnaði í sambandi við það, að talið var óhætt að hætta að ætla þjóðleikhúsbyggingunni tekjur af skemmtanaskattinum. En nú, um það leyti, sem húsið er opnað, þá er upplýst, að það vanti 3–4 millj. kr. til hússins eftir að unnið hafði verið að húsinu sleitulaust þessi s.l. 2–3 ár, sem liðin eru síðan. Ég minnist þess, að skýrslur voru gefnar um, hvernig þjóðleikhúsbyggingin stæði, og upplýsingar um fjárreiður fyrirtækisins. Eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. menntmrh. hefur gefið, virðist þetta standa þannig, að byggingin sé nú í 20 millj. kr. og skuld sé 9–10 millj., þar af borgaðar 6 millj. og eftir séu í skuld 3–4 millj. En hæstv. ráðh. segir: Ég get þó ekki borið ábyrgð á, að þessar upplýsingar séu réttar, — þetta er eftir því, sem mér er tjáð. Hér er varnagli, að óvissa sé um það, að þessar upplýsingar séu réttar, sem bornar eru á borð fyrir þm. Ég vil þess vegna spyrja: Hefur engin grg. komið frá þessari byggingarn. þjóðleikhússins, — eru látnar nægja einhverjar munnlegar ágizkanir þessara manna og það talin nægileg gögn til þess að leggja fyrir Alþ.? Það hefur a.m.k. ekki verið upplýst enn, að af n. hafi verið heimtuð gögn um byggingarframkvæmdir hússins, og því síður er upplýst, að uppgjör muni liggja fyrir. Þá væri hægt að segja um leið og málið lægi fyrir Alþ.: Þetta er svona skv. skilagrein byggingarn., og hún verður að standa ábyrg fyrir því, að rétt sé upplýst. Hér er bara sagt: Ég þori ekki að ábyrgjast, þið megið varla hafa það eftir mér. — Það er upplýst af hv. 1. þm. N-M., að það muni vera eftir þó nokkuð við húsið enn, auk þess vitum við, að eftir er að búa vissa hluta hússins að húsgögnum, og það kostar áreiðanlega mörg hundruð þúsund, sem eftir er að gera, og gæti nálgast milljón í viðbót. Við erum þess vegna í fullri óvissu um það, hvað leikhús Íslendinga kostar, um það leyti sem það stendur algerlega fullbúið. Ég verð að segja, að þegar þessi bygging, þó vegleg sé, er komin á þriðja tug milljóna, þá er það fyrir mér há upphæð, þegar tillit er tekið til þess, að stofnunin var fokheld fyrir stríð, á normal tíma. Þessi upphæð finnst mér svo há, að ég hefði talið fyllstu ástæðu til þess, að sá hæstv. ráðh., sem var á undan núv. hæstv. menntmrh., hefði krafizt skilagreinar af byggingarn.

Um afstöðu mína til þessa máls vil ég segja það, að ég er andvígur því að hækka skemmtanaskattinn til þess að leggja á þessa hít. Ég held, að það sé farið að draga það úr peningaflóðinu, að ekki sé rétt að fara að setja þennan skatt á ný ofan á allt annað. Ég hefði líka haldið, að það væri á móti stefnu ríkisstj. að stofna nú til hækkana, þegar búið er að leggja ærnar byrðar á borgarana með gengislækkun og með nýjum sköttum á annan hátt. Mér er alveg sama, þó að þessi skattur sé að mestu leyti á Reykjavík, skemmtanaskatturinn er orðinn gífurlega hár, í sumum tilfellum 40% af brúttó innkomnum tekjum samkv. innkomnum skemmtanaskatti, og það er gífurleg álagning. Þá er það tilfærslan eða skiptingin á innkomnum skemmtanaskatti. Þar virðist mér vera farin mjög svo óviðkunnanleg leið. Ég hefði haldið, að þegar þjóðleikhúsið er endanlega fullgert, og það hefur til þessa hlotið í sinn hlut 50% af skemmtanaskattinum, þá hefði verið eðlileg lagabreyt. að láta þennan hluta af skemmtanaskattinum hverfa og láta meginhlutann af honum renna út um byggðir landsins og kaupstaði til þess að byggja þar upp, meðan enn er ekki sæmilega búið að samkomuhúsunum þar, því sannast að segja er það blettur á íslenzkri menningu, hvernig samkomuhús og hús landslýðurinn hefur við að búa. Það eru yfirleitt gamlir timburhjallar, sem varla er hægt að halda heitum á vetrardegi, og húsgögnin í þessum húsum eru viðast hvar úti á landi — og jafnvel í sumum kaupstöðum — baklaus bekkjaskrifli. Þar er ekkert, sem fullnægir fegurðartilfinningu manna. Þar eru ekki frumstæðustu þægindi. Og full þörf hefði verið að leggja í það verulegt fjármagn, meginhluta skemmtanaskattsins, sem inn kemur í landinu, að bæta þarna nokkuð úr. Félagsheimilunum hefur verið ætlað til þessa að fá 50% af skemmtanaskattinum. En þeirra hlut á að færa niður í 35% eftir till. hæstv. menntmrh. í byggingu eru nú allmörg félagsheimili úti um landið. Aðstandendur þeirra hafa reiknað með þessum lögboðna tekjustofni þeim til handa, og eru í miðjum klíðum með byggingarnar og standa nú uppi enn meir ráðþrota en áður, þegar þessi tekjustofn þeirra, sem þeir byggðu á, er tekinn í annað. — Já, það er eins og að orði var kveðið í hv. Nd.: Hér er verið að gera það, sem á máli biblíunnar heitir að slátra lambi fátæka mannsins handa þeim ríka. –Enn þá lægra er þó lotið fyrir óreiðuskuldum þjóðleikhússins, þegar farið er að tala um að taka 2% af þeim 10% af skemmtanaskattinum, sem rennur til lestrarfélaga úti um sveitir landsins og til þess að koma upp vísi að kennslukvikmyndasafni fyrir skólana, sem eru kennslutækjalausir að heita má. Ég held, að starfsemi hinna fátækari lestrarfélaga sé einhver hin þýðingarmesta menningarstarfsemi, sem rekin er úti um byggðir landsins og fyrir minnst fé. Nú á að skerða hana vegna þjóðleikhússins. Og þegar ætlunin var að koma upp dálitlu safni af kennslukvikmyndum, sem er viðurkennt, að séu einhver hin gagnmestu kennslutæki, sem kennarar geti fengið, þá á að koma í veg fyrir, að þetta safn geti orðið nothæfur þáttur í kennslustarfinu í landinu, og það á að koma í veg fyrir, að þetta geti orðið, með því að skerða tekjumöguleikana, sem áttu að vera undirstaðan undir því, að þessi kennslutæki yrðu keypt og notuð, — og þetta á að gera vegna þjóðleikhússins. Ég verð að segja, að þegar farið er inn á svona brautir, get ég ekki dregið af því aðra ályktun en þá, að hæstv. ríkisstj. sé komin í algert úrræðaleysi um það að afla fjár til að greiða þær vinnulaunaskuldir og efniskaupaskuldir, sem þjóðleikhúsið er í og óráðstafað er. Og mér þykir þetta furðulegt. Ég er sannfærður um, að ef hæstv. ríkisstjórn hefði reiknað með þessu, meðan hv. fjvn. var að störfum og hafði ekki gengið frá till. sínum, þá hefði mátt skera einhvern ósómann út úr fjárl., sem tekur hundrað þús. kr. og jafnvel milljónir, ef ríkisstj. hefði verið búin að ganga úr skugga um, að hér þyrfti að koma fyrir þriggja til fjögurra milljóna óreiðuskuldum fyrir þjóðleikhúsið. Það hefði verið alveg vandræðalaust fyrir ríkisreksturinn að leggja niður svo sem tíu til tuttugu embætti — og það hefði verið hægt að spara margan óþarfann, sem á fjárl. er ætlað verulegt fé til. Og hefði það verið ólíkt viðkunnanlegra, en að taka þann litla skilding, sem átti að fara til lestrarfélaga og til þess að koma upp ofurlitlum vísi að kennslukvikmyndasafni, og til þess að gera mögulegt að starfa að þessum þætti félagslífs úti um byggðir landsins, bæði úti um sveitir og í sjávarþorpum. Þetta er sem sé, að mínu áliti, viðbjóðsleg fjáröflunarleið, sem sett er fram hér af hæstv. ríkisstjórn.

Nýjasta brtt., sem hér er svo bætt við nú, er um að taka hugsanlegar tekjur af viðtækjaverzlun ríkisins, — það er kannske afsakanleg leið. En þó er óviðkunnanlegt, hvernig að er þarna farið, því að það er þó búið að ganga frá fjárl. og búið að ætla ríkisútvarpinu tekjur af þessum verzlunarrekstri, eins og á undanförnum árum, og það er komið aftan að þessari stofnun nú, eftir dúk og disk, þegar þetta er tekið út úr rekstri ríkisútvarpsins. Ég skal ekki segja, hvaða óþægindum það veldur ríkisútvarpinu, að þarna sé gerð breyt. á l. um útvarpsreksturinn og þessar tekjur teknar. Má vera, að það sé ekki tilfinnanlegt að taka þannig þessar tekjur af viðtækjaverzluninni, sem munu hafa átt að renna í byggingarsjóð útvarpsins, en ekki að standa undir rekstrargjöldum ársins 1950.

Af því, sem ég nú hef sagt, má ljóst vera, að ég er á móti þeirri ásælni, sem kemur fram í því, að hæstv. ráðh. kemur fram með till. um, að taka skuli þær tekjur, sem félagsheimilasjóði hefur verið ætlað að fá. Og ég er á móti því, að rýrðar séu þær litlu tekjur, sem lestrarfélögunum voru ætlaðar. Og ég er andvigur því, að þær smávægilegu tekjur, sem áttu að ganga til kennslukvikmyndasafns, séu rýrðar. Ég er andvígur því, að skemmtanaskatturinn hækki, þegar mjög er farið að draga úr tekjum manna og efnahagur almennings farinn að þrengjast, og tel það ganga í þveröfuga átt við það, sem hæstv. ríkisstjórn hefur látið í veðri vaka. — Í fáum orðum sagt: Ég er á móti þessum till. og á móti málinu í heild.