17.05.1950
Efri deild: 115. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er nú enginn tími til að þreyta umr. um þetta mál á þessum tíma, þegar komið er að þinglausnum. Enda skal ég ekki gera það. En svo mikið er víst, að hvernig sem þessar framkvæmdir hafa farið úr hendi, þ.e. bygging þjóðleikhússins, sem nú er um rætt — og ég undirstrika þetta nú, þegar háværar raddir heyrast um, að þessar framkvæmdir hafi orðið verulega miklu dýrari, en þurft hefði að vera, — þá er svo mikið víst, að þessar framkvæmdir eru gerðar af aðila, sem er löglega til þess kosinn og samkv. lögum, sem Alþ. hefur staðið að. Það er þess vegna tvímælalaust, þegar talað er um það, hvað þurfi að borga síðar, að þær kvaðir hefur ríkið tekið á sig að greiða þær kröfur, með því að skipa þá nefnd, sem unnið hefur þessi verk og hefur skuldbundið ríkið á löglegan hátt gagnvart þeim aðilum, sem eiga hjá þjóðleikhúsinu. — Ég tel það of snemmt að dæma um það nú, hvernig þetta verk hefur farið úr hendi, þó maður hafi heyrt ýmsar sögur um það, og þær ekki allar fallegar. — En ég vil aðeins benda á það, að það getur tæpast talizt eðlileg málfærsla að beina þeim ásökunum gegn núverandi ríkisstjórn, að átelja hana fyrir það, hvernig þessi bygging hefur farið úr hendi. (HV: Það er ekki gert.) Og það, sem mér finnst vera aðallega ráðizt á ríkisstj. fyrir, er það, að hún tekur við allri þessari skuldasúpu, sem þarna er fyrir hendi, og reynir að ráða fram úr málunum. — Það er ekki hægt að taka lán lengur. Og það er verið að reyna að ráða fram úr vandræðunum. Það er hægt að segja, að það hefði mátt spara á fjárl. En það er ekki létt að vinna það verk, þegar komið er fram á mitt ár, að spara á fjárl. til að taka þessa upphæð, sem hér vantar, með þeim sparnaði. En það er gott að minnast þess, að ýmsir hv. þm. heita því að vera mjög skeleggir, þegar að því kemur að færa niður útgjöldin á fjárl. Því að það eru allar líkur til þess, að það þurfi á þeim dugnaði að halda, og gott að fá yfirlýsingar um það. Og það er ekki víst, að það standi á ríkisstj. með að koma með þær till., og gott að eiga þá von á fylgi við þær.

En viðkomandi þessu máli, sem hér liggur fyrir, þá er það um það að segja, að ég hef ekki heyrt neinn hv. þm. benda á, hver leið sé nú tiltæk til að greiða þessa skuldasúpu, sem ríkisstj. verður þarna að taka við. Ég heyrði engar till. um það í hv. Nd. í gær. Og ég heyri engar till. hér um þetta, og ég lái engum það. Því að það er ekki víða hægt að leita að tekjum. En því erfiðara er þá að ásaka núv. ríkisstjórn, þó að þær leiðir, sem farnar eru til tekjuöflunar í þessu efni, séu ekki þannig, að maður geti verið ánægður með þær, hvorki ríkisstj.hv. þm.

Viðkomandi þeim ráðstöfunum, sem þarna eru gerðar, get ég sagt það, að um leið og ég fresta því að beina ásökunum gegn hinum þrem mönnum, sem staðið hafa að þessari byggingu eða framkvæmd hennar, — þeim fulltrúum, sem Alþ. hefur falið þetta verk a.m.k. óbeinlínis, með því að leggja það í hendur þess ráðh., sem skipað hefur þá menn, — ég ætla að fresta öllum ásökunum á hendur þessum mönnum, –sem er enda ekki hægt, eins og samningarnir eru orðaðir, að ásaka þá án þess að rannsaka málið, — þá legg ég til og mun beita áhrifum mínum til þess, að málið verði rannsakað og það að sjálfsögðu Lagt fyrir hv. Alþ. Því að vitanlega eiga hv. þm. kröfu til þess, í þessu máli eins og öðrum, að fá að skyggnast nákvæmlega inn í þá reikninga og þau vinnubrögð, sem þarna hafa átt sér stað viðkomandi þessari byggingu. En hv. þm. ættu að muna það í þessu máli, að það er ekki núv. ríkisstj., sem hefur unnið þetta verk. Og í öðru lagi ættu hv. þm. að muna hitt, að það er erfiðara í að komast en um það að tala að afla tekna til þess að greiða þessa skuldasúpu, þar sem verið er að berjast við að afgr. tekjuhallalaus fjárl. Það má lengi segja, að það sé hægt að bæta þessu inn á fjárl. En einhvers staðar verður að nema staðar. Og við teljum, að við höfum numið staðar, þegar fjárl. hafa verið afgr.

E.t.v. hafa þeir menn, sem séð hafa um framkvæmd þessarar byggingar, sér til afsökunar einmitt þetta, að fyrir tveimur til þremur árum var fullyrt, að nóg fé væri til til þess að ljúka byggingu þjóðleikhússins. Eftir nokkur ár vantar svo þrjár til fjórar millj. kr. Og það er ekki fyrr en fyrir tveimur til þremur mánuðum eða svo, sem vitneskja fæst um það, að nú vantar stórfé enn til þess að fullgera þjóðleikhúsið. Og náttúrlega hefur það verið svo, þar sem þrír menn gegndu í þessu efni trúnaðarstörfum fyrir þessa framkvæmd, að fært hefur þótt að trúa yfirlýsingum þeirra um það, að nægilegt fjármagn væri til til þess að vinna verkin, sem þeir eru að vinna, þegar þeir senda yfirlýsinguna um það til hlutaðeigandi ráðh., sem gert var fyrir þremur árum, og svo aftur síðar. — Hitt er annað mál, að ástæða er til að rannsaka, hvort svona nefnd á að starfa áfram, og þá fyrst og fremst rannsaka, hvernig hún hefur rækt störf sín. Og það mun ekki standa á því, að ég hygg, að það verði gert. A.m.k. vil ég beita mínum áhrifum til þess, að svo verði gert. Því að það er ekki hægt að þola það í opinberum framkvæmdum, að slík vinnubrögð séu viðhöfð, án þess að það mál sé rannsakað. Það er mín skoðun í því máli.