25.11.1949
Efri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

27. mál, bæjarstjórn í Húsavík

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að þetta frv. kemur fram, er eðlileg og réttmæt. Húsavík er einn elzti verzlunarstaður landsins og nú orðin stærsta kauptún í landinu. Þar eru yfir 1.200 íbúar og þannig fleiri, en í kaupstöðunum: Sauðárkróki, Ólafsfirði og Seyðisfirði. — Engin ástæða er til að ætla, að ekki verði framhald í Húsavík á þeirri mannfjölgun, sem þar hefur orðið, svo vel sem kauptúnið er sett til lands og sjávar. Það er auðskilið mál, að slíkur hreppur hefur svo margt umleikis, að hann á ekki fulla samstöðu með venjulegum sveitahreppum. Í Húsavík er umfangsmikill hafnarrekstur, rafmagnsveita, vatnsveita, gagnfræðaskóli o.s.frv. Sveitarfélagið þarf að geta ráðið sér framkvæmdastjóra eða bæjarstjóra, því að vafasamt er, að hægt sé að fá í kjör slíkan starfsmann. Þetta meðal annars kallar eftir bæjarréttindum.

Frumvarpið er samið í öllum atriðum eftir löggjöf síðustu ára um bæjarstjórnir og sérstaklega lögum um kaupstaðarréttindi Sauðárkróks. Ég samdi það þannig til þess að tryggja því sem skjótasta afgreiðslu. Ég veit enga meinbugi á málinu. Ég tel, að það sé eins og vagn, sem horfir rétt á beinni braut og óhætt má setja í gang og aka áfram fullum hraða. En það mundi ég telja fullan hraða, ef frv. yrði að lögum á þessu ári, svo að fyrstu bæjarstjórnarkosningar í Húsavík gætu farið fram í n.k. janúar, því að þá er reglulegt kjörtímabil úti. Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. Alþ. hafi þennan hraða á, og leyfi mér enn fremur að leggja til, að frv. verði að lokinni umræðu hér í hv. deild vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.