29.11.1949
Efri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

27. mál, bæjarstjórn í Húsavík

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er vitanlega mjög heppilegt fyrir sveitarfélög almennt, ef lög verða samþ. þess efnis, að þau. megi ráða sér framkvæmdastjóra, því að oft er það bagalegt að þurfa að kjósa slíkan starfsmann sem oddvita, en þrátt fyrir það óska ég eindregið, að frv. þetta, sem nú er til umr., verði að lögum, því að margt er það fleira, sem gerir það eðlilegt, að þorp, sem hafa á annað þúsund íbúa, fái bæjarréttindi. Ýmis löggjöf er nú orðið einmitt miðuð við slíka skiptingu sveitarfélaga í bæi og hreppa eftir mannfjölda. Síðastl. ár fórum við Húsvíkingar t.d. þess á leit við hið opinbera að fá frá ríkinu þátttöku í lögreglumálum kauptúnsins, en var synjað. Hins vegar var látið í það skína, að ekki hefði verið hægt að færast undan þessu, ef Húsavík hefði haft kaupstaðarréttindi. Nefni ég þetta sem eitt dæmi þess, hve réttmætt það er, að svo fjölmenn kauptún sem Húsavík er fái bæjarréttindi.